Síðasta færslan

Kæru bloggvinir 

Þar sem við erum flutt á klakann hefur stjórnin ákveðið að hætta að bögga.  Þið getið bara hringt eða komið við og fengið fréttir. Þökkum samfylgdina á liðnum árum. ☺


Litlir kassar á Lækjarbakka

Kæru bloggvinir

Það hefur eitthvað verið að vora meira hér í gær og í dag. Ágætis veður. Sérstaklega í dag. En það er nú ekki mikill tími til að njóta þess. Það mætti halda að dótið vaxi hérna inni. Maður heldur alltaf að það hljóti að fara að minnka eitthvað, það sem á eftir að pakka niður. En það sér varla högg á vatni.

Á föstudaginn var frídagur hér í Danaveldi og við héldum kveðjupartý fyrir það fólk sem við höfum haft mest samskipti við. Þetta var mjög fínt, en líka mjög erfitt. Það er ólíklegt að maður sjái þetta fólk aftur, svo frúin felldi ansi mörg tár.

Þetta er nú líka farið að hafa meiri og meiri áhrif á börnin. Auður tekur daglega skapofsaköst og hreytir út úr sér misfögrum orðum. Ágúst er mjög lítill í sér og það þarf ekki mikið til að hann brotni saman.

Næsta föstudag kemur gámurinn og við ætlum að fá að gista hjá Óla og Ástu síðustu dagana. Við þurfum að ganga frá og þrífa á laugardaginn og svo fljúgum við heim á sunnudaginn. Verst ef það fer að verða eitthvað rosa gott veður hér, þá finnst manni svo erfitt að fara héðan.

Frúin vinnur síðasta dag á fimmtudag. Það verður nú eitthvað grátið þá. Bóndinn fer í síðasta skipti í vinnuna á þriðjudaginn. Þeir eiga nú örugglega eftir að sakna hans. Hann er farinn að hanna hluti og láta til sín taka. Hann fór í röntgenmyndatöku í síðustu viku og fær niðurstöðurnar á morgun. Við krossum putta fyrir því að hann sé ekki með brotinn þumalputta. Ekki mjög góð tímasetning fyrir svoleiðis.

Það fer svo að líða að lokum þessa bloggs, sem hefur víst verið fastur gestur hjá nokkrum lesendum síðustu 8 árin allavega. Það verður skrýtið ekki að setjast niður á sunnudögum og skrifa um lífið og tilveruna. Kannski ég verði bara að halda áfram, til að fá ekki fráhvörf.

Annars hafa Danirnir eitthvað verið að vonast eftir að við færðum þeim einhverjar fréttir frá Íslandi. Ein sem frúin er að vinna með hafði af því áhyggjur hvort það væri sama internet á Íslandi og Danmörku, svo við gætum nú haldið sambandi. Fyndið hvað fólk er eitthvað lítið inn í hlutum utan síns eigins lands.

Í gærkvöldi fórum við til Óla og Ástu og grilluðum og horfðum á fyrrihluta eurovision. Frúin gafst upp í miðjum klíðum, alveg búin á því úr þreytu. Börnin fengu líka að vaka og fannst það mjög spennandi. Bóndinn hafði haldið með Portugal og var því mjög sáttur við úrslitin.

Jæja best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið (verðum við svo bráðum Ásbrúargengið, eða hvað?) Góðar tillögur óskast

 

 


Smá sólarglæta

Kæru bloggvinir

hér hefur verið smá sólarglæta í dag, en þá var okkur boðið í fermingarveislu, svo við vorum innandyra í mestallan dag. Það var íslenskur strákur héðan úr Gram, sem var verið að ferma. Það var fínt að borða og börnin skemmtu sér vel.

Í gær var brunað til Þýskalands að versla inn, bæði til að taka með heim og fyrir það sem er framundan. Það þarf ekki orðið að versla mikið inn í matinn, því við erum að reyna að klára úr skápunum. Við erum smám saman að verða búin að losa okkur við innbúið, en það er eitthvað smávegis eftir. Naggrísirnir voru sóttir í vikunni. Dóttirin á heimilinu var ekki hrifin, en við fundum konu sem hefur mikinn áhuga á dýrum og kemur örugglega til að hugsa mjög vel um þá. Það er voða skrýtið að heyra ekki tístið í þein, þegar maður gengur um, en það er ekki mikill söknuður af að hreinsa undan þeim skítinn.

Auður fór í síðasta skipti á skátafund og í reiðskólann í vikunni. Það er ekki tími fyrir að fara oftar. Næsta föstudag er stóri bænadagur hér og frí í skóla og vinnu. Þá ætlum við að bjóða þeim sem við höfum umgengist mest og drekka kaffi saman og borða kökur. Það verður nóg að gera næstu tvær vikurnar áður en við komum heim. Það er ekki alveg búið að ganga upp fyrir okkur að við séum að fara að flytja. Ætli manni finnist ekki bara að maður sé að fara í frí á Íslandi. Allavega svona til að byrja með. Maður hlýtur svo að átta sig á þessu smám saman.

Við kíktum í heimsókn hjá konunni sem hefur verið dagmamma barnanna. Maðurinn sem keypti af okkur húsið er kominn í íþróttanefndina í bænum. Það fylgir því greinilega að búa í húsinu að vera með i því. Frúin komst svo líka að því að einn af rútubílstjórunum sem hún keyrir með, býr líka í Tiset. Við bjuggum í TIset í 8 ár og við höfum aldrei séð manninn. Það er nú svolítið skrýtið.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið


Allt á fullu

Kæru bloggvinir

hér er nóg um að vera. Sólin skín, en það er eiginlega mest gluggaveður. Börnin eru einhvers staðar utandyra að leika sér. Við náðum að losa okkur við bílinn á sunnudaginn og bóndinn fór á fullt að leita að einhverri druslu til að komast á í vinnuna. Hann fann eina í Varde, sem er aðeins norðar en Esbjerg. Hann fór með lestinni þangað á mánudaginn og keypti gamlan peugot. Hann komst á honum heim, en varð að henda honum á verkstæði og láta laga eitthvað smá í framöxlinum. Verkstæðismaðurinn fór yfir hann og samþykkti hann svona til bráðabirgða. Það er reyndar farið undan honum pústið, svo maður er eins og traktor. En það hlýtur að reddast í þennan stutta tíma. Svo selur maður hann bara í brotajárn og þá hefur maður keyrt fyrir 16.000 síðustu vikur.

Á föstudaginn var farið í vinakvöldverð í síðasta skipti. Það verður nú mjög skrýtið ekki að vera með í því lengur. Við erum búin að vera fastir gestir í 4 ár.

Í gær var svo farið á kagganum í afmæli til Odense. Við fórum í leiðinni í svona búð sem bóndinn getur fengið föt í og hann fataði sig upp. Það er ekki vanþörf á. Það eru ekki sömu möguleikar á að kaupa stór föt á Íslandi. Við erum nú smám saman að verða búin að losa okkur við það sem við ætlum. Einhver húsgögn eftir. Það sem við losnum ekki við, fer bara í Rauða krossinn. Svo eigum við líka eftir að selja tjaldið sem við höfðum hérna úti, sem geymsluskúr. Ef það er hægt að selja það. Annars verður maður bara að gefa það.

Ágúst fór líka í síðasta skipti í sund. Hann synti 100 metra og fékk skirteini fyrir. Það þótti honum mjög spennandi. Það verður nú dálítið skemmtilegra að fara í sund á Íslandi. Og helmingi ódýrara.

Það er smám saman að renna upp fyrir manni að þetta sé að skella á. Tíminn flýgur áfram. Börnin eru farin að verða ansi stressuð yfir þessu. það er ekki langt í pirringinn hjá þeim. En það er ekkert skrýtið. Þau vita ekkert hvað þau eru að fara út í.

Jæja ætli sé ekki best að fara að reyna að finna börnin, þau eru einhvers staðar úti. Við vorum búin að lofa að koma í kaffi hjá Evu gömlu.

Kveðja

Gramgengið

Í morgun hentist frúin í að pakka í nokkra kassa. Það vaxa bunkarnir af kössum. Það virðist endalaust vera hægt að finna dót til að pakka í kassa. Í


Allt í gangi

Kæru bloggvinir

hér hefur ekki mikið bólað á vorinu. Það liggur við að maður þurfi að draga fram úlpuna aftur. Við fórum og sáum kúnum hleypt út. Það kom haglél þegar þær komu út, en það gekk samt fljótt yfir. Það var samt alveg fimbulkuldi. Við settum bílinn á sölu fyrir nokkrum dögum og það hafði ekki verið neinn áhugi fyrir honum, en svo hringdi maður í morgun og vildi endilega kíkja á hann. Það varð því að taka sig til og þrífa hann og gera kláran. Hann kom svo og keyrði burt á gripnum. Auður fór að gráta þegar hún sá að bíllinn var keyrður í burtu. Þetta tók eitthvað voðalega á hana. Það er greinilega mjög erfitt að losna við notaða bíla þessa dagana og lítið hægt að fá fyrir þá. Þessir bílar eru venjulega mjög vinsælir og aðrir bílar sem við höfum átt hafa nánast verið rifnir úr höndunum á okkur.  En allavega er hann farinn og við vorum búin að semja við vini okkar að fá lánaðan þeirra bíl í smá tíma, en svo gekk það ekki upp, svo nú er bóndinn í tómum vandræðum að komast í vinnuna á morgun. Það er nánast vonlaust að komast í vinnuna án bíls. Það eru 10 km fyrir hann í vinnuna, en það tekur 2 tíma að fara með almenningssamgöngum. Við vonum að það finnist einhver lausn á þessu.

Í gær var Auður mest allan daginn með skátunum eitthvað að æfa sig úti við. Þau unnu einhver verðlaun og það þótti mjög spennandi. Ágúst var úti að hjóla á meðan. Það er voða mikið sport akkúrat núna. Auður er líka mjög dugleg að æfa sig.

Í gær var líka pakkað eitthvað niður í kassa, það virðist alltaf vera eitthvað að pakka niður. Það er af nógu að taka. Alveg spurning hvort þetta komist allt með. Það verður þá að skilja eitthvað eftir.

Annars er líka nóg að gera að planleggja síðustu metrana hérna. Það virðist heldur ekki vera neinn endir á því. Maður verður svo þreyttur þegar maður kemur heim til Íslands að maður hefur enga orku til að vinna. Gott að maður þarf bara að vinna í einn mánuð og svo er maður kominn í sumarfrí. Við ætlum að panta gott veður í júlí, svona af því að vorið hér virðist ætla að vera með eindæmum leiðilegt.

En jæja ætli maður reyni ekki að fara að slaka á eftir erill helgarinnar, svo maður geti gert eitthvað í vinnunni á morgun.

Kveðja

Gramgengið

 

 


Páskafrí

Kæru bloggvinir

hér er mikið að vera nóg að gera í páskafríinu. Við hjónakornin létum loksins verða af því að kaupa okkur nýja yfirdýnu á rúmið okkar. VIð keyptum notað rúm fyrir nokkrum árum. En yfirdýnan var hálfónýt. Það var ekkert smá skrýtið að fá nýja dýnu sem var í lagi. Þá fattar maður hversu léleg hin var orðin. Nú sefur maður bara eins og ungabarn.

Á fimmtudaginn var börnunum boðið í bíó. Þau hafa suðað um það lengi en við höfum alltaf sagt nei. Við fórum að sjá dýrin í Hálsaskógi. Það var voða gaman og mikil upplifun fyrir krakkana. Það voru ekki aðrir í bíó en við og ein önnur fjölskylda.

Á föstudaginn langa var okkur boðið í kaffi hjá kunningjum okkar. Það var nú svolítið fyndið að við höfum verið að leita að uppþvottavél, til að taka með okkur heim. Þau voru líka að leita að svoleiðis og höfðu meira að segja verið að bjóða í sömu vél og við. En við buðum hærra o við fórum því og náðum í hana seinnipartinn. Nú þurfum við bara að finna okkur þurrkara, þá ættum við að vera búin að græja okkur upp. Þetta er allt notað, en ef maður er heppin,getur þetta alveg endst eitthvað.

Við komumst að þvi um daginn að passinn hjá Gumma er runninn út. Þá eru nú góð ráð dýr. því áður höfum við getað fengið tímabundinn passa hjá sendiráðunum hér. En það er víst hætt og maður þarf að fara til Kaupmannahafnar. Það tekur mánuð að redda því, svo við verðum að finna einhverja einhverja aðra lausn á því. Kannski fær hann að fara með, af því við erum öll með gilda passa. VIð þurfum eitthvað að kanna það mál. Það er náttúrlega alveg fáránlegt að maður geti ekki lengur fengið einhvern stimpil. Það er alltaf verið að flækja hlutina eitthvað. Kannski getur hann líka sloppið af því við erum bara á one way ticket. Þeir verða sennilega bara fegnir að losna við okkur úr landi.

Í gær var farið út að hjóla. Ágúst er að reyna að hjóla án hjálpardekkja og við erum búin að taka annað dekkið af. Honum gengur bara nokkuð vel, svo það er planið að taka hitt af á eftir og sjá hvernig gengur. Hann er mun minna stirður en stórasystir hans. Við renndum líka til Óla og Guðnýjar. Rétt hjá þeim var opið hús á bóndabæ sem er bara með bara með kindur og við fórum að kíkja á lömbin. Það var líka verið að sýna hvernig maður spinnur ull og frúin fékk að prófa. Það verður nú víst ekki hennar framtíðarstarf. En gaman að prófa og sjá hvernig þetta er gert.

Í dag fór Auður að leika við gömlu vinkonu sína sem bjó á móti okkur í Tiset. Frúin og Ágúst fóru út að hjóla með vini sínum hér við hliðina. Við fórum að kíkja á dýrin og byggja eldstæði. Það var nú samt ekkert kveikt í. Það er gaman að sjá hvað þessum börnum dettur í hug.

Bóndinn er búinn að baka pönnsur og Ásta og Óli eru væntanleg í kaffi. Við keyptum danskt lambalæri og það er að marinerast í ísskápnum. Það verður nú einhver veisla. Við keyptum íslensk páskaegg í gegnum Íslendingafélag hér ekki mjög langt frá. Börnunum þykir þetta mikið sport. Þau voru send í svaka leit í morgun, að finna eggin.

Svo verður maður sennilega að reyna að taka því rólega á morgun og safna kröftum fyrir næstu törn. Það verður að fara að pakka meira niður og gera klárt fyrir flutning.

Gleðilega páska

Kveðja

Gramgengið 


Sólarglæta

Kæru bloggvinir

það hefur verið ljómandi veður hér um helgina og við höldum kannski að vorið sé að koma. Við fórum á austurströndina og söfnuðum steinum og skeljum. VIð ætlum að reyna að gera einhvers konar minnisgrip frá Danmörku, svo við munum nú hvernig steinarnir líta út hér. Það er fyndið að um leið og maður kemur á ströndina hér, þá eru börnin farin að horfa niður á jörðina og leita að steinum og skeljum. Það voru nú ekki margir sjáanlegir á ströndinni. Enda vorum við þar fyrir hádegi. Kannski voru Danirnir ekki vaknaðir.

Annars hefur vikan boðið upp á fasta liði eins og venjulega. Auður datt í skólanum og snéri illa upp á höndina á sér. Hún var sem betur fer ekki brotin. Það hefði nú verið fjör. Hún hefur einu sinni brotið vinstri höndina, en nú var það hægri höndin sem varð fyrir slagi. Hún virðist nú vera búin að jafna sig á þessu, allavega ef maður talar ekki of mikið um það.

Börnin og frúin fara til starfa og leikskóla og skóla næstu tvo daga og svo erum við komin í páskafrí. Það verður nú sennilega reynt að pakka einhverju meira niður í páskafríinu, og svo stunda heimsóknir. Það fer hver að verða síðastur að hitta okkur áður en við flytjum. Við ætlum að halda smá kveðjupartý áður en við förum. Það verður 12 maí.

Ágúst hrundi líka á hausinn í leikskólanum í vikunni og verð krambúleraður í framan. Þetta er búið að vera hálfgerð klaufavika. Frúin fór til læknis með fótinn. Honum leist vel á hann, fyrir utan að það er full mikill aukavefur í kringum skurðina. Það er sennilega komið af því það þurfti að skera hana tvisvar sinnum. Hann vildi bíða með að fjarlægja skrúfuna sem heldur þessu öllu saman, svo liðböndin í kring fái tíma til að gróa almennilega saman. Hún fékk að vita að það væri betra fyrir hana að sleppa hækjunni, svo hún varð að venja sig á að hætta að vera með hana. Það er nú mjög skrýtið í byrjun, þetta er orðið hálfgerður stuðningsfulltrúi. En þetta gengur nú betur og betur með hverjum deginum.

Það er verið að stefna á að reyna að kenna Ágústi að hjóla án hjálpardekkja í páskafríinu. Hann er mikið að tala um það. Spurningin er bara, hvort við fáum einhvern til að hjálpa til með það, frúin á erfitt með að hlaupa um á eftir honum. Við gerum okkur vonir um að hann eigi eftir að vera fljótari að læra á hjólið en systir hans. En við sjáum hvað gerist.

Jæja best að fara að huga að kvöldmatnum, það á auðvitað að henda kjöti á grillið. Eins gott að það verði pláss fyrir grillið í gámnum.

Kveðja

Gramgengið

 


Grilltímabil

Kæru bloggvinir

Það hefur verið eitthvað meira vorlegt veður hér undanfarið. Hitinn hefur farið upp undir 20 gráður, það er nú bara alveg ágætt hér. Bóndinn tók fyrstu svona alvöru grilltaktana í gær. Það var mjög gott að fá smá grillkjöt. Við höfum nú eitthvað aðeins grillað í vetur, en ekkert mjög mikið. Í gær var líka farið út í garð og reynt að taka eitthvað til. Þetta var orðið hálf pínlegt. Það verður ekki neitt rosalega skemmtilegt að yfirgefa landið, svona að vori til, þegar veðrið oftast er mjög gott. Við búumst ekki við neinni gríðarlegri veðraparadís, þegar við komum heim.

Síðustu helgi var klukkunni breytt og sérstaklega Auður hefur átt mjög erfitt með að sofna á kvöldin. Það er flennibjart þegar hún á að fara að sofa. Þetta virðist nú eitthvað vera að jafna sig. En mikið óskaplega er þetta nú alltaf þreytandi.

Frúin hefur lengi átt í vandræðum með farsímann sinn og orðið að fara fleiri skipti til Kolding, til að fá gert við hann. Á miðvikudaginn var farið í eina slíka ferð. Starfsmaðurinn sem við töluðum við fyrst var ekki á þeim buxunum að hjálpa okkur neitt og það endaði með að bæði bóndinn og frúin voru komin á háa c-ið. Það hjálpaði ekki mikið, svo við fórum inn í verslunina sem síminn var keyptur. Þar fengum við loksins hjálp sem var að einhverju viti. Nú er bara að sjá hversu lengi þetta endist. Ábyrgðin rennur út í júní.

Við fórum til Haderslev í gær að kaupa notaðan sjónvarpsskáp. Í leiðinni var farið með alla nema frúnna í klippingu. Við prófuðum einhvern nýjan. Aðallega af þvi hann er svo ódýr og það þarf ekki að panta tíma. Nú eru allir rosa fínir hér, nema frúin.

Í dag var okkur boðið í 60 ára afmælisveislu hjá einum úr vinakvöldverðunum. Það var mjög fínt, mikið sungið og borðað. Við erum að plana að hafa söng og hljóðfæraleik í öllum okkar veislum þegar við flytjum heim. Eru einhverjir sjálfboðaliðar sem vilja leika undir hjá okkur?

Á morgun er frúin búin að lofa að halda fyrirlestur um Ísland fyrir eldri borgara. Við gátum eiginlega ekki komið okkur undan því, af því maðurinn sem bað okkur um það hefur hjálpað okkur svo mikið og vill hjálpa okkur við flutningana líka. Frúin hefur haldið svona fyrirlestur áður, en var nýbúinn að henda þessu öllu, hún reiknaði ekki með að þurfa að nota þetta aftur. En sem betur fer var Ásta vinkona okkar nýbúin að undirbúa fyrirlestur fyrir skólann sinn og við fengum að stela því. Við bættum svo bara aðeins við. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer á morgun.

Manni finnst tíminn líða allt of hratt og áður en varir erum við tilbúin að flytja heim. Við væntum þess að það sé búið að þrífa rauðu dreglana og íslensku fánana, til að hafa til taks þegar við mætum á svæðið :)

Kveðjur frá Gramgenginu

 

 


stáluð þið vorinu?

Kæru bloggvinir

það hefur eitthvað lítið bólað á vorinu. Kannski einna helst í dag. Bóndinn fór samt í stuttbuxum út einn daginn. Frúnni fannst það nú full mikil bjartsýni. Hún er ennþá í dúnúlpunni með trefil. Það ætti nú fljótlega að fara að skipta. Við viljum gjarnan fá smá vor, áður en við flytjum til Íslands. Kunningjar okkar hér verða áræðanlega duglegir að láta okkur vita þegar það er gott veður hérna.

Á föstudaginn var vorhátíð í skólanum hjá Auði. Það var mjög gaman eins og venjulega. Ágúst fékk að fara með, hann hefur yfirleitt ekki fengið að koma með, af því þetta er á kvöldin. En Auður vildi endilega fá hann með, svo það var látið eftir þeim.

Í gær var svo brunað til Odense að heimsækja Guðný og Óla. Það var mikið fjör eins og alltaf. Það verður nú eitthvað þegar þær stöllur, Auður og Arndís eiga að kveðjast. Þær eru svaka góðar vinkonur. Auður fékk að fara og sjá Arndísi sýna leikfimi. Það var mjög spennandi. Auður hefur mikið suðað um að fá að vera með í svoleiðis, en það er svo illa stjórnað hérna, að við höfum ekki leyft henni það.

Hún fór í reiðskólann síðasta fimmtudag og brokkaði næstum allan tímann. Hún hefur ekki þorað því eftir að hún datt af hestinum um daginn. Það var einhver stelpa sem hljóp við hliðina á henni.

Seinnipart föstudagsins komumst við varla inn í innkeyrsluna hjá okkur, af því það hafði einhver bíll lagt svo pent hérna fyrir framan. Bóndinn náði að smeygja sér framhjá. Seinnipartinn í gær var bíllinn þarna einnþá, svo við hringdum á lögregluna, sem bað hann vinsamlegast að færa bílinn. Hann var svo farinn þegar við komum heim í gærkvöldi. Það er alveg ótrúlegt að fólk átti sig ekki á því að þetta sé innkeyrsla. En það leggur sennilega bara þar sem það sér laust pláss, en pælir ekkert í, hvort það sé leyfilegt eða ekki.Það er nú frekar hvimleitt. En við erum hvort sem er að flytja, svo við ´hljótum að geta lifað með þessu.

 

Kveðja

Gramgengið 

 


Vorið sem hvarf

Kæru bloggvinir

við héldum að vorið væri að koma, en það var einhver misskilningur. Það hefur verið mikill vatnskuldi hér undanfarið, nístir gegnum merg og bein. Það er eins gott það komi ekki mikill vetur aftur. Það er búið að pakka mest öllum vetrarfötum niður. Næstu helgi breytum við klukkunni, það er nú alltaf mikið fjör. Þá verður meira myrkur á morgnana í smátíma. Það er einmitt svo þægilegt að það er farið að vera bjart á morgnana, þegar maður þarf að fara í vinnuna.

Á föstudaginn sótti bóndinn frúnna í lestina í Ribe. Á leiðinni heim byrjaði að heyrast eitthvað skrýtið hljóð í bílnum. Það reyndist vera viftureimin sem var slitin. Bóndinn hringdi í kunnningja okkar og renndi til baka til Ribe, að reyna að skaffa nýja, en það eru til svo margar mismunandi að þeir áttu þetta ekki í búðinni. Það varð því að draga bílinn á verkstæði hér í Gram. Bílakarlinn okkar verður örugglega mjög leiður þegar við flytjum. Það eru ekkert smá góðir viðskiptavinir, sem hann missir. Maðurinn sem kom og dró bílinn á verkstæði kannaðist líka við okkur, gott að vera góður kúnni. Meðan við vorum að bíða eftir hjálp, datt bóndanum í hug að googla veghjálp á Íslandi, svona til að athuga, hvort það væri einhver þjónusta eins og hér. 5 færslan sem bóndinn fékk upp, var af bloggsíðunni okkar. Greinilegt hvað við skrifum mest um.

það er því ekki mikið verið hægt að gera hér um helgina utandyra, bæði af kulda og bílaleysi. Í dag fengum við þó lánaðan bíl, því Auður átti að sýna listir sínar í reiðskólanum og fá metið, hversu góð hún er. Hún er ennþá hálf smeyk eftir að hún datt af hestinum um daginn. En hún reddaði sér í gegnum þetta og var mjög stolt af því að fá verðlaun eins og hinir. Hún verður nú sennilega aldrei mikil hestakona, frekar en mamma hennar, en hún er mjög sátt við að vera þarna, svo við höldum áfram, þar til við flytjum.

Í kvöld verður svo snædd andasteik. Það er verið að borða allt upp úr frystikistunni þessa dagana. Við flytjum það ekki með okkur heim allavega. Það væri kannski sniðugt að fylla kistuna og flytja hana þannig heim. Maturinn væri sennilega ekki mjög geðslegur þegar heim væri komið.

Frúin er farin að vinna, þó ekki alveg á fullu blússi. Það gengur ágætlega, en það er ekkert grín að komast í gang eftir að hafa verið svona lengi heima.

Börnin hérna við hliðina hafa nánast búið hérna hjá okkur um helgina, mamma þeirra er búin að vera í uppskurði og er eitthvað slöpp. Við fórum út í gær. Sem betur fer eru bæði börnin okkar og börnin hér við hliðina mjög góð að leika sér úti. Þau hafa verið mikið úti líka í síðustu viku. Þeim tókst líka að eyðileggja leikhúsið sem við áttum. Það er erfitt að fá upp úr þeim hvað gerðist, en það lítur út fyrir að strákarnir hafi setið uppi á þakinu og það hafi ekki þolað það. Það er allavega alveg í frumeindum. Þeir vildu meina að það hafi komið einhverjir ræningjar og eyðilagt húsið.

Jæja best að fara að elda öndina

kveðja

Gramgengið


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband