Jólasveinaöngþveiti

Kæru bloggvinir

hér hefur aldeilis verið mikið um að vera. Veðrið hefur verið mjög gott, stilla og smá kuldi, en bara fínt miðað við árstíma. Það er búið að vera mjög milt veður hingað til, en allar spár segja að það verði mjög harður vetur. Vonandi að hann vari þá bara ekki lengi.

Á föstudaginn var farið með Ágúst í 4 ára skoðun og sprautu. Hann kláraði sig mjög vel af þessu og fékk toppeinkunn hjá lækninum og sælgæti að launum. Hann var búinn að tala mikið um að hann ætlaði ekkert að gráta þegar hann fengi sprautuna, en hann gat nú ekki haldið aftur af sér. Eftir hádegið var jólaföndur í skólanum hjá Auði. VIð dunduðum okkur þar í nokkra tíma. Svo var haldið beint á jólaball hjá leikskólanum. Það var að venju einstaklega óskipulagt, en það kom allavega jólasveinn og gaf börnunum sælgæti. Það er nú víst það sem þetta gengur út á.

Í gær fórum við svo og vöktum jólasveininn í Gram. Han sefur í kastalanum hérna. Þegar það var búið að vekja hann fengu börnin að keyra í slökkviliðsbílum niður á torg. Auður og Ágúst fengu að sitja í gömlum brunabíl sem verkstæðiskarlinn okkar á. Það var víst ekki mjög leiðilegt. Verst að Gumma langaði svo með, en varð að víkja fyrir börnunum. Þegar við komum heim, komu 3 af börnunum hér við hliðina og voru hér í nokkra tíma að leika. Það voru nokkuð þreytt börn sem fóru í bólið í gær.

Í dag var svo farið að vekja jólasveininn í bænum þar sem Auður er í skóla. Þar eru börnin dregin í kerru, ein með fjórhjóli fyrir og ein með gömlum traktor. Það er keyrt í kringum bæinn og endað á verkstæði. Við vöktum jólasveininn líka þar. Það var sá skemmtilegasti jólasveinn sem við höfum séð í Danmörku. Hann var með ýmis atriði til að skemmta börnunum og sýndi þessu heilmikinn áhuga. Flestir jólasveinar sem við höfum séð, hafa verið mjög hlutlausir og óspennandi.

Síðan var okkur boðið í kaffi hjá kunningjum okkar sem eiga börn á sama aldri og Auður og Ágúst. Það var mikið fjör. Svo var haldið heim og nú er svo eftir að slaka á. Það verður alltaf eftir.

Kveðja

Gramgengið


Afmælishöld

Kæru bloggvinir

þá er enn ein helgin að verða á enda runnin. Hér hefur ekki verið slegið við slöku frekar en fyrri daginn. Við ætluðum að halda upp á afmæli Ágúst Ægis í dag, en það hentaði betur að gera það í gær, svo það var henst í að þrífa og baka og gera klárt. Auður á mjög erfitt með að höndla svona spennu, svo hún var að fara yfir um. Ágúst tók þessu nú með meiri ró, en fannst þetta nú ekkert leiðilegt. Hann fékk margar góðar gjafir og á nokkrar eftir, því við gefum honum líka pakka á miðvikudaginn. Þetta var bara svona smá þjófstart. Næstu helgi er fyrsti sunnudagur i aðventu og þá verður að fara að skreyta og svoleiðis. Það eru nú einhverjir byrjaðir að skreyta smá, en ekkert að ráði. Það er búið að hengja skraut í ljósastaurana hérna og við erum með eina skreytingu nánast fyrir utan gluggann. Það liggur við að við getum teygt okkur í hana. Það er nú sem betur fer ekkert sterkt ljós af þessu, svo þetta er bara fallegt að hafa fyrir utan gluggann.

Annars er hér allt í föstum skorðum. Nú fer að byrja alls konar jólaumstang í skólanum og leikskólanum. Á föstudaginn er fyrst jólaföndur í skólanum hjá Auði og svo jólaball hjá Ágústi. Það verður nóg að gera þann daginn.

Á föstudaginn var vinakvöldverður og það var huggulegt eins og venjulega. það er mikið sama fólkið sem kemur, svo þetta er allt saman mjög notalegt. Auði finnst þetta svo skemmtilegt að hún á erfitt með að bíða eftir að við förum af stað. Það eru alltaf einhverjir krakkar sem koma og hún þekkir og hún vill endilega leika við þá.

Við ákváðum að keyra út að sjó í dag og kíkja á ströndina. Þegar þangað var komið var svoleiðis hífandi rok og hálf kalt. En börnin hörkuðu þetta af sér og týndu tvo fulla poka af skeljum og steinum. Þetta varð hin besta skemmtun. Það var varla stætt fyrir þau á köflum. Maður kemst nú sjaldan í svona rok hérna, svo þetta var mjög góð æfing.

Í dag var ráðist í að kenna henni að spila á venjuleg spil. Maður hefur engar ömmur og afa til verksins, svo við verðum að ráðast í verkefnið sjálf. Það gekk nú bara nokkuð vel, við höldum stífum æfingum áfram. Það er nauðsynlegt að kunna að spila á spil, á þessum síðustu og verstu tímum.

Þessu mánuður byrjaði með frosti og fallegu veðri, en svo breyttist það í rigningu og rok og smá hita. Það þýðir bara að það er dumbungur hér alla daga og það verður ekki almennilega bjart allan daginn. Maður dreif sig í að henda vetrardekkjum undir þegar fór að frysta, en það hefur ekki verið mikil not fyrir það síðan. Það á nú eflaust eftir að breytast aftur.

Bóndinn er að byrja í vinnuþjálfun á þriðjudaginn. Hann verður bara nokkra tíma til að byrja með, svona til að komast í gang, en við vonum að það aukist svo smám saman. Þeir vita nú ekki alveg ennþá, hvað þeir ætla að nota hann í, en það kemur í ljós. Það verður allavega gott fyrir hann að komast út á meðal fólks svona nokkrum sinnum í viku.

Jæja ætli sé ekki komið að því að reyna að slaka eitthvað á.

Gramgengið


Músagangur framhald

Kæru bloggvinir

hér hefur verið frekar kalt en mjög fallegt veður undanfarið. Það er frost en stillt veður og lítið rok. Það er nú sjaldgæft að það séu svona stillur hérna, svo við njótum þess bara. Þeir eru eitthvað að tala um að það hlýni aftur í næstu viku. Maður vonar bara að það verði ekki eitthvað hringl á þessu, að þetta haldi þá bara áfram svona

Færslan síðast hét víst músagangur, en svo gleymdi frúin að skrifa um það. Það er annþá músagangur í ruslaskápnum. Bómdinn er búinn að setja mismunandi mat í gildrurnar, og þær virðast bara hlæja að honum. Ýta gildrunum eitthvað til og narta í matinn, án þess að gildran smelli. Kannski eru þær fluttar eitthvað annað. Það er víst nóg af húsum að búa í. Húseigandinn er allavega ekki enn búinn að koma og kíkja á málið. Maður er bara feginn að þetta eru ekki rottur. Það er verra en músagreyin. Svo lengi sem þær koma ekki inn og eru bara í ruslaskápnum, þá er þetta í lagi. VIð gætum líka fengið lánaðan kött og sett hann í smá leit. Við sjáum hvað setur.

Í gær fékk Ágúst heimsókn frá vinkonu sinni af leikskólanum og Auður fór í annan bæ hérna rétt hjá og var að gera leikfimiæfingar allan daginn. Hún var mjög þreytt í fótunum í dag, en fannst mjög gaman, svo kannski maður leyfi henni að prófa. Hún hefur suðað um þeð lengi, en við höfum verið eitthvað treg við að leyfa henni það. Hún er ótrúlega lipur eins og móðir sín og á örugglega eftir að slasa sig á þessu. Henni fer mikið fram í að lesa og skrifa og líka á reiðnámskeiðinu. Hún er nú samt ennþá bara að fara fetið og hesturinn sem hún er á, nennir heldur ekki meiru, svo það er fínt. Hún heldur vonandi áfram að fá meiri og meiri kjark og kemst þá kannski á brokk einhvern daginn.AUður hefur alltaf farið sínar leiðir með allt og maður verður bara að bíða og sjá. VIð fórum í foreldraviðtal í skólanum hennar í vikunni. Hún er mjög duglég í skólanum. Situr að mestu kyrr og hlustar. Þegar hún kemur heim, getur hún svo hvorugt, en það er sennilega algengt. Kennararnir voru allavega bara mjög ánægðir með hana og auðvitað eru foreldrarnir þá líka ánægðir.

Ágúst hefur verið á einhverju voðalegu mótþróaskeiði undanfarið. En þó hann verði mjög pirraður er hann nú alltaf fljótur að verða góður aftur. Við ætlum að halda upp á afmælið hans næstu helgi. Það koma nú ekki margir, en við reynum að halda einhverja smá veislu allavega og svo fer hann með eitthvað góðgæti í leikskólann. Hann er voða mikill bóndi í sér, svo hann vill auðvitað taka köku með sér í leikskólann, ekkert sælgæti. Hann vill líka frekar borða kjöt og kartöflur, en grænmeti. Auður er alveg öfug.

Í dag er svo búið að fara og klappa geitum. Þær voru svo ágengar að Ágúst var næstum genginn niður. Það hoppaði ein geitin upp á hann og klóraði hann fyrir neðan augað. Þær geta verið mjög ágengar.

En jæja ætli sé ekki best að fara að koma börnunum í bað og í háttinn.

Kveðja fra Gramgenginu 


Músagangur

Kæru bloggvinir

það er farið að kólna heldur og hráslagalegt veður. Það virðist vera alveg sama, hversu lengi maður býr í þessu landi, alltaf finnst manni jafn skítkalt.

Það hefur verið nóg að gera hér að vanda. Í gær var ráðist í að taka til í herbergjum barnanna. Það hefur ekki unnist tími til þess eftir við fluttum. Öllu var bara pakkað niður og enginn tími til að sortera. Það var unnið hörðum höndum og þvílíkt og annað eins drasl. Auður geymir voða marga hluti, bréfpappír og hitt og þetta, sem henni finnst mikil verðmæti í. Hún hefur aldrei leikið sér með dótið sitt, og gerir ekki enn. Það var því ákveðið að losa hana við helling af svoleiðis. Eitthvað fór upp á loft líka, sem við tímdum ekki að losa okkur við. Ágúst hefur aldrei átt svo mikið dót, svo það var ekki eins mikið mál að taka hans herbergi í gegn. En eitthvað var nú tæmt. Það var enginn smá munur að kíkja inn í herbergin eftir þessa aðgerð. Spurning, hversu lengi þetta fái að vera svona.Örugglega ekki mjög lengi.

Í gær var rennt eldsnemma til Þýskalands og drengirnir voru klipptir. Við vorum mætt 10 mín eftir opnun og það var klukkutíma bið. En þetta gekk nú allt saman og þeir feðgar voru gríðarlega fínir og ánægðir. Svo var verslað inn í leiðinni. Það var allt troðið af fólki, enda mikið að gera þegar fólk er búið að fá útborgað. 

Í dag var svo farið heljarinnar göngutúr og farið bæði og kíkt á hesta og farið á bak og svo í búðina og á bakaleiðinni fengum við kaffi hjá Evu gömlu. Hún eldist mjög hratt þessa dagana og þolir ekki eins mikið og hún hefur gert. Svo var farið í kaffihlaðborð hjá Ástu og Óla. Þar er ekki undir 17 sortum. Maður rétt náði að velta hér heim eftir þetta allt saman. Börnin voru greinilega ekki búin að fá nóga hreyfingu og þurftu að fara út að hjóla líka. Þau kvörtuðu nú mikið í morgun yfir hversu hræðilega þreytt þau voru í fótunum. Þau eru nú frekar þreytt núna og eiga örugglega eftir að detta út eftir smástund.

Frúin hefur sofið frekar órólega eftir tímabreytinguna síðustu helgi. Börnin hafa ekki fundið svo mikið fyrir því. Það er verra á vorin. Nú er svo bara bjartara á morgnana og meira myrkur seinnipartinn.

Nú fer að styttast í að það byrjí jólaskemmtanir í bæði leikskóla og skóla. Það verður nóg að gera í því.

Jæja best að fara að reyna að slaka á

Gramgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband