Vorið sem hvarf

Kæru bloggvinir

við héldum að vorið væri að koma, en það var einhver misskilningur. Það hefur verið mikill vatnskuldi hér undanfarið, nístir gegnum merg og bein. Það er eins gott það komi ekki mikill vetur aftur. Það er búið að pakka mest öllum vetrarfötum niður. Næstu helgi breytum við klukkunni, það er nú alltaf mikið fjör. Þá verður meira myrkur á morgnana í smátíma. Það er einmitt svo þægilegt að það er farið að vera bjart á morgnana, þegar maður þarf að fara í vinnuna.

Á föstudaginn sótti bóndinn frúnna í lestina í Ribe. Á leiðinni heim byrjaði að heyrast eitthvað skrýtið hljóð í bílnum. Það reyndist vera viftureimin sem var slitin. Bóndinn hringdi í kunnningja okkar og renndi til baka til Ribe, að reyna að skaffa nýja, en það eru til svo margar mismunandi að þeir áttu þetta ekki í búðinni. Það varð því að draga bílinn á verkstæði hér í Gram. Bílakarlinn okkar verður örugglega mjög leiður þegar við flytjum. Það eru ekkert smá góðir viðskiptavinir, sem hann missir. Maðurinn sem kom og dró bílinn á verkstæði kannaðist líka við okkur, gott að vera góður kúnni. Meðan við vorum að bíða eftir hjálp, datt bóndanum í hug að googla veghjálp á Íslandi, svona til að athuga, hvort það væri einhver þjónusta eins og hér. 5 færslan sem bóndinn fékk upp, var af bloggsíðunni okkar. Greinilegt hvað við skrifum mest um.

það er því ekki mikið verið hægt að gera hér um helgina utandyra, bæði af kulda og bílaleysi. Í dag fengum við þó lánaðan bíl, því Auður átti að sýna listir sínar í reiðskólanum og fá metið, hversu góð hún er. Hún er ennþá hálf smeyk eftir að hún datt af hestinum um daginn. En hún reddaði sér í gegnum þetta og var mjög stolt af því að fá verðlaun eins og hinir. Hún verður nú sennilega aldrei mikil hestakona, frekar en mamma hennar, en hún er mjög sátt við að vera þarna, svo við höldum áfram, þar til við flytjum.

Í kvöld verður svo snædd andasteik. Það er verið að borða allt upp úr frystikistunni þessa dagana. Við flytjum það ekki með okkur heim allavega. Það væri kannski sniðugt að fylla kistuna og flytja hana þannig heim. Maturinn væri sennilega ekki mjög geðslegur þegar heim væri komið.

Frúin er farin að vinna, þó ekki alveg á fullu blússi. Það gengur ágætlega, en það er ekkert grín að komast í gang eftir að hafa verið svona lengi heima.

Börnin hérna við hliðina hafa nánast búið hérna hjá okkur um helgina, mamma þeirra er búin að vera í uppskurði og er eitthvað slöpp. Við fórum út í gær. Sem betur fer eru bæði börnin okkar og börnin hér við hliðina mjög góð að leika sér úti. Þau hafa verið mikið úti líka í síðustu viku. Þeim tókst líka að eyðileggja leikhúsið sem við áttum. Það er erfitt að fá upp úr þeim hvað gerðist, en það lítur út fyrir að strákarnir hafi setið uppi á þakinu og það hafi ekki þolað það. Það er allavega alveg í frumeindum. Þeir vildu meina að það hafi komið einhverjir ræningjar og eyðilagt húsið.

Jæja best að fara að elda öndina

kveðja

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband