17.1.2010 | 13:25
Og enn snjóar
Kæru bloggvinir
þetta veðurfar er nú alveg hætt að vera fyndið. Hér snjóar ennþá og á að gera næstu dagana. Manni finnst þetta nú alveg orðið gott. Ég held þetta sé fyrsti veturinn okkar hér sem við kaupum ekki vetrardekk undir bílinn og þá snjóar bara og snjóar. Alveg ótrúlegt. Danirnir eru alveg að fara yfirum á þessu. Enda alls ekki vanir svona veðurfari. En við hljótum bara að fá gott sumar í staðinn.
Bóndinn og vinur okkar skelltu eldvarnarhurðinni í í morgun. Svo nú þarf bara að múra í holur og klára eitthvað smávegis. Þá getur tryggingarmaðurinn komið aftur og við vonum að hann samþykki þetta þá. Allavega gott að vera búinn að koma hurðinni í. Þá er það ekki eftir. Við renndum til vina okkar í Kollund á föstudaginn og keyptum af þeim notaðan ofn. Okkur vantar nefnilega ofn uppi. Þeir sprungu báðir í fyrra. Svo nú ætlum við að fá píparann til að leggja rör upp á loft og gera klárt til að tengja við ofna þar uppi. Hann þarf líka að líta á brenniofninn og reyna að fá hann í gang aftur. Við höfum kynt með gasi síðustu mánuði og það er ekkert sérstaklega ódýrt. Við töluðum um það um daginn að ef það hefði verið svona kalt síðasta vetur, þá hefðum við orðið að flytja í annað hús. Það hefði örugglega verið frost hérna inni. Við erum allavega búin að komast að því að gluggarnir í stofunni eru alveg hrikalega óþéttir, svo það þyrfti nú helst að skipta þeim út fyrir næsta vetur. Það hefur líka verið svo mikið rok hér í vetur að maður hefur tekið vel eftir hversu óþéttir þeir eru.
Frúin er farin að svipast um eftir vinnu. Vinnan sem hún var í, var bara 2ja ára verkefni og það kláraðist núna um áramótin, svo nú þarf eitthvað að fara að skoða það. Hún þarf nú samt ekki að fara að vinna fyrr en í maí. Annars datt okkur í hug um daginn að opna bara svona heilsumiðstöð í kránni hérna í Tiset. Við gætum haft líkamsræktarstöð og sálfræðinga og eitthvað fleira. Við sálfræðingarnir 2 í bænum hefðum þá vinnuna alveg í hlaðvarpanum. Hinn sálfræðingurinn býr við hliðina á kránni. Svo þetta gæti nú ekki verið auðveldara! :) Dagmamman í bænum gæti jafnvel fengið pláss þarna líka. Annars er hún nú í smá vandræðum. Það eru ekki svo mörg börn í bænum að hún er ekki viss um að hún geti haldið áfram að hafa opið. Hún er með 5 börn og 3 af þeim byrja á leikskóla í haust. En vonandi flytja einhverjar barnafjölskyldur í bæinn áður en það verður. Við vonum bara það besta. Frúin komst nú annars í smá aukavinnu í vikunni. Systir vinkonu okkar bað um að fá smá aðstoð og frúin tók hana í samtal. Það getur orðið eitthvað meira en er ekki víst.
Frúin fór svo í mömmubíó í vikunni. Það er rosalega sniðugt. Þá geta heimavinnandi mæður mætt í bíó með krílin. Þetta er fyrir hádegi og voða afslappað bara. Auði Elínu líkaði þetta bara mjög vel og hegðaði sér auðvitað eins og engill. Hún hefur nú annars verið voða pirruð og lítil í sér undanfarið. Er farin að vakna á nóttinni aftur og er eitthvað að rella. Það er samt alveg ótrúlegt hvað hún grætur lítið. Hún rellar bara. Hún er líka orðin ansi ákveðin. Ef hlutirnir ganga ekki alveg eftir hennar höfði þá verður hún bara ferlega pirruð.
Bóndinn komst í hann krappann í vikunni. Það var fljúgandi hálka og rosalega hvasst svo hann fauk hreinlega bara út af veginum á vinnubílnum. Hann var með tvo stráka í bílnum en sem betur fer slasaðist enginn. Bóndinn er bara allur lurkum laminn eftir þetta og bíllinn er mikið skemmdur. Það sem kom kannski mest á óvart var að það stoppaði einn maður og hjálpaði þeim út úr bílnum, en skildi þá svo bara eftir í brunagaddi og roki. Svo kom annar og stoppaði, en hann mátti ekki vera að því að hjálpa, spurði bara hvort þeim vantaði síma til að hringja úr. Bóndinn reyndi svo að stoppa næstu bíla, en það keyrðu minnst 15 bílar bara framhjá. Það kom loksins gömul kona á pínulitlum bíl, sem tróð þeim inn í bílinn og keyrði heim til sonar síns sem átti heima rétt hjá. Síðan var karlinn keyrður á sjúkrahús af því honum var svo illt í hnakkanum og bakinu. Þeir sáu ekkert, svo hann var sendur heim með verkjatöflur. Hann er svo kominn á annan bíl og mætti í vinnuna á föstudaginn. Vonandi sleppur hann sæmilega út úr þessu. Sonur konunnar sem hjálpaði bóndanum sagði að það færi minnst einn bíll út af veginum á hverjum vetri, þar sem bóndinn fór út af. Það skefur svo fljótt í skafla og verður alveg flughált undir.
En ætli við látum þetta ekki nægja í bili
Snjókveðjur
Ragga,Gummi og Auður Elín
Athugasemdir
Jahérna hér, ég öfunda ykkur heil ósköp yfir snjónum. Hér er búið að vera óvenju kalt, frost á nóttunni og stundum fram eftir morgni en alls enginn snjór :( Bjarki bróðir var einmitt að segja mér að þau fengju bara póst 1x í viku núna þar sem að Danir kynnu ekki að keyra í snjó!!!!
Vonandi verða áverkarnir ekki alvarlegir hjá þér Gummi og þú náir þér fljótt. Ótrúlegt að heyra af svona lítt hjálpsömum Dönum!
Rosalega hljómar þessi atvinnu-nýsköpunar-hugmynd með kránna vel, GO FOR IT GIRL! Ég gleymi alltaf að spurja mömmu hvort hún hafi hlaupið yfir til mömmu þinnar Ragga á meðan þið voruð þar til að sjá Auði Elínu - hún var nefnilega að spá í að gera það til að gera gortað sig af því við mig að hafa verið á undan að sjá hana :D
Bestu kveðjur á ykkur öll, Kata og Co.
Kata (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 15:27
Úfff vonandi jafnarðu þig fljótt af meiðslunum Gummi,ekki skemmtilegt að lenda í svona! Ekki öfunda ég ykkur af öllum þessum snjó, er dauðfegin að vera laus við hann.
Vonandi dettur einhver spennandi vinna inn hjá þér fljótlega Ragga mín
Kveðja, Hildur
Hildur (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.