stáluð þið vorinu?

Kæru bloggvinir

það hefur eitthvað lítið bólað á vorinu. Kannski einna helst í dag. Bóndinn fór samt í stuttbuxum út einn daginn. Frúnni fannst það nú full mikil bjartsýni. Hún er ennþá í dúnúlpunni með trefil. Það ætti nú fljótlega að fara að skipta. Við viljum gjarnan fá smá vor, áður en við flytjum til Íslands. Kunningjar okkar hér verða áræðanlega duglegir að láta okkur vita þegar það er gott veður hérna.

Á föstudaginn var vorhátíð í skólanum hjá Auði. Það var mjög gaman eins og venjulega. Ágúst fékk að fara með, hann hefur yfirleitt ekki fengið að koma með, af því þetta er á kvöldin. En Auður vildi endilega fá hann með, svo það var látið eftir þeim.

Í gær var svo brunað til Odense að heimsækja Guðný og Óla. Það var mikið fjör eins og alltaf. Það verður nú eitthvað þegar þær stöllur, Auður og Arndís eiga að kveðjast. Þær eru svaka góðar vinkonur. Auður fékk að fara og sjá Arndísi sýna leikfimi. Það var mjög spennandi. Auður hefur mikið suðað um að fá að vera með í svoleiðis, en það er svo illa stjórnað hérna, að við höfum ekki leyft henni það.

Hún fór í reiðskólann síðasta fimmtudag og brokkaði næstum allan tímann. Hún hefur ekki þorað því eftir að hún datt af hestinum um daginn. Það var einhver stelpa sem hljóp við hliðina á henni.

Seinnipart föstudagsins komumst við varla inn í innkeyrsluna hjá okkur, af því það hafði einhver bíll lagt svo pent hérna fyrir framan. Bóndinn náði að smeygja sér framhjá. Seinnipartinn í gær var bíllinn þarna einnþá, svo við hringdum á lögregluna, sem bað hann vinsamlegast að færa bílinn. Hann var svo farinn þegar við komum heim í gærkvöldi. Það er alveg ótrúlegt að fólk átti sig ekki á því að þetta sé innkeyrsla. En það leggur sennilega bara þar sem það sér laust pláss, en pælir ekkert í, hvort það sé leyfilegt eða ekki.Það er nú frekar hvimleitt. En við erum hvort sem er að flytja, svo við ´hljótum að geta lifað með þessu.

 

Kveðja

Gramgengið 

 


Vorið sem hvarf

Kæru bloggvinir

við héldum að vorið væri að koma, en það var einhver misskilningur. Það hefur verið mikill vatnskuldi hér undanfarið, nístir gegnum merg og bein. Það er eins gott það komi ekki mikill vetur aftur. Það er búið að pakka mest öllum vetrarfötum niður. Næstu helgi breytum við klukkunni, það er nú alltaf mikið fjör. Þá verður meira myrkur á morgnana í smátíma. Það er einmitt svo þægilegt að það er farið að vera bjart á morgnana, þegar maður þarf að fara í vinnuna.

Á föstudaginn sótti bóndinn frúnna í lestina í Ribe. Á leiðinni heim byrjaði að heyrast eitthvað skrýtið hljóð í bílnum. Það reyndist vera viftureimin sem var slitin. Bóndinn hringdi í kunnningja okkar og renndi til baka til Ribe, að reyna að skaffa nýja, en það eru til svo margar mismunandi að þeir áttu þetta ekki í búðinni. Það varð því að draga bílinn á verkstæði hér í Gram. Bílakarlinn okkar verður örugglega mjög leiður þegar við flytjum. Það eru ekkert smá góðir viðskiptavinir, sem hann missir. Maðurinn sem kom og dró bílinn á verkstæði kannaðist líka við okkur, gott að vera góður kúnni. Meðan við vorum að bíða eftir hjálp, datt bóndanum í hug að googla veghjálp á Íslandi, svona til að athuga, hvort það væri einhver þjónusta eins og hér. 5 færslan sem bóndinn fékk upp, var af bloggsíðunni okkar. Greinilegt hvað við skrifum mest um.

það er því ekki mikið verið hægt að gera hér um helgina utandyra, bæði af kulda og bílaleysi. Í dag fengum við þó lánaðan bíl, því Auður átti að sýna listir sínar í reiðskólanum og fá metið, hversu góð hún er. Hún er ennþá hálf smeyk eftir að hún datt af hestinum um daginn. En hún reddaði sér í gegnum þetta og var mjög stolt af því að fá verðlaun eins og hinir. Hún verður nú sennilega aldrei mikil hestakona, frekar en mamma hennar, en hún er mjög sátt við að vera þarna, svo við höldum áfram, þar til við flytjum.

Í kvöld verður svo snædd andasteik. Það er verið að borða allt upp úr frystikistunni þessa dagana. Við flytjum það ekki með okkur heim allavega. Það væri kannski sniðugt að fylla kistuna og flytja hana þannig heim. Maturinn væri sennilega ekki mjög geðslegur þegar heim væri komið.

Frúin er farin að vinna, þó ekki alveg á fullu blússi. Það gengur ágætlega, en það er ekkert grín að komast í gang eftir að hafa verið svona lengi heima.

Börnin hérna við hliðina hafa nánast búið hérna hjá okkur um helgina, mamma þeirra er búin að vera í uppskurði og er eitthvað slöpp. Við fórum út í gær. Sem betur fer eru bæði börnin okkar og börnin hér við hliðina mjög góð að leika sér úti. Þau hafa verið mikið úti líka í síðustu viku. Þeim tókst líka að eyðileggja leikhúsið sem við áttum. Það er erfitt að fá upp úr þeim hvað gerðist, en það lítur út fyrir að strákarnir hafi setið uppi á þakinu og það hafi ekki þolað það. Það er allavega alveg í frumeindum. Þeir vildu meina að það hafi komið einhverjir ræningjar og eyðilagt húsið.

Jæja best að fara að elda öndina

kveðja

Gramgengið


Vor í lofti

Kæru bloggvinir

hér er eitthvað smá vor í loftinu. Börnin heimtuðu að fara út að hjóla í gær og var drifið í því. Það var eins og kúnum væri hleypt út.

Á föstudaginn fórum við í vinakvöldverð. Þar var mikill fjöldi fólks. Mikið af flóttamönnum frá Sýrlandi. Þeir eru nú ýmist kristnir eða múslimar. En okkur kemur nú öllum ágætlega samaan fyrir því. Börnin eru mjög dugleg að leika sér saman. Það skiptir engu máli, hvernig maður er á litinn þegar maður er barn. Fordómarnir koma ekki fyrr en seinna.

Frúin fór í vinnuna á föstudaginn, í fyrsta skipti síðan eftir brotið. Það voru heilmikil viðbrigði. Mesta málið er að komast í vinnuna. Það þarf að semja við vinnufélagana að sækja hana á lestarstöðina. Allavega þar til hún er farin að geta labbað meira án verkja. Það er hálfgert neyðarástand í teyminu sem frúin er í. VIð erum bara tvær og hin er að hætta eftir 1 1/2 viku. Yfirmaðurinn er frekar stressuð yfir þessu. Hún er vön að hafa annan sálfræðing undir sér, sem sér um að vinna vinnuna hennar. En sú er í veikindaleyfi. Hún var því ekki upp á marga fiska þegar frúin mætti aftur. En hún finnur kannski annan sálfræðing til að vinna vinnuna sína.

Það er smátt og smátt verið að losa sig við hluti sem eru ekki notaðir meira. Börnin eiga nánast ekkert eftir af dóti og var því farið í leiðangur í dag að kaupa eitthvað smá í sárabætur. Það þarf að koma útidótinu frá sér líka. Það ætti nú að vera mögulegt.

Það er búið að fá tilboð í gám og verið að vinna í að finna dagsetningu til að fá hann og eitthvað fólk til að hjálpa. Það er alveg glatað að þegar við þyrftum að fá hann, þá er helgidagur hér, föstudagurin 12. maí er stóri bænadagur og frídagur hjá mörgum héfyrsr.

Við erum sennilega búin að fá tvo bændur til að hjálpa við að taka dótið hér niður af svölunum og hífa upp í gáminn. Það léttir þetta nú heilmikið. Við fórum í spagettýmessu á fimmtudaginn og fengum einn bónda í lið með okkur. VIð höfum ekki prófað svona áður. Það er farið í kirkju fyrst og presturinn var klæddur upp sem Jóhannes Skírari, með hárkollu og í gömlum fötum. Síðan var farið í samkomuhúsið og borðað spagettý. Börnunum þótti þetta mjög skemmtilegt, og þá er árangrinum náð. VIð förum greinilega ekki oft í messu, því Ágúst var alltaf að bíða eftir jólasveininum. Presturinn bregður sér stundum í gervi jólasveins líka.

Annars er nú lítið meira að frétta héðan úr sveitinni. VIð vonum að vorið haldi áfram að koma, um að njóta þess, áður en maður kemur heim.

 

Kveðja frá Baunalandi

Gramgengið


Frelsi

Kæru bloggvinir

hér ræður grámyglan ríkjum. Frekar þreytandi veður, svona fyrir andlegu hliðina. Það ætti að vera farið að vora, svona samkvæmt dagatalinu, en það er ennþá verið að spá næturfrosti og það er ennþá hálfgerður vatnskuldi.

Í gær var farið í verslunarleiðangur og keyptir bæði kuldaskór og sumarskór fyrir börnin. Við eigum von á að það sé ódýrara að versla þetta hérna núna, á útsölu, en að kaupa þetta heima. Svo það er verið að fylla gáminn. Ekki eins og við eigum ekki nóg. Við erum nú samt byrjuð að grisja eitthvað út, sérstaklega í dótinu hjá krökkunum. Þau nota það ekki svo mikið. Auður Elín er orðin mjög spennt fyrir að hugsa um gömlu dúkku frúarinnar, Auði Ösp. Við fórum að kaupa ný föt á hana um daginn og það kveikti einhvern áhuga. Það er ekki gott að vita hversu lengi það varir, en gott meðan það varir.

Í gær fórum við í heimsókn til Guðný og Óla. Það var söngvakeppni í sjónvarpinu, þar sem börn syngja og dansa. Þetta er svona eftirherma af fullorðins júróvision. Þær voru mjög spenntar fyrir þessu og fengu að kaupa snakk og nammi og svo var dansað og djammað. AUður var orðin svo þreytt um 21:30 að hún vildi fá að sofa. En það tókst að láta hana halda sér vakandi þangað til úrslitin voru kunn. Við gistum í Munkebo af því við nenntum ekki að fara að keyra heim kl. 22 í gærkvöldi. Bóndinn gat ekki sofið í svefnsófanum með frúnni, svo hann svaf við hliðina á Ágústi og var allur marinn og blár eftir spörk og slög. Ágúst fór i nokkra hringi meðan hann svaf. Ótrúlegt hvað börn eru mikið á hreyfingu í svefni. Börnunum fannst þetta mjög skemmtilegt, sérstaklega líka að fá að gista. Við keyrðum svo heim í grenjandi rigningu, eins skemmtilegt og það nú er að keyra á hraðbrautinni í svoleiðis veðri. Það er alltaf verið að framleiða sparneytnari bíla hérna og á sumum þarf að kveikja sérstaklega afturljósin. SUmir gleyma því og það getur verið mjög óþæginlegt á hraðbrautinni allavega. Alveg spurning hversu mikið maður sparar á, ekki að kveikja ljósin.

FRúin er orðin meira hreyfanleg, en því fylgir auðvitað að manni er meira illt og þetta verður fljótt bólgið, sérstaklega þegar maður er í skóm. En það er nú erfitt að vera berfættur úti á þessum árstíma.

Jæja best að fara að slaka á eftir átök helgarinnar.

Kveðja frá Gramgenginu

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband