Smá sólarglæta

Kæru bloggvinir

hér hefur verið smá sólarglæta í dag, en þá var okkur boðið í fermingarveislu, svo við vorum innandyra í mestallan dag. Það var íslenskur strákur héðan úr Gram, sem var verið að ferma. Það var fínt að borða og börnin skemmtu sér vel.

Í gær var brunað til Þýskalands að versla inn, bæði til að taka með heim og fyrir það sem er framundan. Það þarf ekki orðið að versla mikið inn í matinn, því við erum að reyna að klára úr skápunum. Við erum smám saman að verða búin að losa okkur við innbúið, en það er eitthvað smávegis eftir. Naggrísirnir voru sóttir í vikunni. Dóttirin á heimilinu var ekki hrifin, en við fundum konu sem hefur mikinn áhuga á dýrum og kemur örugglega til að hugsa mjög vel um þá. Það er voða skrýtið að heyra ekki tístið í þein, þegar maður gengur um, en það er ekki mikill söknuður af að hreinsa undan þeim skítinn.

Auður fór í síðasta skipti á skátafund og í reiðskólann í vikunni. Það er ekki tími fyrir að fara oftar. Næsta föstudag er stóri bænadagur hér og frí í skóla og vinnu. Þá ætlum við að bjóða þeim sem við höfum umgengist mest og drekka kaffi saman og borða kökur. Það verður nóg að gera næstu tvær vikurnar áður en við komum heim. Það er ekki alveg búið að ganga upp fyrir okkur að við séum að fara að flytja. Ætli manni finnist ekki bara að maður sé að fara í frí á Íslandi. Allavega svona til að byrja með. Maður hlýtur svo að átta sig á þessu smám saman.

Við kíktum í heimsókn hjá konunni sem hefur verið dagmamma barnanna. Maðurinn sem keypti af okkur húsið er kominn í íþróttanefndina í bænum. Það fylgir því greinilega að búa í húsinu að vera með i því. Frúin komst svo líka að því að einn af rútubílstjórunum sem hún keyrir með, býr líka í Tiset. Við bjuggum í TIset í 8 ár og við höfum aldrei séð manninn. Það er nú svolítið skrýtið.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á fyrir átök vikunnar.

Kveðja

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband