Hvert fór sumarið

Kæru bloggvinir

suma

Sumarið sýndi sig hér í nokkra daga en er farið aftur. Það er ausandi rigning i´dag og það voru víst þrumur og eldingar í nótt og líka í morgun. Aldeilis sumarlegt það. VIð fórum út að labba í morgun og lentum í þessari líka úrhellis rigningu. Það var ekki þurr þráður á okkur á eftir. Í gær var mjög gott veður og við vorum úti við mest allan daginn. Ágúst er búinn að fá tvíhjól og er að byrja að æfa sig að hjóla. Frúin skellti sér á bak líka og við fórum smá túr. Verst hvað maður verður alltaf aumur í afturendanum eftir svona túra. En hún kann þetta ennþá. Börnin eru ekki vön að fara upp og niður brekkur og virðast alltaf gleyma hvenrig á að bremsa, svo maður er nú með lífið í lúkunum að þau renni ekki út á götu. Það er töluverð traffík hérna í kring. Þau gleyma nú líka oft umferðareglunum. En þetta hlýtur að koma.

Auður fór á fimmtudaginn í prufutíma í reiðskólanum. Hún fékk einhvern hest sem var alls ekki á þeim buxunum að hreyfa sig, svo þetta var nú frekar rólegt, en hún var mjög ánægð og vildi endilega halda áfram. Svo við verðum eð fylgja með. Það er vonandi að hún verði ánægð með þetta. Það voru allavega ekki mjög mörg börn á fimmtudaginn, svo það ætti að vera nægur tími að venjast hestunum og svoleiðis.

Svo var nú nóg að gera hjá henni á föstudaginn. Hún fór í skólann og svo beint í afmælisveislu hjá bekkjarbróður sínum. Þau eru að hennar sögn hálfkærustupar. Veit ekki hvað það þýðir, en það er örugglega betra en að vera alkærestar. Svo var henni keyrt beint úr afmæli í skátana. Það var ekki mikið eftir af henni um kvöldið og heldur ekki í gær.

Ágúst leikur voða mikið við eina stelpu í leikskólanum, það er spurning hvenær þau tilkynna að þau séu kærustupar. Þetta gerist allt saman mjög snemma nú á tímum. Minnist þess ekki að maður hafi spáð í þetta á þessum aldri. En það er auðvitað fyrir mestu að þau hafi einhvern að leika við.

Auði gengur illa að finna einhverja vinkonu hérna nálægt. Þær sem hún hefur verið með, eru annað hvort alltaf uppteknar eða veikar. Það viriðist ekki vera mikið spáð í að hvetja krakkana til að leika. það sést heldur nánast aldrei neinn utandyra. Ekki nema við og einhverjir aðrir útlendningar.

Nú fer allt að færast í venjulegar skorður. Sundið fer að byrja og allt fer á fullan gang í sjónvarpsþáttaröðum og svoleiðis. Það er gott að það sé einhver rútína.

Jæja best að fara að kíkja á hvort börnin séu búin að rústa húsinu.

Kveðja

Gramgengið


Skorkvikindaævintýri

Kæru bloggvinir

Sumarið hefur greinilega bara ákveðið að vera hjá ykkur í sumar. Það er eitthvað voðalega óstöðugt veður hér. Þeir eru að lofa rjómablíðu síðast í þessari viku, en við erum eitthvað að efast um það. Það væri auðvitað mjög gaman að fá gott veður.

Auður er orðin mjög dugleg að æfa sig að lesa, vuð lesum næstum á hverjum degi og skrifum smávegis líka. Þetta reynir töluvert á uppeldisgenin í frúnnil. Það er ástæða fyrir því að hún varð sálfræðingur en ekki uppeldisfræðingur. Það er vonandi að börnin verði ekki fyrir allt of miklum skaða. Hana vantar voða mikið vinkonur að leika við. En í dag fór hún til stelpu sem býr hérna nokkrum húsum frá og við vonum að það geti gengið upp. En það er erfitt að segja. Það virðist voða mikið fár í kringum hvern börnin leika við og sumir vilja ekki að börnin leiki við einhver ákveðin börn og svo framvegis. Svo eru bara mjög mörg börn aðeins eldri en Auður sem leika ekki lengur með dót. Þau sitja sennilega bara í tölvum eða einhverju svoleiðis. Það finnst manni nú ansi snemmt að hætta að leika sér. SVo vesalings börnin okkar eiga hvorki síma eða spjaldtölvu. VIð reynum að fara út með þau þegar við erum í fríi og láta þau leika sér.

Bóndinn er búin að vera að sanka að sér græjum og plötuspilara fyrir afmælispeninginn. Nú er maður alveg á fullu að hlusta á tónlist. Það er orðið langt síðan við höfum haft almennilegar græjur. Nú er svo búið að draga fram plötur og verið að hlusta á eldgamla tónlist. En mikið rosalega hefur maður saknað þess. Það er ekki fyrr en maður fær tækifæri til þess aftur að maður fattar, hvað manni hefur vantað þetta mikið.

Á fimmtudaginn fórum við að skoða reiðskóla hérna rétt hjá. Auði langar voða mikið að prófa. Henni leist mjög vel á og við ætlum að fara í prufutíma á fimmtudaginn. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Við stóðum og vorum að horfa á hesta og þða kom geitungur og stakk frúnna á milli brjóstanna. Maður hélt nú að þetta væri ýkt, hvað þetta væri vont, en að er það víst ekki. Þetta er ennþá aumt, eftir 3 daga. En maður varð nú að halda andlitinu og spila svaka hetju, svo börnin yrðu ekki hrædd. VIð segjum þeim alltaf að þeir ráðist ekki á mann, nema maður geri þeim eitthvað og að þetta sé ekkert svo vont! :) En þetta var fyrsta stungan eftir 16 ár hér í landinu. Svo var frúin eitthvað að státa sig á því að hafa heldur ekki fengið mýbit. Á föstudaginn fórum við Auður í skátana og fórum út í móa að leita að brómberjum og urðum svoleiðis étin upp til agna. Maður á aldrei að vera að monta sig af svona.

Í kvöld verður svo boðið upp á kjötsúpu. Bóndinn´er á kafi í pottunum. Það verður aldeilis veisla og svo næstu daga líka, því það er alltaf svo mikill afgangur.

´Bóndinn átti nefnilega afmæli í vikunni og var búinn að spyrja Ástu og Óla vini okkar hvort þau ættu lambakjöt. Við fengum nokkra poka af kjöti. Meirihlutinn var nautakjöt, svo í staðinn fyrir kjöt í karrý á afmælisdaginn fékk bóndinn nautasteik og svo verður lambakjötið í kvöld. Hann er víst alveg sáttur með það.

Jæja best að fara að hjálpa honum

Kveðja

Gramgengið

 


Sólarglæta

Kæru bloggvinir

Það hefur sést aðeins til sólar í dag, það var orðin þörf á, eftir alla þessa skýjuðu daga. Það hefur nú samt ekkert verið einhver rjómablíða, en maður er orðin svo þreyttur á skýjuðu veðri að maður verður glaður bara af að sjá sólina. Þeir eru búnir að lofa góðu veðri næstu viku. Við sjáum hvað verður.

Það er allt að komast í samt horf aftur eftir fríið. Auður er komin á fullt í skólanum og þarf að skrifa bókstafi á hverjum degi. Við fórum svo á bókasafnið í dag og fengum lánaða bók sem hún getur æft sig á að lesa í. Þetta er allt að koma hjá henni. Það er voða gaman að sjá það. Hún er auðvitað voða stolt af því þegar hún getur lesið smávegis. Þau eiga að skrifa nokkrar línur á hverjum degi. Svo foreldrarnir eru í fullri vinnu. Svo þarf hún líka að reikna. Það er enginn smá munur frá stubbabekknum. Þar hafði hún enga heimavinnnu. Þetta verður meira og meira alvarlegt.

Ágúst er voða sáttur í leikskólanum. Hann leikur við marga ólíka og virðist una sér mjög vel. Við förum oft á leiksvæði hérna rétt hjá og honum finnst mjög gaman að hlaupa á hlaupahjólinu sínu. Þau eru alltaf sprengfull af orku bæði tvö. Maður skilur ekki alltaf hvernig er hægt að hafa svona mikla orku.

Á fimmtudaginn fórum við í grillpartý hjá þeim sem halda vinakvöldverðina. Þeir byrja svo aftur í næsta mánuði. Þetta er allt saman mjög vinalegt fólk, en það er nú ekkert auðvelt að kynnast því svona nánar. Það á nú almennt við fólkið hérna finnst manni. En það er ekkert hægt að breyta því.

Á föstudaginn var svo menningarhátíð í bænum og það voru meðal annars einhverjir sirkuskarlar að gera einhverjar kúnstir. Þetta var mjög spennandi.

Í dag buðum við svo kunningjum okkar í kaffi. Hann hjálpaði okkur við að flytja, svo okkur fannst við skulda honum smá kaffiboð. Þau eiga 4 lítil börn sem Ágúst og Auður þekkja vel. Það var svolítill munur að hafa 6 börn hérna inni, miðað við í TIset. Maður finnur næstum ekki fyrir því, því það er svo mikið pláss.

Jæja best að koma sér í sófann í smástund fyrir háttinn

GRamgengið


Rigningartíð

Kæru bloggvinir

við höfum víst ekki átt skilið að fá fleiri sólardaga því það hefur rignt undanfarið. Maður er farinn að halda að það komi ekki meira sumar þetta árið. Frúin er nú samt ekki búin að pakka niður strandfötunum. Það er aldrei að vita, hvort það verði þörf á að nýta það eitthvað meira.

Auður var keyrð í útilegu á miðvikudaginn á bóndabæ, ekki langt hér frá. Hún var þar í góðu yfirlæti með öðrum krökkum og slatta af dýrum. Við sóttum hana aftur á föstudaginn, hún var alsæl, og vildi alls ekki koma heim. Henni fannst tóm vitleysa að við værum að sækja hana strax. Hún kynntist tveimur stelpum og ein af þeim býr hérna rétt hjá. Svo kannski geta þær eitthvað hist. Hún er orðin mjög spennt að byrja aftur í skólanum og hitta alla krakkana aftur. Hún er ótrúlega fyndin með þetta félagslega. Hún virtist vera alveg ófeimin í útilegunni, en þegar hún kom aftur heim vildi hún ekki fara og spyrja stelpurnar hér við hliðina á, hvort þær vildu leika. Hún hefur verið ansi þreytt um helgina og þurft að jafna sig á þessu öllu.

Krakkarnir voru að hlaupa hér á milli húsa í allan gærdag. Svo um 19:00 leytið kom strákur frá nágrannarnum og var að sækja bróðir sinn. VIð héldum að börnin væru öll hinu megin. Þau sögðust vera að fara þangað. En þau voru hvergi sjáanleg. Við fórum að leita út um allt og þau fundust á gangi rétt hjá einhverju leiksvæði í nágrenninu. Þau virtust nú skilja alvöruna í að fara án þess að segja frá því og hafa haldið sig heima við í dag.

VIð buðum gömlum nágrönnum okkar frá Tiset í kaffi í dag. Hann hjálpaði okkur voða mikið við að flytja. Það var mjög gaman að spjalla við þau. Þau er eun af þeim fáu sem við höfum haft einhver tengsl við. Næsta vika verður svo meira hversdagsleg. Auður byrjar í skólanum á þriðjudaginn og þá fer allt að verða komið í fastar skorður aftur. Hún er allavega farin að verða þreytt á að vera í fríi.

Jæja best að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband