Vika 4

Kæru bloggvinir

Þá er vika 4 að renna sitt skeið. Frúin telur niður í vikum. Þetta er eins og fangarnir sem eru að afplána í fangelsunum. Núna má frúin fara að gera smá æfingar, svo fóturinn verði fljótari að jafna sig. En það má ekki stíga í hann fyrr en eftir 8 vikur.

Ágúst er orðinn betri af kvefinu, en í gær varð Auður lasin. Hún er með hita og kvef. Blessað barnið hefur ekki verið kvefað í mörg ár, svo hún kann ekki á þetta. Finnst hún þurfa að gubba þegar hún þarf að hósta. Það er örugglega ekki mjög algengt að börn séu svona sjaldan veik eins og okkar. Við erum ótrúlega heppin. En viðbrigðin eru líka töluverð, þegar þau svo eru veik. Þetta þýðir auðvitað að bóndinn þarf að keppast við að hugsa um alla lasarusana. Ætli hann fari ekki bara í sjúkraliðaskólann eftir þetta allt saman. Verst að hann er sjálfur hálf slappur þessa dagana. Rakinn fer ekki vel í lungun á honum. Frúin hlýtur að fara að fá þetta kvef líka bráðum. Best að ljúka því bara af.

Við drifum okkur aðeins út að leika í gær. Frúin var að verða geðveik á að hanga alltaf inni. Henni var bara ýtt um í hjólastól og börnin léku sér. Þau skilja ekki alveg ennþá að mamma getur ekki ýtt þeim í rólunum, eða vegað salt með þeim. Þau eru vön því að hún sé á fullu alla daga. Þau rífast óspart um hver megi sitja hjá henni í sófanum. Kannski maður fari bara að gera skema.

Annars hefur nú lítið gerst hér í vikunni. Frúin tók sig til og sendi fullt af myndum af börnunum í framköllun. Svo er bara eftir að raða þeim í albúm. Þær koma vonandi fljótlega. Það er töluvert púsluspil að raða þeim í rétta tímaröð. Auði finnst mjög gaman að skoða myndir af sér frá því hún var lítil og frúnni finnst mjög leiðilegt að skoða myndir í tölvunni, svo þess vegna var ráðist í að framkalla myndir á gamla mátann. Svona er að vera gamaldags. Það er til eitt albúm af Auði, en ekkert af Ágústi og finnst honum það frekar leiðilegt.

Það er frekar erfitt að skemmta börnunum heila helgi þegar maður getur ekki komist svo mikið um, en þau læra kannski þá að slaka bara á. Þau eru allavega orðin betri að sofa á morgnana. Í morgun vöknuðu þau ekki fyrr en kl. rúmlega 9. Það er enginn smá lúxus. Svo eru þau heldur ekki eins pirruð, ef þau ná að sofa lengur. Vonandi halda þau þessu bara áfram.

Í gær var smá frost og mjög fallegt veður, annars hefur verið mjög breytilegt veður. Suma daga frost og fallegt, en flesta daga smá hiti og grámyglulegt veður. það er ekki neitt sérstaklega upplífgandi, en sem betur fer er dagana farið að lengja og það hjálpar mikið.

Jæja best að halda áfram að slaka á ! :)

kveðja

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband