Snjór og aftur snjór

Kæru bloggvinir

hér er allt á kafi í snjó. Þó er eitthvað aðeins farið að hlána hérna hjá okkur, en hér fyrir norðan okkur er þetta ekkert að lagast. Við höfum aldrei upplifað svona mikinn snjó í okkar tæp 9 ár hér í Danaveldi. Við þurftum að fara til Kolding í morgun, sem er ca 70 km héðan. Við vorum að sækja eldvarnarhurð sem var búið að redda fyrir okkur fyrir lítinn pening. Við reiknuðum nú ekki með að það væri neitt vandamál. En þetta var nú hálfgerður barningur því þeir ryðja helst ekki neitt. Þeir eiga ekki pening í það. Saltbirgðirnar voru uppurnar í miðri síðustu viku og af því þeir voru svo seinir að panta nýjan skammt, þá hefur verið saltað algjörlega í lágmarki síðustu vikuna. Þetta hefur verið allt í lagi fyrir bóndann því vinnubíllinn er á góðum dekkjum. En víða hefur allt verið stopp. Og inn í Kolding var allt kolófært. Við fórum í kaffi til Gunnþóru vinkonu og við ætluðum ekki að komast upp brekkurnar fyrir snjó og hálku. Það hefur ekki verið sótt rusl hjá þeim síðan fyrir jól. Maður skilur náttúrlega ekki alveg hvernig fólk lætur bjóða sér þetta. Það kemur ekki svona mikill snjór hér í Danmörku nema á 15 ára fresti, svo maður skyldi ætla að þeir ættu pening til að ryðja. En þeir hafa greinilega notað peninginn í eitthvað annað. Við getum ekki annað en hrist hausinn yfir þessari vitleysu. Svo var verið að tala um í fréttunum í vikunni að Danir eiga þrjá ísbrjóta sem eiga að halda sjónum opnum. Það kostar 20 milljónir danskar krónur, á ári að halda þessum döllum í standi og þeir hafa ekki verið úti að sigla í 15 ár. Samt eru 12 manns fastráðnir til að halda bátnum klárum. Manni fyndist nú nær að nota peninginn í að halda vegunum opnum. En vonandi fer þetta nú eitthvað að lagast. Það er hvergi orðið hægt að kaupa snjóskóflur eða snjóþotur. VIð hlógum nú að því í nóvember þegar þeir voru að reyna að selja þotur og skóflur. Held við kaupum bara þær næstu sem við sjáum. Þó svo það komi ekki snjór næstu 15 árin!

Annars hefur vikan nú farið í að komast aftur í hversdagsgírinn. Það tekur nú alltaf smá tíma að komast í gang aftur eftir frí. Auður Elín hefur verið frekar pirruð og er örugglega bara illt í munninum. Hún er komin með tvær tennur. Hjúkrunarkonan kom á föstudaginn og leist bara mjög vel á hana. Hún þyngist hægar núna, enda hreyfir hún sig mikið meira. Hún er alveg skæð í að ná í allar leiðslur svo við verðum að fara að gera eitthvað róttækt í að fjarlægja svoleiðis. Það er líka smám saman verið að fjarlægja dót sem hún getur náð í. Hún er farin að rúlla sér um allt gólf og nær ótrúlegustu hlutum. Við vorum að hlægja að því um daginn að hún myndi kannski ekki skríða heldur bara velta sér. Hún er farin að prófa að borða ýmsan mat. Henni finnst það´mjög spennandi, en finnst nú hafragrauturinn ennþá bestur.

Múrarinn geðgóði hefur ekkert verið hér síðan fyrir jól þvi pabbi hans er mikið veikur og hann er mikið hjá honum. Svo við vitum ekkert hvenær hann kemur að klára það sem hann á eftir. Það hefur verið svo mikið frost hérna að dæla sem var úti við brenniofninn sprakk, svo við þurfum að finna nýja dælu. Það þarf hvort sem er að laga einhverja ventla sem eru hjá ofninum. Þeir þoldu ekki þrýstinginn þegar við lögðum nýjar hitalagnir í húsið. Svo það er alltaf eitthvað að dunda sér við.

Næstu helgi á svo að reyna að koma eldvarnarhurðinni í. Vinur okkar ætlaði að hjálpa okkur með það. Það þarf eitthvað að stækka gatið og svoleiðis.

Við tókun nú ekki margar myndir á Íslandi en eitthvað þó. Bóndinn reynir kannski að henda þeim inn við tækifæri.

snjókveðjur

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð

Þetta er nú meira ástandið hjá ykkur. Hér er bara logn of 6 stiga hiti. Maður býður bara eftir því að það fari að grænka, nei ætli það.

Vorum bara að taka niður jólin núna, enginn æsingur á þessum bæ.

Heyrumst síðar.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 17:10

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Brrrr, hér er bara 5 stiga hiti og næs. Er þó að fara að kólna eitthvað. Mér væri alveg sama þó að ég sæi aldrey snjó og hálf vorkenni ykkur þarna á klakanum. Bara ykkur þrem, mér er sama um restina :P
kær kveðja, fólkið á Kjóalandi.

Bragi Einarsson, 10.1.2010 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband