Takk fyrir að senda okkur sól

Kæru bloggvinir

takk fyrir að senda okkur smá sól. Það er búið að vera mjög fínt veður síðustu viku og á víst að vera eitthvað fram í næstu viku líka. Alveg ágætt að fá smá sumarauka. Það er alltaf nóg að gera á þessu heimili, þó maður sé ekki lengur húseigandi. Það er svo sem ágætt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því öllum stundum. Þau sem keyptu húsið af okkur eru búin að setja nýtt þak á. Það er mjög skrýtið að sjá húsið með svörtu þaki. En það er mikið flottara, maður þarf bara að venja sig á það. VIð keyrum þarna framhjá þegar Auður fer í skátana á föstudögum. Hún er orðin sátt við að vera það. Það er víst bara við foreldrarnir sem erum eitthvað hissa á þessum dauðyflishætti þarna alltaf. En það skiptir mestu máli að hún sé ánægð.

Við fórum á ströndina í gær. Það fara að verða síðustu forvöð. Það var nú ansi kalt vatnið, en fínt að vera að leika á ströndinni. Ágúst hitti stelpu frá leikskólanum sem hann var voða góður að leika við. Þau búa hérna rétt hjá. Mamma hennar er frá Eistlandi, en gift dönskum manni. Það er nokkuð um konur hér frá annaðhvort Lettlandi eða Litháen, en ekki svo margar frá Eistlandi.

Í dag er svo búið að hjóla mikið. Auður gerir hlutina alltaf á sinn hátt. Þegar hún byrjaði að læra að hjóla, gerði hún ekki annað en að bremsa, en núna kann hún alls ekki að bremsa. Ágúst lærir þetta á annan hátt. Hann kann að bremsa og komast af stað sjálfur. AUður kann að hjóla, en ekki bremsa og ekki komast af stað.  En svona er hún bara, það er auðvitað ekki mjög 0ruggt, en svo allt í einu gerir hún þetta bara. Við foreldrarnir verðum bara að taka róandi á meðan.

Síðustu helgi var poki með kartöflum á tröppunum. Eftir nokkur heilabrot fundum við hver hafði lagt þær á tröppurnar. Svo var kominn annar poki í morgun. Það verður aldeilis að fara að borða kartöflur. Svo getum við líka fengið epli. Það er mikið um epli svona á haustin. Það eru mikil trúarbrögð í kringum eplin, eins og jarðarberin. Sumir geta alls ekki borðað innflutt epli. Við finnum ekki mikinn mun, en höfum sennilega ekkert vit á þessu.

Frúin fór á opinn foreldrafund fyrir forldra barna í 1. bekk í vikunni. Þar var hún frædd um það að nýjustu rannsóknir sýna að til að börn læri að lesa fljótt, sé gott að kenna þeim að skrifa fyrst og það skiptir ekki máli hvort þau skrifi rétt, bara þau skrifi. Við hjónin erum ekki alveg að skilja þessa speki og Auður ekki heldur. En við reynum að gera heimavinnuna eftir settum reglum. En svo skiptir miklu máli að þau skrifi tölustafina rétt. Við verðum bara að reyna að fylgja reglunum og vona það besta. Það var nú svolítið fyndið að foreldrar strákanna í bekknum höfðu ekkert heyrt um að þeir ættu að lesa og skrifa heima, en foreldrar stelpnanna voru búin að heyra það. Greinilegt að strákarnir hugsuðu með sér að það væri best að segja ekkert, þá slyppu þeir við heimavinnnuna.

Jæja best að fara að slaka aðeins á. Það vill gleymast á þessum bæ.

Kveðja

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Eru þið loksins búin að fá sólina enda er hún farin frá okkur, búið að rigna síðan á fimmtudaginn. Samt milt og gott veður. Við sendum alltaf heimavinnuáætlun heim í hverri viku með börnunum svo það fari ekki framhjá foreldrunum ef börnin eiga að læra heima. Fyrst var hún send heim á blaði á föstudögum en núna er hún bara sett inn á heimasvæði bekkjarins á netinu.

Annars biðja allir að heilsa úr heiðinni.  kiss

Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 11.9.2016 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband