Strandferð

Kæru bloggvinir

þá er víst aftur komið að eins og einni færslu héðan úr stórborginni. Það hefur verið ágætisveður síðustu daga, en ekkert ofurgott samt. Við drifum okkur til Rømø í dag. Það er nauðsynlegt að koma þar allavega einu sinni á sumrin. Ekki til að liggja í sólbaði, enda ekki veður til þess, en bara upp á stemninguna og at komast nálægt sjónum. Börnunum finnst líka óskaplega gaman að safna skeljum og finna krabba og svoleiðis. Þau voru líka mjög dugleg að safna rusli, það var nóg af því.

Auður fór í heimsókn til Arndísar vinkonu sinnar á miðvikudaginn og var ekki skilað aftur fyrr en í gær. Ágúst var hálfvængbrotinn og fór alveg á yfirsnúning í gær þegar hún kom heim. Hann byrjaði í leikskólanum aftur á fimmtudaginn og var mjög sáttur við það. Hann var mjög ánægður með að hitta félaga sína aftur. Hann er oft að spila sig eitthvað voða kaldan karl, en svo þegar á hólminn er kominn, þá er hann með óskaplega lítið hjarta. Hann er að fara á aðra deild í leikskólanum. Það er nú alltaf viss áfangi. Hann fær nýja fóstru, við þekkjum hana ekki, en vonum hún sé almennileg. Auður fer svo aftur í útivist á miðvikudaginn. Hún fer í vist á sveitabæ í 3 daga. Á síðasta ári var svo gaman að hún grét úr sér augun yfir að þurfa að koma heim. Vonandi verður hún jafn ánægð í ár. Svo fer hún að byrja aftur í skólanum. Hún er byrjuð að æfa sig að skrifa. Hún tekur þetta mjög alvarlega. Frúin sagði hún mætti nú alveg taka sumarfrí, en hún´hélt nú ekki. Í gærkvöldi fórum við til Ástu og Óla og grilluðum og hlustuðum á íslenska tónlist, bara svona til að halda smá upp á verslunarmannahátíðina. Ágúst fór á undan okkur hinum og svo þegar við náðum honum, var einhver maður búin að taka hann að sér af því hann hélt hann væri að stinga af að heiman. Maður er nú ekki vanur því að fólk skipti sér af, en auðvitað mjög gott að fólk pæli í, hvað svona lítill strákur sé að gera einn úti að labba.

Frúin byrjaði að vinna aftur á fimmtudaginn og það var mjög fínt að hafa bara svona stutta vinnuviku. Nú er svo alvaran í næstu viku, þá verður maður víst að mæta í vinnuna alla 5 daga. En ætli það hafist ekki. Jæja best að fara að grilla og kíkja á börnin sem eru algjörlega búin á því eftir strandtúrinn. kveðja Gramgengið


Veðurblíða

Kæru bloggvinir

þá er sumarveðrið loksins komið. Það stoppar nú víst ekkert lengi, en við njótum þess meðan það er. VIð erum búin að búa á ströndinni síðustu daga. Það hefur verið mjög fínt. Kössunum hefur eitthvað heldur fækkað og þetta er allt að verða komið í fastar skorður. Það er helst að maður eigi erfitt með að finna hlutina af því við erum ekki vön að hafa svona mikið pláss.

Núna vantar bara bókaskápa og þá er hægt að ganga frá því síðasta.

Auður hefur leikið við vinkonur sínar og svo hafa þau verið hjá nágrönnunum. Þeim finnst víst ekkert leiðilegt að vera flutt.

Það hefur ýmislegt verið brallað, en það hefur eitthvað gleymst að slappa af. Það er alltaf eitthvað sem verður eftir. Við hljótum að ná því einhvern tíma. Það er mikilvægast að njóta þess að vera í fríi og ekki þurfa að smyrja nesti og svoleiðis. Auður er svo að fara í heimsókn til Arndísar á miðvikudaginn og verður í nokkra daga og í næstu viku fer hún á sveitabæ og gistir í nokrrar nætur, svo fer skólinn að byrja.

FRúin fer að vinna á fimmtudaginn og Ágúst fer í leikskólann. Hann verður nú örugglega feginn að geta leikið við vini sína. Annars hafa þau systkinin verið betri að leika sér eftir við fluttum hingað.

Maður er nú alltaf með einhver svaka plön um allt sme maður ætlar að ná í sumarfríinu og nær svo ekki nærri öllu. En núna fór nú fyrsta vikan í að pakka úr kössum og koma dótinu fyrir.

Það er búið að rífa þakið af gamla húsinu okkar í Tiset og sennilega búið að setja nýtt á. Við höfum ekki keyrt þar framhjá í nokkra daga. Það er voða skrýtið að sjá að það er eitthvað annað fólk að gera það sem manni sjálfum hefur langað að gera.

Jæja best að fara að henda sér í sófann áður en það þarf að gera kvöldmat. Það gerir sig víst ekki sjálft þó maður sé í fríi. Það væri annars mjög gott.

Kveðja úr sólskininu


Litlir kassar

Kæru bloggvinir

Enn lætur sumarveðrið bíða eftir sér. Það er svo sem ágætt þar sem maður hefur haft nóg að gera að pakka upp úr kössum og fara á ruslahaugana. Við erum búin að þvælast um landið að kaupa ódýr notuð húsgögn. Nú vantar okkur víst bara bókahillur og þá getum við klárað síðustu kassana. Við erum nú búin að reyna að fara út á hverjum degi og finna eitthvað að gera, þrátt fyrir veðrið. Við erum að vona að það fari eitthvað að rofa til í veðrinu í næstu viku. En maður veit nú aldrei.

Börnin hafa haft mjög gott af því að flytja. Þau eru orðin mun betri að leika sér saman. Sennilega af því að þau hafa möguleikann á að fara inn í sitt hvort herbergið ef þau nenna ekki að vera saman. Ágúst er allavega mjög góður að fara inn í herbergið sitt. Við fórum og skiluðum Arndísi á fimmtudaginn og fórum í IKEA í leiðinni. Það er nú venjulega ekkert skemmtiefni, en þetta gekk vel, það voru ekki svo margir og við fengum marga góða hluti. Svo komust börnin í boltaland líka. Það var víst ekki svo slæmt.

Við fórum í leiðangur í vikunni og keyptum notað hjól fyrir Auði. Hún hefur átt mjög erfitt með að læra að hjóla og foreldrarnir nú heldur ekki þeir þolinmóðustu. En það fannst hjól fyrir hana og svo var farið í æfingar. Hún hefur greinilega verið að æfa sig í skólanum því hún er næstum farin að geta hjólað. SMá vandræði við að fara af stað og stoppa. En við verðum bara að æfa í sumarfríinu og vona að þetta komi þá allt saman. Móðirin átti nú líka mjög erfitt með að læra þessa lyst, svo barnið hefur þetta ekki frá ókunnugum. Svo er bara að fara að venja Ágúst við að hjóla, svo hann lendi ekki í sama veseni. En hann er nú heldur ekki svo jafnvægislaus eins og systir hans.

Það hefur verið nóg að gera hjá börnunum um helgina. Krakkarnir hér við hliðina hafa ekki verið heima, en komu í dag og það hefur verið rennirí hér í allan dag.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á.

Kveðja frá stórbænum


Sumarfrí

Kæru bloggvinir

þá er maður búin að búa á nýjum stað í rúma viku. Við kunnum bara vel við okkur og erum að verða langt komin með kassafjallið. Maður er kominn með ógeð á að taka upp úr kössum. En kosturinn hérna er að það er hægt að leggja hlutina frá sér. Í Tiset var allt hálfklárað, svo maður hafði enga staði fyrir hlutina. Við tókum til í herbergjunum hjá krökkunum í gær og nú eru þau orðin voða ánægð með þetta. Ágúst er nú samt ekki alveg að fatta að hann á að leika inni hjá sér. En systir hans er nú mjög dugleg að segja honum að koma sér út.

Við lentum heldur betur í svaðilförum í byrjun vikunnar. Bóndinn kom og sótti frúnna í vinnuna og við kipptum einum ísskáp með okkur. Það var bara svona lítill ísskápur í íbúðinni og það var frekar pirrandi. Þegar við komum til Ribe nennti bíllinn ekki meira og við urðum að hringja eftir aðstoð. Það var nú ekkert auðvelt með bíl, kerru og 4 einstaklinga. En það kom einhver rosa trukkur og dró bílinn til Gram. Börnunum þótti þetta gríðarlega spennandi og fannst þetta víst ekkert leiðilegt. Auði fannst skrýtið að við vorum eitthvað pirruð yfir þessu. Það kom í ljós að alternatorinn gaf upp öndina. Það er alltaf eitthvað til að ergja mann. En gott að geta hringt eftir aðstoð.

Í gær komu Guðný og Óli í heimsókn, þeu skildu Arndísi eftir og þær stöllur hafa skemmt sér konunglega í dag. Ágúst hefur fengið að vera með svona stundum.
Veðrið hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Ringning og skýjað marga daga. En við drifum okkur nú samt út á róló í dag. Við erum ekki með rólur og trambolín í garðinum eins og við vorum með í Tiset. En þá verðum við bara að vera duglegri að fara á róló.

Það varð svo líka aukning í fjölskyldunni. Við náðum í naggrísi í vikunni. Þeir hafa vakið mikla lukku hjá unga fólkinu. Það er nú það sem skiptir mestu máli. SKítt með að við fullorðna fólkinu finnist þetta hálfgert vesen að þrífa skítinn eftir þá.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir átök morgundagsins. Það bíða ennþá kassar eftir að verða opnaðir.

Kveðja frá stórborginni

Gramgengið

 


Flutningar

Kæru bloggvinir

Þá kemur hér fyrsta bloggið frá nýja heimilinu okkar. Við erum búin að vera á fullu að flytja. Við tókum það mesta á fimmtudaginn, fengum góða hjálp frá nágranna og félögum. Þetta hafðist allt saman og svo fékk frúin hjálp til að þrífa kofann. Við urðum að sofa hjá vinum okkar á föstudagsnóttina, því það kom ekki vatn á íbúðina fyrr en á föstudaginn. Við létum nýja eigendur hafa lyklavöldin á föstudaginn. Það var nú voðalega skrýtið og mjög blendnar tilfinningar. En þetta hlýtur að venjast. Þau sem keyptu húsið voru mjög sátt og gátu flutt inn strax. Þegar við tókum við húsinu þurftum við að byrja á að þrífa og henda út ógeðslegum teppum. Það verður spennandi að sjá þegar þau eru búin að setja nýtt þak og gera það sem þau ætla að gera.

Í gær var svo brunað til Odense í afmæli til Arndísar. Það var mikið fjör að vanda. Þær stöllur hafa suðað lengi um að fá að gista saman og við ætlum að leyfa þeim það í sumarfríinu. Það verður eitthvað fjör. þær eru ansi uppátækjasamar.

Börnin hafa tekið því ótrúlega vel að flytja. Auður varð þó mjög leið þegar hún fann út að við gætum ekki haft Nonna með okkur. En bóndinn lofaði að hún fengi einhver smádýr þegar við værum flutt. Ætli það verði ekki endað á að kaupa naggrísi eða eitthvað svoleiðis.
VIð erum ekki búin að gera herbergin þeirra alveg tilbúin, en þau eru heldur ekki vön að sofa í sitt hvoru lagi. Auður virðist njóta þess vel og fer inn í herbergi og lokar að sér og sefur lengur á morgnana. Ágúst hefur hins vegar ekki alveg átt eins auðvelt með að venjast því að hafa herbergið fyrir sig. En vonandi lærir hann að njóta þess þegar það er liðinn smá tími.

Í morgun fór Ágúst strax á stjá og vildi fara til nágrannans og leika. Þeir eru saman í leikskólanum og eru búnir að hlaupa hér fram og tilbaka í allan dag. Auður lék sér líka við hann og líka við systir hans. Þau eru allavega 4 börn og Auður þekkir líka bróðir þeirra. Það væri vonandi að þetta gangi svona vel áfram. Það er enginn smá munur að þau hafi einhvern að leika sér við. VIð erum búin að setja borðstofuborðið inn í stofu til að byrja með. Það er varla hægt að borða því það er svo mikið sem hægt er að fylgjast með út um gluggann. Við búum jú niður í miðbæ! :)

Afmælisdegi frúarinnar var fagnað með því að taka upp úr kössum. Við erum varla búin að setjast niður í dag. VIð héldum þó smá afmæliskaffi. Börnunum fannst ekki annað hægt.

Bóndinn ætlar svo víst að vera límdur yfir fótboltanum í kvöld og frúin verður að lesa kveðjurnar á fésbókinni. Svo er bara ein vinnuvika áður en sumarfríið skellur á.

Baráttukveðjur úr stórborginni


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband