Afmælishöld

Kæru bloggvinir

þá er enn ein helgin að verða á enda runnin. Hér hefur ekki verið slegið við slöku frekar en fyrri daginn. Við ætluðum að halda upp á afmæli Ágúst Ægis í dag, en það hentaði betur að gera það í gær, svo það var henst í að þrífa og baka og gera klárt. Auður á mjög erfitt með að höndla svona spennu, svo hún var að fara yfir um. Ágúst tók þessu nú með meiri ró, en fannst þetta nú ekkert leiðilegt. Hann fékk margar góðar gjafir og á nokkrar eftir, því við gefum honum líka pakka á miðvikudaginn. Þetta var bara svona smá þjófstart. Næstu helgi er fyrsti sunnudagur i aðventu og þá verður að fara að skreyta og svoleiðis. Það eru nú einhverjir byrjaðir að skreyta smá, en ekkert að ráði. Það er búið að hengja skraut í ljósastaurana hérna og við erum með eina skreytingu nánast fyrir utan gluggann. Það liggur við að við getum teygt okkur í hana. Það er nú sem betur fer ekkert sterkt ljós af þessu, svo þetta er bara fallegt að hafa fyrir utan gluggann.

Annars er hér allt í föstum skorðum. Nú fer að byrja alls konar jólaumstang í skólanum og leikskólanum. Á föstudaginn er fyrst jólaföndur í skólanum hjá Auði og svo jólaball hjá Ágústi. Það verður nóg að gera þann daginn.

Á föstudaginn var vinakvöldverður og það var huggulegt eins og venjulega. það er mikið sama fólkið sem kemur, svo þetta er allt saman mjög notalegt. Auði finnst þetta svo skemmtilegt að hún á erfitt með að bíða eftir að við förum af stað. Það eru alltaf einhverjir krakkar sem koma og hún þekkir og hún vill endilega leika við þá.

Við ákváðum að keyra út að sjó í dag og kíkja á ströndina. Þegar þangað var komið var svoleiðis hífandi rok og hálf kalt. En börnin hörkuðu þetta af sér og týndu tvo fulla poka af skeljum og steinum. Þetta varð hin besta skemmtun. Það var varla stætt fyrir þau á köflum. Maður kemst nú sjaldan í svona rok hérna, svo þetta var mjög góð æfing.

Í dag var ráðist í að kenna henni að spila á venjuleg spil. Maður hefur engar ömmur og afa til verksins, svo við verðum að ráðast í verkefnið sjálf. Það gekk nú bara nokkuð vel, við höldum stífum æfingum áfram. Það er nauðsynlegt að kunna að spila á spil, á þessum síðustu og verstu tímum.

Þessu mánuður byrjaði með frosti og fallegu veðri, en svo breyttist það í rigningu og rok og smá hita. Það þýðir bara að það er dumbungur hér alla daga og það verður ekki almennilega bjart allan daginn. Maður dreif sig í að henda vetrardekkjum undir þegar fór að frysta, en það hefur ekki verið mikil not fyrir það síðan. Það á nú eflaust eftir að breytast aftur.

Bóndinn er að byrja í vinnuþjálfun á þriðjudaginn. Hann verður bara nokkra tíma til að byrja með, svona til að komast í gang, en við vonum að það aukist svo smám saman. Þeir vita nú ekki alveg ennþá, hvað þeir ætla að nota hann í, en það kemur í ljós. Það verður allavega gott fyrir hann að komast út á meðal fólks svona nokkrum sinnum í viku.

Jæja ætli sé ekki komið að því að reyna að slaka eitthvað á.

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband