Páskafrí

Kæru bloggvinir

gleðilega páska. Hér skín sólin og það er víst 16 stiga hiti, en það er pínu rok svo það virkar aðeins kaldara. En ekkert til að kvarta yfir. Það hefur verið eitthvað rysjótt veður hér um páskana, en í gær og í dag hefur verið prýðilegt veður. 

Þetta eru sennilega með þeim rólegustu páskum hér lengi. Bóndinn er ennþá með einhvern kverkaskít og ekki á toppnum, svo við höfum bara tekið lífinu með ró. Við fórum í dýragarð í gær. Það vakti mikla ánægju. Auður var alveg á útopnu og gat varla stoppað hjá dýrunum því það var svo margt að skoða. Þetta er einn skásti dýragarður sem við höfum farið í. Dýrin virtust róleg og vel hugsað um þau. Við höfum nokkrum sinnum prófað að fara í garða sem var illa hirt um dýrin og þau voru nánast að deyja.

Börnin hafa verið nokkuð hress í fríinu. Eftir við skiptum yfir á sumartímann vill Ágúst ekki sofa á kvöldin og Auður er alveg ómöguleg og öfugsnúin. Hún getur sofið, en þetta fer voðalega í skapið á henni. Það er hreinlega ekki þess virði að vera að rugla svona í klukkunni. Algjörlega óþolandi. Þau eru bæði að þroskast voða mikið núna. Ágúst heldur vökulu auga með öllu sem systir hans fær og heimtar að fá það sama, hvort sem honum líkar þeð eða ekki. 

VIð erum búin að vera mikið utandyra og höfum líka farið í nokkrar búðir. Drengnum vantaði nýja skó og það var nú ekkert léttaverk að finna það. Við enduðum á að kaupa einhverja rándýra sandala handa honum. Konan í búðinni taldi þá vera mjög ódýra. Þeir voru á einhverju rosa tilboði. Við krossuðum okkur bara og borguðum. Það er víst eins gott að venja sig við að kaupa svona dýra skó, þar sem það er ekkert annað sem passar. 

Í kvöld á svo að borða lambalæri. Við keyptum að einhverjum bónda sem við höfum ekki prófað áður. Það var rosalega gott, ekki síðra en það sem við kaupum venjulega.Svo hér er tilhlökkun.

Börnin fengu bæði páskaegg og páskakanínur í morgun. Þau ættu að vera búin að fá nóg af sykri. Við hjónakornin smökkuðum aðeins á herlegheitunum. Ágúst smakkaði mörg stykki og spítti því út úr sér aftur. Það er gott að páskarnir eru bara einu sinni á ári.

Við erum búin að vera að reyna að fá Auði til að hjóla á stærra hjóli. VIð höldum að hún læri aldrei að hjóla. Hún hefur ótrúlega lítið jafnvægi barnið. En frúin hefur nú aldrei verið góð í að halda jafnvægi, svo við verðum að vona það besta. Við erum að pæla í að senda hana með hjólið í leikskólann og sjá hvort þeir geta ekki kennt henni þetta. VIð hjónin erum ekki alveg þau þolinmóðustu í þessu og Auður er heldur ekki lengi að gefast upp þegar eitthvað gengur á afturfótunum. Hún er með vovða mikið þrifæði. Vill gjarnan fá klút og hreinsa til. VIð erum að spá í að taka nóg af myndum af henni og sýna henni svo þegar hún verður unglingur og vill ekkert þrifa í kringum sig. Ágúst virðist eitthvað hafa erft af þessu líka. Hann vill gjarnan hafa allt í röð og reglu. Hvaðan skildu börnin hafa þetta.

Bílinn var eitthvað búinn að vera að stríða okkur og vildi ekki læsast og þá er ekki hægt að starta honum. Frúin var farinn að hafa miklar áhyggjur af að það væri ekki hægt að nota hann meira, því nýr lykill kostar einhver ósköp og meira en bíllinn er virði. En haldið þið ekki að bóndinn hafi dregið fram lóðboltann og reddaði málunum, allavega í bili. Frúin var nú eitthvað efins um að þetta mundi virka, en mjög ánægð með að það gerði það. Við erum búin að spyrja fleiri fróða menn hvort það sé að taka úr sambandi þetta drasl sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að starta bílnum, en enginn þykist vita neitt um það. Ætli það sé ekki ólöglegt og þess vegna enginn sem vill gera það. Við vonum að þessi viðgerð haldi bara þar til bíllinn eyðilegst endanlega.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á.

Kveðja

Gummi, Ragga og páskabörnin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og gleðilega páska.

Hér kom þónokkuð páskahret og heilmikið rok. Við sluppum sem betur fer við mikinn snjó hér á suðvesturhorninu. Hér er ljúft að vera í fríi og öll "börnin" verða í mat í kvöld og eldaður verður hamborgarhryggur. Hann er reyndar mjög sjaldan í matinn hjá okkur, höfum aðeins eldað hann 2var áður og annað skiptið voruð þið einmitt í mat.

Páskakveðjur úr Garðinum og kannski heyrumst fljótlega aftur.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 20.4.2014 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband