Jólaundirbúningur

Kæru bloggvinir

hér hefur verið vorveður um helgina. Við erum bæði búin að fara í göngutúr og gefa hestunum brauð og fara á róló. Auði finnst voða gaman að dunda sér úti, en nennir ekki að vera lengi ef hún er ein.

Við fórum í leiðangur á föstudaginn og duttum niður á´nokkrar jólagjafir. Alltaf gott að byrja snemma á svoleiðis, þegar maður þarf að senda pakkana til Íslands. Svo er búið að panta jólakort, svo þetta er allt í rétta átt. Bóndann er farið að klægja í fingurna að fara að skreyta. En ætli maður reyni nú ekki að halda honum í skinninu þar til eftir afmælið hjá Ágústi Ægi. Eins gott maður átti ekki barnið nær jólum. Það væri nú meira stressið. Það er búið að versla inn smá afmælisgjöf handa honum. Hann hefur erft mest af dótinu sem systir hans lék sér með, svo hann vantar ekki neitt sérstaklega mikið dót. Hann tekur þessu nú með mikilli ró. Er farinn að labba meira með stuðningi, en er nú samt ekkert að stressa sig á því, af því hann skríður svo hratt. Honum finnst það ábyggilega mikið minna mál. En það hlýtur að koma að því að hann sleppi sér. Hann æfir sig mikið að labba í sundi. Það er bara svolítið skrýtið að vera svona léttur í vatninu.

Annars eru þau systkin eitthvað að lagast af kvefinu. Frúin hefur hins vegar verið hás og nánast raddlaus. Það voru heljarinnar vatnsskemmdir í vinnunni hjá frúnni á mánudaginn. Einhver rör undir gólfinu á 3. hæð gáfu sig og brutu sér leið gegnum gólfin í vinnunni. Það mátti því ekki hafa hita á skrifstofunum á mánudaginn, og frúin varð vel loppinn. Eftir þetta varð svo að setja inn vélar sem draga í sig rakann og þær draga greinilega líka rakann úr frúnni, því hún hefur verið alveg að skrælna meðan hún hefur verið í vinnunni. Vonandi fara þeir að verða búnir að hafa þessi rakatæki í gangi. Þetta er frekar óskemmtilegt. Kannski fylgir manni bara einhver óheillakráka, sem eyðileggur vatnsrör! :). 

Það var ráðist í það í dag að raka saman laufum hér í garðinum og á gangstéttinni. Þetta var heil kerrufylli. Það er ókosturinn við að búa nálægt skógi, það kemur svo mikið af laufi í innkeyrsluna og garðinn hjá okkur. Þetta lítur orðið út eins og hjá venjulegu fólki núna.

Ágúst Ægir ætlar að verða alveg jafn hrifinn af tónlist og systir sín. Hann dillar sér á fullu um leið og hann heyrir músik einhvers staðar. Við fórum á vinamat í föstudaginn og hann dillaði sér líka þegar við vorum að syngja sálma. Gerir greinilega ekki mikinn greinamun þar á. Það er alltaf einhver sem eldar mat. Síðast voru það arabar sem elduðu. Við buðumst til að elda. Nú þarf bara að finna út, hvað á að elda. Það þýðir ekki að bjóða Dönum upp á einhver séríslenskan mat. Þeir myndu örugglega ekki vilja borða sviðahausa, eða súra hrútspunga. Og hrossakjöt fæst ekki hér í nágrenninu. Enda ólíklegt að Guðsfólk vilji leggja sér það til munns. En við finnum nú örugglega eitthvað út úr því.

Það eru bæjarstjórnarkosningar hér á þriðjudaginn. Maður verður nú að reyna að kjósa eitthvað, það er nú ekki mikill munur á flokkunum. Þeir ætla allir að vinna fyrir fjölskyldufólkið. Finnst eins og ég hafi heyrt það áður. Kannski maður ákveði sig bara í klefanum.

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


Hor og hósti

Kæru bloggvinir

þá er runninn upp sólríkur sunnudagur. Það er nú orðið frekar kalt, en mjög fallegt veður. Það fer að styttast í næturfrostið, svo það er víst eins gott að fara að henda vetrardekkjunum undir. Hér er hefð fyrir að borða önd ca mánuði fyrir jól. Það heitir Mortens kvöld, man nú ekki söguna bak við það. En það er sem sagt verið að elda önd sem á að borða í kvöld. Sumir segja að þetta sé generalprufa fyrir aðfangadag, af því margir borða önd um jólin. Við ætlum nú alveg að sleppa því, þess vegna er fínt að fá hana bara núna í staðinn.Hún bragðast ljómandi vel.

Hér er alltaf nóg að gera. Bóndinn og nokkrir aðrir Íslendingar eru að undirbúa íslenskt jólaball um miðjan desember. Bóndinn ætlar að dressa sig upp í rauðan búning. Það verður spennandi að sjá hvort einhverjir koma. Það er einhver voða rígur í fólki hérna. Það er búið að leysa upp Íslendingafélagið í Kolding, út af einhverri vitleysu og það virðist oft vera eitthvað drama í kringum þessi félög. En ef allt fer í steik, þá höfum við allavega bara jólatréshátíð fyrir okkur og nokkra aðra útvalda. Það verður örugglega mjög skemmtilegt. 

Börnin hafa verið með kvef og hósta síðan við fluttum aftur inn í húsið. Þau þola sennilega ekki að það er enginn sveppur og raki lengur. Við erum nú samt að vona að þetta líði bara hjá, án þess við þurfum að fara að rækta sveppi hér innandyra. Auður er búinn að vera mjög afbrýðisöm undanfarið og fer alveg á límingunum ef Ágúst kemur nálægt því sem hún er að leika sér með. Við vonum þetta sé bara eitthvað sem þarf að fara í gegnum. Það eru einhverjar óeirðir í stelpuhópnum í leikskólanum, það gæti nú líka verið það sem hún er að pirrast yfir. Við fórum í göngutúr í morgun og gáfum hestunum brauð og gulrætur. Það er alltaf jafn mikið sport. Ágúst horfði á þá með stórum augum. Hann er búinn að læra að klappa  og finnst það auðvitað mjög sniðugt.  

Jæja það er víst frekar lítið annað títt hér

kveðja

Gummi, Ragga og börn


Óveður

Kæru bloggvinir

þá er komið haust fyrir alvöru. Það var hífandi rok hér á mánudaginn og einhverjir dóu þegar það brotnuðu tré og lentu á þeim. Það voru víst líka einhver þök og húsgaflar sem máttu láta lífið. Danirnir voru auðvitað voða stressaðir yfir þessu. En þetta var svo sem ekkert svakalegt, en samt strekkingshvasst. Þeir nota þetta eflaust sem afsökun fyrir því að geta farið fyrr heim úr vinnunni. Það varð auðvitað mjög mikil röskun á lestarsamgöngum og slíku og einhverjir þurftu að bíða í lestum í fleiri tíma, og fengu svo að vita að þær keyrðu ekki vegna veðurs. Ekki skemmtilegt það. Þeir voru búnir að lofa einhverju óveðri í dag líka, en það er ekki eins slæmt, bara rok og rigning. Það hefur veirð óveju hlýtt haust. Það er ennþá 10 stiga hiti á daginn og frostlaust á nóttinni. 

Annars er svo sem alltaf nóg að gera hér á bæ. Það er alltaf verið að reyna að bæta og betrumbæta eitthvað. Búið að setja upp hillur í stofunni og hitt og þetta. Við kunnum ekki að sitja og slaka á. Enda ágætt þegar maður býr í svona gömlu húsi. VIð verðum víst seint atvinnulaus hér. 

Börnin eru búin að vera voða kvefuð og hósta mikið. En það er heldur að lagast. Þau eru allavega farin að sofa á nóttinni. Auður sofnar um leið og hún leggst á koddann og vaknar ekki þó bróðir hennar gargi eitthvað þegar hann á að fara að sofa. Hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og lætur þær óspart í ljós. Hann hermir voða mikið eftir og finnst hann rosa fyndinn. Veit alveg hvað hann á að gera til að fá það sem hann vill. Þau systkin taka rokur nokkrum sinnum á dag þar sem Auður Elín vill ekki að hann leiki með dótið hennar. En hún má auðvitað alveg leika með hans dót. 

Þau eru bæði voða hrifin af músík og dilla sér i takt. Það er voða gaman að sjá þau. Auður er voða mikið að þroskast og það er mjög fyndið að heyra í henni stundum. Hún vill alltaf vera i pilsi í leikskólanum og vill vera rosa gella. En hún er oftast með allt á hælunum og bert á milli laga. Það virðist ekki skipta máli. Faðir hennar telur að hún hafi þetta eftir sér, þar sem hann var einmitt svona.

Jæja það er víst ekki mikið meira í fréttum hér að sinni

Kveðja

Tisetgengið


Haustveður

Kæru bloggvinir

eftir óvenju hlýjan og mildan októbermánuð hefur verið ekta haustveður í dag. Rok og rigning og laufblaðaskafrenningur. Það er ókosturinn við að búa svona nálægt skóginum. Það fyllist allt af blöðum hér á haustin. 

Hér hefur svo sem ekkert verið slegið slöku við hér undanfarið. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur og maður nær aldrei öllu sem maður ætlar sér. Þeir komu loksins á föstudaginn og löguðu uppþvottavélina. Maður er orðinn svo vanur að hún opnist ekki alveg, að maður gleymir að hún opnast eðlilega núna. Það má segja að þetta sé algjör lúksus að geta notað hana aftur. Svo nú er þetta allt saman að færast í eðlilegt horf. Bóndinn er að vinna í að klára að lakka gluggapóstana og setja lista. Þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Við vonum allavega að það komi ekki fleiri vatnsskaðar í bráð. 

Heilsufarið á bænum hefur verið heldur dapurt. Ágúst er búin að vera með hita síðan á miðvikudag og er enn með einhverja hitavellu. Hann er kominn með tvær tennur, sem gæti verið hluti af skýringunni, en hann er líka búinn að vera voða kvefaður og systir hans líka. Þau eru bæði komin með astmapúst aftur. Þetta er nu´samt allt í áttina. Auður fór bæði í sund og leikfimi í vikunni og var mjög sátt við það.  Ágúst er byrjaður að reyna fyrir sér með að bíta. Það vekur nú litla hrifningu. En þetta þarf víst að prófa. Hann hermir eftir manni og finnst það rosa fyndið og ætlast auðvitað til að við hlægjum að vitleysunni. 

Þeir breyttu klukkunni í nótt, sem þýddi að börnin vöknuðu klukkutíma fyrir áætlun. Ágúst vaknaði kl. 4 og vakti systur sína. Hún sofnaði þó aftur í smástund. Þetta hringl gerir blessuð börnin bara pirruð, þeir mættu alveg sleppa þessu okkar vegna. Auður Elín er mjög afbrýðisöm  út í bróðir sinn þessa dagana og vill helst gera allt sem hann er að gera og rífa af honum dótið.  Það eru einhver uppgjör í stelpuhópnum á leikskólanum núna. Það pirrar hana líka. Hún fær ekki alltaf að vera með og er voða leið yfir því. En hún er nú heldur ekki alltaf svo góð við hin börnin. Þau þurfa að læra þetta allt saman. Fóstrurnar eru nú yfirleitt góðar að skerast í leikinn og hjálpa til. 

Jæja ætli þetta dugi ekki í bili

kveðja

Tisetgengið

 


Haustfri

Kæru bloggvinir

Þá er búið að vera frí í skólunum og leikskólum hér í eina viku. Við erum að sjálfsögðu ekki búin að sitja auðum höndum. Held að við kunnum það ekki lengur. En allavega gott að vera búinn að þessu öllu. Það hefur verið allt á fullu við að koma öllu á sinn stað. Það er nú eitthvað eftir ennþá, en þetta er allt að koma. Bóndinn er líka búinn að vera duglegur að setja inn myndir hér á bloggið. Svo endilega kíkja á það. Við erum búin að heimsækja vini okkar í Odense og fara á flóamarkað. Við keyptum tvo skápa og kommóðu. Auði vantaði bókaskáp og við fengum fínan skáp og annan til að hafa inn í stofu. Svo fengum við kommóðu undir fiskabúrið. Þá getur Auður líka geymt litina og annað dót inni í stofu. Það er alltaf gott að hafa nóg af hirslum. 

Annars eru börnin búin að vera ansi kvefuð og fengu bæði augnsýkingu. Auður hefur lítið sofið síðustu tvær nætur því hún hóstar svo mikið. Hún er farin að vera spennt að fara í leikskólann aftur. Segir oft á dag að hún sakni þess. Þau systkin eru komin í sama herbergi. Það er nú ekki mikið pláss, en þetta hefst allt saman. þetta hefur gengið vonum framar. Ágúst fer fyrst inn í herbergi og sofnar yfirleitt strax, en við lesum sögu fyrir Auði og svo fer hún sjálf upp í rúm og sofnar. Við vorum nú pínu spennt að sjá hvernig það gengi því við höfum alltaf svæft hana. En hún er ótrúlega dugleg og sofnar bara strax. Henni finnst voða spennandi að láta lesa fyrir sig. Við erum að lesa biblíusögur og það finnst henni mjög spennandi. Frúnni finnst nú boðskapurinn ekki alltaf alveg mjög barnvænn, en hún skilur nú heldur ekki allt. 

Á morgun tekur hversdagsleikinn aftur við. Það er nú alltaf pínu erfitt að komast í gang aftur, en þetta hefst allt saman.

Það hefur verið frekar hlýtt þennan mánuðinn. En það á víst að fara að kólna.

Jæja best að fara að sinna börnum og búi

kveðja

Gummi, Ragga og börn


Heima er best

Kæru bloggvinir

þá erum við smátt og smátt að flytja aftur heim til Tiset. Það er engin smá vinna að koma öllu á rétta staði aftur. Snillingarnir sem settu upp eldhúsinnréttinguna gengu þannig frá uppþvottavélinni að hún opnast ekki. Þegar frúin kvartaði eitthvað yfir því, var hún spurð hvort hún hefði getað opnast áður en innréttingin var tekin! :) Við vonum nú þeir komi fljótlega og lagi þetta. Affallið af þvottavélinni er líka ófrágengið, svo það sprautast vatn út á gólf þegar hún dælir af sér. Snillingar þessir iðnaðarmenn. Það á nú að reyna að setja upp hillur og það sem aldrei hefur unnist tími til. Þá getur maður flutt almennilega inn og nær að gera almennilega hreint líka.

Við réðumst líka í að flytja rúmið hans Ágúst Ægis inn til Auðar. Það er nú lítið pláss þar inni, svo þetta var nú heilmikið púsluspil. Það rímkar allavega allverulega hjá okkur í svefnherberginu. Það verður spennandi að sjá hvort þau verða til friðs þarna á nóttinni. Þau sváfu í sama herbergi í sumarbústaðnum og það gekk mjög vel.

Auður er mjög ánægð eftir Íslandsförina og rosa ánægð með að vera flutt aftur heim. Hún er orðin voða dugleg að dunda sér. Hún fór svo í afmæli hjá einum úr leikskólanum í gær. Hún hitti alla á deildinni sinni og var alsæl eftir daginn. Það er frí í skólunum þessa vikuna, svo bæði Ágúst og Auður Elín eru heima. Hún var rosa ánægð að hitta bróðir sinn aftur, þó henni finnist hann nú stundum ansi þreytandi. Bóndinn er ekki minna ánægður. Hann átti alls ekki von á því að hann fengi nafna. Ekki laust við að hann felldi nokkur tár þegar litli drengurinn var skírður. En hann hlaut nafnið Guðmundur Liljar.

Það er annars rosa munur á hitanum í húsinu eftir við fengum nýja gólfið hérna í stofunni. Þannig að þetta endaði nú allt vel þegar öllu var á botninn hvolft. Nú getur maður verið á tásunum inni og fundist bara heitt. Það hefur reyndar verið frekar hlýtt þennan mánuðinn, svo það verður spennandi að sjá hvernig þetta verður þegar það fer að kólna meira.

Jæja nú vonast maður til þess að bloggið fari að koma á réttum tíma, nú þegar allt er að komast í réttar skorður. Það er fullt af myndum af framkvæmdunum sem er eitthvað vesen að koma hér inn. Kannski þær endi á blogginu.

Kveðja úr Danaveldi

Flóttamennirnir sem eru komnir heim

Við erum loksins komin með almennilegt internetsamband, svo síminn og netið er mun hraðvirkara. Við vorum með mjög lélega nettengingu áður og gemsasambandið hér er alveg herfilegt. 


Haustverkum lokið í bili

Kæru bloggvinir

maður er heldur betur farinn að finna fyrir því að það er farið að kólna. Sumarbústaðurinn er ekkert sérstaklega vel einangraður og heldur ekkert sérstaklega vel hita. Okkur er því farið að langa að flytja heim, en við vitum ekki ennþá hvenær það verður.

Við drifum í því um helgina að taka upp rabarbarann og ganga frá honum. VIð fengum nú enga gríðarlega uppskeru, en ætli verði ekki hægt að sjóða eins og eina uppskrift af rabarbarasultu. Það er allavega planið þegar við verðum flutt heim. Það er líka eftir að búa til rúllupylsu. En það verður líka látið bíða þar til við flytjum aftur heim.

Við komumst í fyrsta skipti í sund á laugardaginn. Höfum ekki getað verið með á þessari önn af því Ágúst hefur verið svo kvefaður. Hann er orðinn mikið betri og er laus við astmapústið. Hann er líka búin að fá matarlystina aftur. Hann er voða mikill matarkarl og finnst flest allt gott sem hann smakkar. Systir hans var ekki alveg eins opin fyrir nýjum mat á hans aldri. Hann hlær orðið voða mikið. Það er ekkert smá krúttlegt þegar svona lítil börn skellihlægja. 

Við erum greinilega að fá nýja nágranna í Tiset. Við sáum að það var einhver að flytja inn um helgina. Vonandi að það sé eitthvað gáfulegra en það fólk sem var fyrir. Það var þjófótt og óheiðarlegt. Það er óskaplega lýjandi að hafa alltaf nýja og nýja nágranna. En eigandi hússins vill ekki selja og getur það örugglega heldur ekki í þessari tíð sem er núna. 

Bóndinn er búin að mála allt hátt og lágt í stofunni og þetta lítur voðalega vel út. Það verður óskaplega gott að flytja aftur í húsið.

Bóndinn ætlaði að setja inn nýjar myndir um daginn, en þá var ekki pláss. Það þarf að kaupa meira pláss og það hefur ekki komist í verk. Verðum að reyna að bæta úr því.

Þrátt fyrir að flestum haustverkum sé lokið finnum við nú örugglega eitthvað að gera.

Auður Elín hefur verið voðalega pirruð á bróðir sínum undanfarið. Hann vill helst alltaf vera utan í henni og það skilur hún ekkert í. Hún er nú samt oftast góð við hann, þó hann sé ekki alltaf beint mjúkhentur við hana. Hún verður örugglega fegin að fá pásu frá honum í næstu viku. Hún spyr ansi oft hvort hún sé að fara í flugvélina. Spurning hvort hún geti sofið af spenningi síðustu dagana.

Jæja best að láta þetta nægja í bili

Kveðja úr "sumarfríinu"

Flóttamennirnir


Málningarvinna

Kæru bloggvinir

Þá er haustið komið fyrir alvöru, með rigningu og roki. Það er heldur farið að kólna, sérstaklega á nóttinni. Bóndinn er ekki enn búinn að gefast upp á stuttbuxunum, en það er nú horft ansi mikið á hann þegar hann birtist í þeim. Hér eru allir búnir að pakka sumarfötunum niður og dettur ekki í hug að fara að klæða sig í þau aftur. Frúin er líka búin að gefast upp á að vera berfætt og er komin í sokka. Þá er víst ekki aftur snúið. Verður að bíða fram á vor.

Það er búið að steypa og slípa gólfið í húsinu og búið að setja eldhúsinnréttinguna inn. Það var voða skrýtið að sjá þegar það var komið gólf og innrétting í húsið. Svona þegar maður er búinn að sjá þetta með moldargólfi í nokkrar vikur. Það þarf að bíða eitthvað lengur áður en gólfið er sett, af því steypan má ekki vera rök. Manni fyndist nú meira vit í að leggja gólfið fyrst og setja innréttinguna upp eftir það. En þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera. Bóndinn er búinn að vera á fullu að mála. Við ákváðum að mála í ljósum lit í þetta skiptið. Það er enginn smá munur. Það hefði þurft að setja nýtt veggfóður, af því það eru göt eftir ofnana og rörin sem voru á veggjunum. En það verður ekki ráðist í það núna. Planið er svo að reyna að klára að ganga frá gluggunum í stofunni líka, svona fyrst við erum komin í gang. Þegar öllu er á botninn hvolft fáum við vonandi mun meiri hita í húsið og betra gólf. En þetta var kannski ekki alveg á fjárhagsáætlun núna.

Bóndinn og Auður Elín eru væntanleg til Íslands í nokkra daga núna í byrjun október. Helga Rut er að fara að skíra strákinn sinn og bóndann langaði auðvitað að sjá kappann. Það var ákveðið að leyfa Auði að fara með, af því henni finnst nú svo gaman að fara í flugvél og svo langar hana að sjá nýja frændann. Henni finnst þetta nú pínu skrýtið. Frúin og Ágúst verða bara heima. Eftir brúðkaup og nýtt gólf, þá er ekki mikill peningur eftir á reikningum. Það er vonandi að við verðum flutt í Tiset áður en þau fara heim. Það er töluvert vesen að búa svona á tveimur stöðum og extra keyrsla. 

Börnin eru að þroskast voða mikið þessa dagana. Ágúst skríður út um allt og reynir að standa upp alls staðar. Hann gleymir svo nokkrum sinnum að halda í og dettur á bossann. En hann er nú ekkert að gráta of lengi yfir því. Hann er gríðarlega hrifin af ryksugum og rannsakar þær í bak og fyrir. Auður er að verða svaka mikil skvísa. Hún vill gjarnan vera í buxum með einhverju punti á, eða í kjól. Hún er nú samt dálítið fyndin, af því í gær vorum við á flóamarkaði. Þar var kassi með alls konar dóti, og hún mátti velja 2 hluti. Hún valdi 2 risaeðlur. Hún hefði getað valið dúkkur, en nei, risaeðlur, það var það sem hún vildi. Hún syngur voða mikið og er fljót að læra texta. Hún syngur oftast sömu lögin og það getur nú orðið pínu þreytandi. En við erum byrjuð að hlusta á geisladisk í bílnum svona til að auka eitthvað úrvalið.

Bíllinn gaf upp öndina á þriðjudaginn, eða það héldum við. En svo hringdum við eftir vegahjálp og hann kom og skipti um kveikjulok og eftir það gengur hann betur. Nú eru það svo bara bremsurnar sem eru að verða búnar. En ef við skiptum um þær ætti þetta nú að fara að koma. Við vonum það besta. Við erum komin í samband við bifvélavirkja sem er tilbúinn að gera hann kláran fyrir skoðun og við vonum að það gangi eftir. 

Jæja það er víst ekki mikið annað í fréttum hér að sinni.

kveðja

Tisetgengið


Haustveður og kartöfluupptaka

Kæru bloggvinir

þá er víst ekki hægt að segja annað en að haustið sé komið. Það er farið að vera ansi vætusamt og heldur kalt. En það er auðvitað ekki við öðru að búast. Við höfum fengið mjög gott sumar, svo við getum ekki kvartað.

Það er búið að steypa gólf í húsinu okkar og leggja gólfhita. En það þarf að þorna í minnst 2 vikur áður en hægt er að setja parket á. Og það þarf að líða mánuður áður en það má setja hita á gólfið. Svo við búum í sumarbústað í allavega mánuð ennþá. En þetta hlýtur að verða alveg svakalega fínt þegar við getum flutt inn aftur. Maður á örugglega eftir að vera þakklátari fyrir ýmsa smáhluti. Okkur fannst nú alveg nóg að við þyrftum að standa í þessu veseni í húsinu, en nú er bíllinn eitthvað að gefa sig. Hann á að fara í skoðun í nóvember, svo við erum að velta fyrir okkur hvort það borgi sig að gera við hann og reyna að koma honum í gegnum skoðun. Sjaldan er ein báran stök. Notaðir bílar hafa reyndar lækkað mikið í verði hér, en á móti kemur að það þarf að borga hærri þungaskatt, af því gömlu bílarnir eru ekki eins umhverfisvænir og sparneytnir. En þetta er allt í skoðun, þangað til verður að reyna að lappa eitthvað upp á þann gamla og reyna að keyra hann út.

Við höfum verið mjög virk í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn var vinamatur hérna rétt hjá. Við höfum verið með 3 sinnum áður. Þar hittist fólk, bæði Danir og útlendingar og borða saman. Þetta er voða huggulegt og kostar ekki neitt. Í gærkvöldi vorum við svo í 50 ára afmæli hjá íslenskri vinkonu okkar. Börnin voru pössuð og við vorum í partý frá kl. 16:00-24:00. Maður er nú að verða of gamall fyrir þetta næturbrölt. Partýið var ekki búið fyrr en kl. 6 í morgun. Þá vorum við að vakna aftur með börnunum.

Hér eru allir kvefaðir og bæði börn með slæman hósta. Það er nú venjan þegar fer að hausta og rakinn er svona mikill. Þetta er nú samt alltaf jafn leiðilegt. Annars eru þau nú ótrúlega hress. Við fórum í dag og skoðuðum kúabýli. Það var opið hús á mörgum sveitabýlum. Auði fannst þetta mjög skemmtilegt og Ágúst fylgdist vel með úr kerrunni sinni. 

Jæja þetta ætti að vera nóg í bili

kveðja

Gummi, Ragga og börn


Útilega

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið ágætis veður síðustu daga. En þetta er víst búið núna. Nú fer hann að snúast í rigningu. Við ákváðum að skella okkur í útilegu svona áður en það verður of kalt. Við ákváðum að fara á litla eyju ekki mjög langt héðan. Þetta var nú svo sem ekkert ofurspennandi eyja, en það var allavega ekki annað hægt en að slappa af, af því það var ekkert til dægradvalar. Það var heldur lítið af skemmtun fyrir Auði og lítið af börnum, en hún skemmti sér nú samt ágætlega. Nú er svo bara að redda geymslu fyrir tjaldvagninn og koma honum fyrir. Það verður svo spennandi að sjá hvernig það verður að fara í útilegu næsta sumar þegar Ágúst Ægir er orðinn eldri og vonandi farinn að hlaupa út um allt. Það er voða lítið mál að hafa hann með núna því hann kemst ekki svo hratt yfir. Hann er voða duglegur að skríða og líka að reisa sig upp við allt. Hann er nú búinn að vera eitthvað hálfslappur um helgina. Með hitavellu og niðurgang. Við erum öll með einhvern kverkaskít, en það fylgir nú víst bara árstíðinni.

Þeir eru nú ekkert farnir að vinna í húsinu. En það er allavega búið að koma með efni og setja inn í innkeyrsluna, svo vonandi fara þeir að koma sér í gang. Það væsir svo sem ekkert um okkur hér í bústaðnum, en það er alltaf best að vera heima hjá sér.

Annars gengur hér allt sinn vanagang. Bóndinn reyndi og reyndi að koma inn myndum um daginn, tæknin var eitthvað að stríða honum. Við erum ekki búin að finna út hvað er að, en það er verið að vinna í málunum.

Það er víst ekki svo mikið annað að frétta héðan. Látum þetta duga í bili

Kveðja

Gummi, Ragga og börn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband