31.1.2010 | 16:52
Til hamingju Ísland
Kæru bloggvinir
það má segja að maður sé bara hálfgáttaður á að Íslendingar hafi unnið bronsið í handboltanum. Maður þorir einhvern veginn aldrei að vona að þeir vinni leikina, af því maður hefur nú oft orðið skúffaður. En allavega frábær árangur. Vinnufélagar bóndans hættu alveg að tala um handbolta eftir að Danirnir duttu út. Ef hann reynir eitthvað að tala um það, þá fara þeir bara að tala um að það gangi nú ekki svo vel með fjármálin á Íslandi núna. Svo þetta er voða viðkvæmt mál.
Hér er ennþá hávetur. Það kom hláka einn dag í síðustu viku en hefur svo snjóað töluvert síðan, svo staðan er sú sama. Og það er von á meiri snjó í vikunni. Þeir eru eitthvað farnir að tala um að eftir ca. 14 daga gæti þetta eitthvað farið að breytast. Maður er allavega farin að verða hálfþunglyndur á þessu. Það hefur þó verið heldur hlýrra á daginn undanfarið, svo það er þó allavega bót í máli.
Við hjónaleysin skelltum okkur með íþróttafélaginu í keilu og út að borða í gærkvöldi. Ungfrúin fór í pössun. Hún grét eins og ljón þegar hún áttaði sig á því að hún átti að verða eftir, en jafnaði sig nú og stóð sig bara nokkuð vel. Það var voða fínt að komast aðeins að heiman. Hún hefur annars verið voða ljúf undanfarið. Er búin að átta sig á því að hún getur öskrað ansi hátt og finnst það voða sniðugt. Það liggur við að við þurfum að vera með heyrnaskjól. Hún er komin með nýjan barnabílstól, þar sem hún getur horft á allt í kringum sig, þetta þýðir að hún er steinhætt að sofa í bílnum. Það er svo margt að skoða. Áður sat hún í stól sem snéri baki í akstursstefnuna og þá var auðvitað ekkert merkilegt að sjá. Við fórum og keyptum stóran vaskabala og svona sæti fyrir hana til að sitja ofan í. Þetta hefur vakið mikla lukku. Nú getur hún setið í balanum og leikið sér meðan foreldrarnir eru í sturtu. Svo getur maður notað þetta sem heitan pott fyrir hana úti í sumar. Við vonumst auðvitað eftir góðu sumri. Eigum það skilið eftir þennan vetur.
Píparinn kom loksins í vikunni. Hann gat nú ekki klárað og kemur aftur á morgun. VIð réðumst í að klára herbergið þar sem brenniofninn er. Nú á bóndinn bara eftir að spasla. Frábært að vera loksins búinn að því. Svo vonumst við eftir að geta farið að kynda aftur með trépillum. Hitt er svo hryllilega dýrt.
Jæja látum þetta duga að sinni
kveðja
Snjókarlarnir í Tiset
Athugasemdir
Æi veslings Danirnir ekki alveg sáttir eftir Evrópumótið :D Tíhí, gat nú verið að þeir reyndu þá að snúa út úr með fjármálaumræðu!
þurfti að lesa aftur miðjukaflann í blogginu þar sem ég var farin að halda að þið hefðuð dottið á hausinn að kaupa vaskbala og sæti sem nýjan barnabílstól!!!! Hahahhahhahahah en það var nú bara ég svolítið sein að fatta.
Gott hjá ykkur að skella ykkur út barnlaus til tilbreytingar og rosa munur að hafa svona öflugt íþróttafélag í bænum - kemst nú samt áreiðanlega ekki í hálfkvist við Umf. Dagsbrún! :D
Vonandi fer ykkur nú svo að hlýna rýjurnar mínar, ómögulegt að hafa ykkur svona gaddfreðin alltaf hreint.
Kv. Kata og Co.
Kata (IP-tala skráð) 1.2.2010 kl. 03:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.