Síðasta færslan

Kæru bloggvinir 

Þar sem við erum flutt á klakann hefur stjórnin ákveðið að hætta að bögga.  Þið getið bara hringt eða komið við og fengið fréttir. Þökkum samfylgdina á liðnum árum. ☺


Litlir kassar á Lækjarbakka

Kæru bloggvinir

Það hefur eitthvað verið að vora meira hér í gær og í dag. Ágætis veður. Sérstaklega í dag. En það er nú ekki mikill tími til að njóta þess. Það mætti halda að dótið vaxi hérna inni. Maður heldur alltaf að það hljóti að fara að minnka eitthvað, það sem á eftir að pakka niður. En það sér varla högg á vatni.

Á föstudaginn var frídagur hér í Danaveldi og við héldum kveðjupartý fyrir það fólk sem við höfum haft mest samskipti við. Þetta var mjög fínt, en líka mjög erfitt. Það er ólíklegt að maður sjái þetta fólk aftur, svo frúin felldi ansi mörg tár.

Þetta er nú líka farið að hafa meiri og meiri áhrif á börnin. Auður tekur daglega skapofsaköst og hreytir út úr sér misfögrum orðum. Ágúst er mjög lítill í sér og það þarf ekki mikið til að hann brotni saman.

Næsta föstudag kemur gámurinn og við ætlum að fá að gista hjá Óla og Ástu síðustu dagana. Við þurfum að ganga frá og þrífa á laugardaginn og svo fljúgum við heim á sunnudaginn. Verst ef það fer að verða eitthvað rosa gott veður hér, þá finnst manni svo erfitt að fara héðan.

Frúin vinnur síðasta dag á fimmtudag. Það verður nú eitthvað grátið þá. Bóndinn fer í síðasta skipti í vinnuna á þriðjudaginn. Þeir eiga nú örugglega eftir að sakna hans. Hann er farinn að hanna hluti og láta til sín taka. Hann fór í röntgenmyndatöku í síðustu viku og fær niðurstöðurnar á morgun. Við krossum putta fyrir því að hann sé ekki með brotinn þumalputta. Ekki mjög góð tímasetning fyrir svoleiðis.

Það fer svo að líða að lokum þessa bloggs, sem hefur víst verið fastur gestur hjá nokkrum lesendum síðustu 8 árin allavega. Það verður skrýtið ekki að setjast niður á sunnudögum og skrifa um lífið og tilveruna. Kannski ég verði bara að halda áfram, til að fá ekki fráhvörf.

Annars hafa Danirnir eitthvað verið að vonast eftir að við færðum þeim einhverjar fréttir frá Íslandi. Ein sem frúin er að vinna með hafði af því áhyggjur hvort það væri sama internet á Íslandi og Danmörku, svo við gætum nú haldið sambandi. Fyndið hvað fólk er eitthvað lítið inn í hlutum utan síns eigins lands.

Í gærkvöldi fórum við til Óla og Ástu og grilluðum og horfðum á fyrrihluta eurovision. Frúin gafst upp í miðjum klíðum, alveg búin á því úr þreytu. Börnin fengu líka að vaka og fannst það mjög spennandi. Bóndinn hafði haldið með Portugal og var því mjög sáttur við úrslitin.

Jæja best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið (verðum við svo bráðum Ásbrúargengið, eða hvað?) Góðar tillögur óskast

 

 


Smá sólarglæta

Kæru bloggvinir

hér hefur verið smá sólarglæta í dag, en þá var okkur boðið í fermingarveislu, svo við vorum innandyra í mestallan dag. Það var íslenskur strákur héðan úr Gram, sem var verið að ferma. Það var fínt að borða og börnin skemmtu sér vel.

Í gær var brunað til Þýskalands að versla inn, bæði til að taka með heim og fyrir það sem er framundan. Það þarf ekki orðið að versla mikið inn í matinn, því við erum að reyna að klára úr skápunum. Við erum smám saman að verða búin að losa okkur við innbúið, en það er eitthvað smávegis eftir. Naggrísirnir voru sóttir í vikunni. Dóttirin á heimilinu var ekki hrifin, en við fundum konu sem hefur mikinn áhuga á dýrum og kemur örugglega til að hugsa mjög vel um þá. Það er voða skrýtið að heyra ekki tístið í þein, þegar maður gengur um, en það er ekki mikill söknuður af að hreinsa undan þeim skítinn.

Auður fór í síðasta skipti á skátafund og í reiðskólann í vikunni. Það er ekki tími fyrir að fara oftar. Næsta föstudag er stóri bænadagur hér og frí í skóla og vinnu. Þá ætlum við að bjóða þeim sem við höfum umgengist mest og drekka kaffi saman og borða kökur. Það verður nóg að gera næstu tvær vikurnar áður en við komum heim. Það er ekki alveg búið að ganga upp fyrir okkur að við séum að fara að flytja. Ætli manni finnist ekki bara að maður sé að fara í frí á Íslandi. Allavega svona til að byrja með. Maður hlýtur svo að átta sig á þessu smám saman.

Við kíktum í heimsókn hjá konunni sem hefur verið dagmamma barnanna. Maðurinn sem keypti af okkur húsið er kominn í íþróttanefndina í bænum. Það fylgir því greinilega að búa í húsinu að vera með i því. Frúin komst svo líka að því að einn af rútubílstjórunum sem hún keyrir með, býr líka í Tiset. Við bjuggum í TIset í 8 ár og við höfum aldrei séð manninn. Það er nú svolítið skrýtið.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband