Bakstur

Kæru bloggvinir

hér er ennþá brunagaddur og snjór. Það var 9 stiga frost hér í morgun, en er reyndar bara 6 stig núna. Við hjónaleysin drifum okkur út í smá göngutúr í morgun. Frúin ákvað að fara bara í norparann, hefur ekki farið í hann síðan við fluttum til Danmerkur, en hann kom sér vel núna. Það hefur aldrei verið nógu kalt til að vera í honum. En í dag var hann algjört þarfaþing. Þeir eru nú eitthvað að tala um að það fari kannski að hlýna upp úr næstu helgi, og væri það nú vel þegið. Það er þó einn stór kostur við snjóinn og það er birtan sem fylgir honum. Desember og janúar geta verið ansi dimmir og grámyglulegir hérna, en það hefur verið mjög bjart og fallegt veður núna undanfarið. Maður er líka farin að taka eftir því að daginn er farið að lengja, það er bjart hérna til rúmlega 5 seinnipartinn. Það er alltaf voða notalegt þegar fer að birta aftur.

Frúin tók sig til í vikunni og bakaði rúgbrauð úr súrdeigi. Hún keypti einhverja danska kökubók og ákvað að nú yrði hún að fara að verða pínu myndarleg húsmóðir. Hún hefur nú alltaf ímyndað sér að það þyrfti nánast háskólagráðu til að baka súrdeigsbrauð, en þetta heppnaðist nú bara ótrúlega vel. Tók að vísu 5 daga í allt, af því deigið þarf að standa og súrna. Gallinn við þetta er að það er ógeðslega vond lykt af þessu meðan þetta er að lyfta sér. Svo sáum við eftir á að það er hægt að kaupa tilbúið í pakka efnið í svona brauð, veit samt ekki hvort þú sleppur við súrlyktina. Það verður að prófa það líka. Í dag er bóndinn svo búinn að bretta upp ermarnar og ætlar að baka bollur. Svo það er nóg að gera.

Píparinn var búinn að lofa að koma í vikunni en hefur ekkert sést. Hann segist alltaf vera að laga sprungin vatnsrör sem þola ekki kuldann. En vonandi fer hann nú að láta sjá sig. Þetta er nú orðið ansi þreytandi. En maður skilur auðvitað að sprungin vatnsrör hafi forgang.

Auður Elín þroskast voða mikið þessa dagana. Hún er farin að sitja sjálf á gólfinu. Það eru reyndar smá jafnvægisvandamál ennþá, en ekkert stórvægilegt. Hún er búin að vera ótrúlega fljót að ná tökum á þessu. Hún er orðin voða dugleg að borða og finnst sérstaklega spennandi að prófa það sem við erum að borða. Hún er sérstaklega hrifin af fisk. En annars smakkar hún eiginlega allt. Hún er svolítið lík Ozzy gamla hundinum okkar. Hún fylgist nákvæmlega með hvað við borðum og vill fá það sama. Hún hefur líka fengið að naga bein hjá pabba sínum. Henni finnst það alveg rosalega skemmtilegt. Hennar uppáhaldsleikföng þessa dagana eru annars tómar mjólkurfernur. Maður þarf ekki að eyða stórfé í dýr leikföng handa henni.

Bóndinn var svo heppin í vikunni að detta niður á snjóskóflur. Þær hafa verið uppseldar síðan snjórinn kom. Hann er voða ánægður með gripinn og er búin að prófa hana hérna fyrir utan. Vinnufélagar hans hafa verið að ræða eitthvað handbolta undanfarið, og verið ansi kokhraustir og talið að þeir myndu nú rústa Íslendingunum. Svo það verður ekki leiðilegt fyrir hann að mæta í vinnuna á morgun. Þeir eru almennt með mikla minnimáttarkennd gagnvart öðrum þjóðum og fara í rosa vörn ef einhver er að setja út á Danina. Þeir hafa líka oft mikla þörf á að benda okkur á að það gangi nú ekki svo vel hjá Íslendingunum núna. En þeir töluðu ekkert um það þegar allt gekk vel. Þó maður sé nú orðinn vanur þessu þá getur þetta nú stundum farið í taugarnar á manni.

Það eru komnar inn nýjar myndir, endilega kíkið á þær.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ

Bara snjór og kuldi ennþá hjá ykkur. Hér er búið að vera 7-8 stiga hiti og rigning. Vorum á svaka þorrablóti í gær í íþróttahúsinu, um 700 manns og svaka fjör. Við verðum í Kaupmannahöfn í byrjun júní, það væri nú gaman að skreppa yfir til ykkar, aldrei að vita.

Kveðja úr Garðinum

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 13:47

2 identicon

Gaman að skoða myndirnar af dömunni, já og náttulega ykkur! Finnst Auður Elín svolítið lík Ella á mörgum myndunum. Gott hjá ykkur að vera í ungbarnasundi með dömuna, hvernig fílið þið það?

Hérna kom svolítill vetur um daginn, frost og alles mínus snjór, en núna er bara farið að hlýna aftur og við fengum meira að segja einn 20 gráðu dag :D

Hehe þið verðið nú að gorta ykkur af handboltaköppunum okkar og stríða Dönunum aðeins! Heyrði aðeins í Ástu Kristínu í gær og henni hlakkaði ekki lítið til að mæta í skólann á morgun og stríða öllum 150 nemendunum plús kennurum eftir helgi! :D

Asskolli er kellan orðin myndarleg í húsmóðursstörfunum, súrdeig og alles! Maður spyr sig nú bara hvað næst? Þú hlýtur þá náttulega að vera búin að leggja í súr og núna borðið þið þorramat upp úr tunnum eða???

Bestu kveðjur í bæinn,

Kata og Co.

Kata (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 16:08

3 identicon

Kíkti á myndirnar af dömunni, hún kann greinilega vel við sig i sundinu! Frábærar myndir! Vonandi fer nú að hlýna hjá ykkur, verð samt að segja að það er skárra að hafa froststillur og snjó heldur en grenjandi rok og rigningu!

Alltaf gaman að lesa fréttir af ykkur - sjaumst vonandi í næstu Íslandsheimsókn!

Bestu kveðjur Lilja og liðið

Lilja Eygerður (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband