Hrekkjavaka

Kæru bloggvinir

Héðan er allt gott að frétta. Haustið hefur verið milt að undanförnu og þetta frost sem var búið að lofa hefur ekkert komið. Við kvörtum nú ekkert yfir því.

Hér á heimilinu er allt á fullu í undirbúningi fyrir hrekkjavöku. VIð ætlum að hitta nokkra kunningja og vini og borða saman og leyfa krökkunum að fara og sníkja nammi. Það er víst aðalmálið. Þau hafa nánast ekki getað beðið af spenningi. Auður er sérstaklega tæp á tauginni, enda hefur hún meiri skilning á því hvað er á ferðinni.

Við rifjuðum upp gamlar minningar frá Tiset á föstudaginn. Það kom óboðinn gestur í ruslaskápinn og gæddi sér á innihaldinu í ruslapokanum. Maður hélt nú að maður yrði óhultur hér á 1 hæð, en nei greinilega ekki og bóndinn búinn að pakka niður músagildrunni. Húseigandinn lofaði að kíkja eitthvað á þetta, en það er nú svo sem ekki til að vita, hvort það gerist eitthvað. Það er nú ekkert sérstaklega huggulegt að vita af svona kvikindum í húsinu, en þetta er svo algengt hérna, að þetta þykir ekkert tiltökumál.

Í gær var ráðist í að baka hrollvekjandi kökur og skreyta húsið fyrir hrekkjavökuna. Bóndinn er mjög hrifinn af þessu, svo honum finnst þetta voða gaman. Þetta er kannski bara upphitun fyrir jólaskreytingernar. Danir taka þessa nú eitthvað meira með ró. Þeir eru ekki mjög hrifnir af svona amerískum siðum.

Í nótt færðum við klukkuna, það er nú alltaf jafn pirrandi. AUður vaknaði klukkan 6 í morgun og gat alls ekki sofnað aftur. Ekki á það bætandi að hún er líka að deyja úr spenningi yfir deginum í dag. Maður verður nokkra daga að komast í rétta rútínu aftur með svefninn.

Annars er víst lítið annað héðan að frétta. Held við séum ekkert að tala um kosningarnar. Bóndinn var búin að plana að vaka í nótt yfir úrslitunum, en hann kom víst upp í um 2 leytið og var búinn að gefast upp. Ætli við komumst ekki í heimsfréttirnar fyrir þetta, eins og fyrir að fegurðardrottningin er of þybbin. Maður er nú ekki alveg að ná upp í nef sér yfir þessu bulli.

Kveðja úr Gram


Hausthrollur

Kæru bloggvinir

þá er komið klassískt danskt haustveður. Skítakuldi og rigning. Þeir eru eitthvað að tala um að það eigi að frysta í nótt. En sennilega er það nú ekkert mjög mikið. Það er allavega ennþá hitatölur á daginn. Það þarf sennilega að fara að huga að því að fá vetrardekkin undir bílinn.

Auður er búin að vera heima alla vikuna í fríi. Við tókum Arndísi með okkur frá Odense á sunnudaginn og hún var sótt aftur á fimmtudaginn. Þær voru voða góðar saman. Það slettist auðvitað eitthvað upp á vinskapinn, en ekkert sem orð var á hafandi. Bóndinn skildi þær meira að segja eftir einar heima í smátíma. Það þótti þeim ekkert mál. Það er rosa munur að hafa svona vinkonur sem geta leikið og leikið, án þess að það sé eitthvað rosa vesen.

Frúin fór svo í frí á fimmtudaginn. Það var voða gott að fá smá auka frí. Það er alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera. Á föstudaginn fékk Ágúst heimsókn frá einum vini sínum af leikskólanum og Auður fór í sund með pabba sinum. Hún saknar þess pínu að vera ekki í sundi, en það er ekki hægt að vera í öllu. Það er rosa þægilegt að hafa svona viku þar sem það er ekkert að gerast í frístundum eða skóla. Þá er hægt að plana daginn í allt mögulegt annað.

Auður fékk svo Ágústu vinkonu sína í heimsókn í gær. Þær hafa lítið hist eftir að við fluttum frá Tiset. Það var nú samt eins og þær hefðu engu gleymt.

Í dag fór Ágúst svo og lék við vinkonu sína af leikskólanum. Hann var þar megnið úr deginum. Það er aldeilis munur að hafa svona ókeypis barnapössun. Ágúst virðist geta leikið við marga krakka, á meðan þetta er eitthvað meira vesen hjá Auði. Það er kannski bara af því hún er stelpa og þær eru oft með meira vesen.Hún er farin að reyna að vera eitthvað sætari við bróðir sinn. Hún er sennilega búin að finna út að það borgar sig, svo hann nenni að leika við hana. annars finna þau nú upp á ýmissi vitleysu.

Svo er bara heil vinnuvika framundan. Það er bæði gott og slæmt. Það er gott, því þá er meiri tími til að gera það sem þarf í vinnunni, en það er nú samt voða gott að hafa smá tíma hérna heima. En það væru sennilega ekki feit launaumslögin, ef maður væri heima alla daga og sennilega yrði það þreytandi til lengdar.

Annars er ekki mikið annað í fréttum héðan.

Kveðja Gramgengið


Blaðafall

Kæru bloggvinir

það er farið að sjá ansi mikið á trjánum hérna og laufin farin að falla. Það er þó ekki eins mikið laufafargan hér og var í Tiset. VIð vorum einmitt að tala um það í gær að við færum orðið mjög sjaldan á ruslahaugana eftir við fluttum. VIð vorum þar nánast hverja helgi, meðan við bjuggum í Tiset, en núna erum við þar mjög sjaldan. Það er mikill munur ekki að þurfa að spá í garði og svoleiðis. Það þarf nú sennilega eitthvað að taka til hérna á bak við fyrir haustið, en það fer að blása eitthvað meira.

Á föstudaginn fórum við í vinakvöldverð. Það hefur verið í sumarfríi. En það var nú næstum sama fólkið sem var mætt. Það er sami kjarninn sem mætir. Svo hjálpuðum við Evu gömlu að hreinsa til í garðinum og keyra drasli á haugana. Börnin og frúin fóru svo í leiðangur og ætluðum að gefa öndunum brauð, en það voru engar endur. Við fundum hnetur og kastaníuhnetur í staðinn.

Í dag var svo brunað til Odense, Sigvaldi hélt smá afmælisveislu. Hann varð tveggja ára. Við tókum svo Arndísi með heim. Þær eru í fríi í skólanum og alveg upplagt að leyfa þeim að vera meira saman. Annars myndi Auði bara leiðast. Ágúst fer í leikskólann fram á miðvikudag og svo tökum við smá frí fram yfir helgi. Kannski við reynum að láta verða af því að fara í bíó. Það er voða lítil menning fyrir leikhúsferðum fyrir börn, annars væri meður alveg til í það. En það verður að bíða betri tíma. Börnunum finnst allavega mikið sport að fara í bíó. Þau fást nú ekki til að sitja kyrr hérna heima og horfa á heila mynd. Þá þarf allavega að vera stanslaust eitthvað að borða. EN það er sennilega auðveldara að fá þau til að sitja kyrr í bíó

Maður finnur vel fyrir því hér að það er meiri gólfkuldi. VIð vorum orðin svo góðu vön með gólfhita í öllu húsinu. En á móti kemur að húsið sem við búum í núna er betur einangrað og heldur betur hita. Það verður bara að snara sér í ullarsokka þá.

Jæja best að fara að gefa börnunum að borða

Kveðja

Gramgengið


Haustveður

Kæru bloggvinir

Í dag skín sólin, en það blæs og er frekar kalt. En mjög fallegt haustveður. Þeir eru að spá næturfrosti bráðum. Svo maður getur farið að undirbúa sig.

Í gær var basar í skólanum hennar Auðar. Það var hægt að taka þátt í alls konar leikjum og kaupa kökur og allt mögulegt. Það var fullt af fólki og mikið um að vera.

Í dag er Auður svo með skátunum allan daginn að leika sér. Hún er orðin mjög ánægð með að vera þar. Foreldrarnir eru nú ennþá frekar pirraðir yfir stjórnendunum,. en það er ekkert við því að gera. Aðalmálið er að hún sé ánægð. Henni fer fram í reiðmennskunni, en hesturinn sem hún er á, lætur illa að stjórn. Það eru allir búnir að gefast upp á honum. SPurning um að við kvörtum líka og sjáum hvort það hjálpar eitthvað. Það er nú mikilvægt að komast vel í gang, þegar maður er að prófa svona í fyrsta skipti. Og Auður er bara þannig, að hún hefur ekki mikið sjálfstraust og það þarf að hjálpa henni í gang. En við sjáum til, hvort frúin geti ekki byrst sig eitthvað næst og kannski virkar það.

Húseigandinn kom í fyrsta skipti hér inn í síðustu viku. Það hefur verið töluvert mál að ná tali af honum, en hann lofaði öllu fögru. Það verður gaman að sjá, hvernig gengur að gera það sem hann er búinn að lofa.Hann lætur kannski gera við það sem getur skemmt húsið, ef ekkert er að gert. Hann er kannski bara svona upptekinn blessaður maðurinn.

Það er orðið nóg að gera að fylgjast með sjónvarpsþáttum núna. Það eru að byrja allar þáttaraðirnar sem við höfum verið að fylgjast með. Þá hefur maður afsökun fyrir að sitja eins og klessa fyrir framan sjónvarpið á kvöldin.

Eftir næstu viku er frí í skólanum í eina viku. Frúin er að vinna helminginn af vikunni, en Auður er í fríi með pabba sínum.

Jæja það er hálfgerð gúrkutíð hérna núna

kveðja

Gramgengið

 


Veðraskipti

Kloggvinir

Eins og við vorum búin að spá, þá skipti veðrið úr sumri í haust á einni nóttu. Það gerðist í síðustu viku. Það er reyndar mjög milt haust ennþá. En það er byrjað að vera meira rok. Það fylgir oft haustinu,

Hér er búið að vera nóg að gera um helgina eins og venjulega. Í gær var brunað til Kolding með síma frúarinnar í viðgerð. Hann er nú frekar nýr, en þeir eru ekki svo endingargóðir þessir nýju símar. Svo var farið í kaffi til Gunnþóru. Auði var búið að langa í lengri tíma að leika við Maju Elísabet og var því orðið við því. Gunnþóra er kominn alveg á steypirinn. Það er skrýtið hvað maður gleymir fljótt hversu stór maður er, svona rétt áður en maður eignast börnin.

Þegar heim var komið var farið á fullt í að skipuleggja 50 ára afmæli Rannveigar, sem býr hér í bænum. Hún var alveg grunlaus og kom úr verslunarferð og við tókum á móti henni. Þetta var mjög skemmtilegt og hún var mjög sátt við þetta, svona þegar hún var búin að átta sig á þessu öllu saman. Frúin hefur aldrei verið með í svona partýstandi áður, en það er gaman að prófa. Börnin voru í pössun á meðan og það gekk víst bara vel. Það er alltaf gott að komast aðeins að heiman.

Í dag var Ágúst svo búin að bjóða einni frá leikskólanum að koma að leika. Mamma hennar er frá Eistlandi en gift Dana. Þau eru mjög góð að leika saman. Við fórum út í góða veðrið. Það var búið að rigna frekar mikið í morgun, svo börnin fóru í regngalla og út að hoppa í pollum. Þau urðu rennandi blaut frá toppi til táar. En þeim fannst þetta örugglega hin besta skemmtun.

Annars er víst allt við það sama hérna megin.

 

Kveðja

Gramgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband