Sólarglæta

Kæru bloggvinir

það hefur verið ljómandi veður hér um helgina og við höldum kannski að vorið sé að koma. Við fórum á austurströndina og söfnuðum steinum og skeljum. VIð ætlum að reyna að gera einhvers konar minnisgrip frá Danmörku, svo við munum nú hvernig steinarnir líta út hér. Það er fyndið að um leið og maður kemur á ströndina hér, þá eru börnin farin að horfa niður á jörðina og leita að steinum og skeljum. Það voru nú ekki margir sjáanlegir á ströndinni. Enda vorum við þar fyrir hádegi. Kannski voru Danirnir ekki vaknaðir.

Annars hefur vikan boðið upp á fasta liði eins og venjulega. Auður datt í skólanum og snéri illa upp á höndina á sér. Hún var sem betur fer ekki brotin. Það hefði nú verið fjör. Hún hefur einu sinni brotið vinstri höndina, en nú var það hægri höndin sem varð fyrir slagi. Hún virðist nú vera búin að jafna sig á þessu, allavega ef maður talar ekki of mikið um það.

Börnin og frúin fara til starfa og leikskóla og skóla næstu tvo daga og svo erum við komin í páskafrí. Það verður nú sennilega reynt að pakka einhverju meira niður í páskafríinu, og svo stunda heimsóknir. Það fer hver að verða síðastur að hitta okkur áður en við flytjum. Við ætlum að halda smá kveðjupartý áður en við förum. Það verður 12 maí.

Ágúst hrundi líka á hausinn í leikskólanum í vikunni og verð krambúleraður í framan. Þetta er búið að vera hálfgerð klaufavika. Frúin fór til læknis með fótinn. Honum leist vel á hann, fyrir utan að það er full mikill aukavefur í kringum skurðina. Það er sennilega komið af því það þurfti að skera hana tvisvar sinnum. Hann vildi bíða með að fjarlægja skrúfuna sem heldur þessu öllu saman, svo liðböndin í kring fái tíma til að gróa almennilega saman. Hún fékk að vita að það væri betra fyrir hana að sleppa hækjunni, svo hún varð að venja sig á að hætta að vera með hana. Það er nú mjög skrýtið í byrjun, þetta er orðið hálfgerður stuðningsfulltrúi. En þetta gengur nú betur og betur með hverjum deginum.

Það er verið að stefna á að reyna að kenna Ágústi að hjóla án hjálpardekkja í páskafríinu. Hann er mikið að tala um það. Spurningin er bara, hvort við fáum einhvern til að hjálpa til með það, frúin á erfitt með að hlaupa um á eftir honum. Við gerum okkur vonir um að hann eigi eftir að vera fljótari að læra á hjólið en systir hans. En við sjáum hvað gerist.

Jæja best að fara að huga að kvöldmatnum, það á auðvitað að henda kjöti á grillið. Eins gott að það verði pláss fyrir grillið í gámnum.

Kveðja

Gramgengið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband