21.2.2010 | 15:09
Brakandi blíða
Kæru bloggvinir
hér hefur verið brakandi blíða í dag, sól og fallegt veður. Það hefur reyndar verið frekar kalt, en allt verður betra þegar sólin skín. Það hefur verið heldur hlýrra hér síðustu vikuna, en það á að kólna aftur í næstu viku og koma meiri snjór. Við drifum okkur út að labba í blíðunni.
Fríið hefur verið notað vel í hina ýmsu snúninga og smáverkefni. Við fórum í stærsta skemmtigarð í Danmörku á þriðjudaginn (IKEA) í Árósum. Þar var að vonum fullt út úr dyrum. Við hjónaleysin keyptum inn eins og enginn væri morgundagurinn. Fengum ljós á ganginn og ýmislegt fleira á góðu verði. Við keyptum líka gardínustangir í stofuna. Nú vantar bara að kaupa gardínuefni og hengja þetta upp. Það er alveg ótrúlega lítil festa í veggjunum í stofunni, svo það verður eitthvað skrautlegt að fá gardínustangirnar til að hanga uppi. Við fórum líka í Arababúðina og keyptum fullt af kjöti. Það er eini staðurinn sem við vitum um þar sem hægt er að fá lambakjöt á góðu verði. Svo nú erum við búin að fylla frystirinn og leggja lambakjöt í saltpækil. Við fórum svo loksins og skiptum viftunni í eldhúsinu. Það hefur verið á dagskrá lengi. En þessi sem við keyptum fyrst var alltaf eitthvað biluð. Við fengum aðra viftu í staðinn og borguðum bara lítið fyrir. Við vonum að þessu endist eitthvað betur. Nú er bara smá málningarvinna eftir á baðinu, þá fer þetta allt að smella saman.
Ungfrúin er farin að vera ansi ákveðin ef hún fær ekki það sem hún vill. Gaman að fylgjast með þessum tilþrifum hjá henni. Hjúkrunarkonan kom í vikunni og leist bara vel á hana eins og alltaf. Hún gerði heyrna- og sjónpróf á henni. Eitthvað sem þær gera við öll börn þegar þau eru 8 mánaða. Hún heyrði eitthvað verr á hægra eyranu svo hjúkrunarkonan vildi að við færum með hana til læknis til að athuga hvort hún væri með vökva í eyranu eða eitthvað í þá átt. Þetta var nú ekkert alvarlegt, en betra að láta tékka á þessu. Hún hefur verið kvefuð undanfarið, svo það gæti nú alveg verið að hún væri með eitthvað í eyrunum. Hún er farin að þekkja nafnið sitt, en gegnir nú ekki alltaf þegar kallað er á hana! Allavega ekki þegar hún er að gera eitthvað sem hún má ekki. Mesta sportið þessa dagana er að fá eplabát að naga. Hún gleymir að vísu að kyngja, svo hún safnar þessu bara upp í sig. Þar til við drögum þetta út úr henni. Við erum farin að reyna að gefa henni smá brauð líka, en hún kúgast nú bara á því.
Á föstudaginn fórum við til Ribe og hún fór í myndatöku. Það er samkeppni í ljósmyndabúðinni. Maður fær fría myndatöku og svo tekur hún þátt í keppni um fallegasta barnið í Ribe. Maður getur svo keypt myndirnar á góðu verði. Hún var með eldrauðar kinnar á myndunum. Hún fær oft mjög rauðar kinnar seinnipartinn, oft í tengslum við tannverki. En þetta gekk nú allt vel og við völdum mjög fína mynd af henni til að stækka.
Bóndinn ætlar að henda inn nokkrum myndum í dag
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Jæja, gott fólk. Þá er farið að sjá fyrir endann á þessum "endurbótum" hjá ykkur, fyrst farið er að versla garðdínur! Hér er kallt en snjólaust og miðað við þessar myndir frá ykkur, get ég ekki kallað þetta mikinn snjó! Þegar hann er kominn í mitti, þá er það mikill sjór, fyrr ekki. Fram að því er hægt að kalla þetta smá fjúk! :)
Án gríns, ég er voða feginn að vera laus við snjó, miðað við hvernig veðráttan hefur verið sl. vikur. Janúar hlýr en seinni hluti febrúar kaldari. Eitthvað á að kólna hjá okkur næstu daga.
Þetta eru fínar myndir af prinsessunni og greinilegt að hún er mikil sundkona.
Héðan er annars allt gott að frétta, allir heilir heilsu og án vandræða.
Það er von á okkur til Köben í byrjun júní, konan er að fara með skólanum og ég fæ að fljóta með. Verðum við þarna 5.-9. júní og helgin fer væntanlega að djamma, en mán. og þri. í skólaheimsóknir. Við erum að spökulera aðeins, ekkert víst að það gangi, en það er í myndinni að við Gunna renndum okkur með lest til ykkar, ef þið viljið taka á móti okkur og við fáum að gista kannski 2 daga eða svo, þá 9. júní. En þetta fera allt eftir flugi og svoleiðis. Verðum í símasambandi þegar nær dregur.
Kveðja úr Kjóalandi.
Bragi Einarsson, 21.2.2010 kl. 19:38
Flott hvað þetta er allt að smella saman hjá ykkur.
En varðandi Ikea vil ég benda ykkur á að nýja Ikea í Odense er það stærsta í Danmörku.![](/js/tiny_mce/plugins/emotions/images/Wink.png)
Kveðja Sólrún
¨Sólrún (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.