28.2.2010 | 12:23
Hláka
Kæru bloggvinir
hér hefur verið hláka mest alla síðustu viku og snjórinn hefur minnkað mikið. Það er voða munur að geta verið lopapeysulaus og ullarsokkalaus innandyra. Þeir eru nú eitthvað að tala um að það kólni aftur í vikunni og snjói meira. En við sjáum hvað setur. Við höfum nú heyrt að það hafi snjóað á Íslandi, og erum ekkert öfundsjúk. Erum alveg búin að fá nóg af snjó og kulda. Eini kosturinn við snjóinn er að það er ekki eins dimmt og garðurinn lítur mun betur út þakinn snjó. Við höfum verið að gefa fuglunum hér í garðinum. Það er mjög gaman að fylgjast með þegar þeir eru að borða. Sem betur fer er kötturinn svo vitlaus að hún getur með engu móti veitt fugla.
Auður Elín hefur tekið miklum framförum í að skríða. Hún er farin að nota fæturna meira til að ýta sér áfram, svo þetta gengur nú hraðar. Sérstaklega þegar hún er að reyna að ná í köttinn. Kötturinn er svo vitlaus að hún sest beint fyrir framan Auði, sem þýðir að Auður rífur hressilega í hana. En köttuinn bara stendur og bíður eftir að við björgum henni. Auður Elín er líka alveg brjáluð í rafmagnssnúrur og tölvuna. Það fer gríðarlega í taugarnar á henni að hún getur ekki reist sig upp eða staðið upp. En hún verður nú bara að vera þolinmóð. Móðirin er nú eiginlega bara fegin að hún kemst ekki meira um ennþá. Hún hefur nóg að gera að hlaupa á eftir henni. Hún er aðeins að byrja að opna skúffur, og þykir það gríðarlega spennandi. Hún hefur verið eitthvað erfið að drekka pela í vikunni. En við erum að reyna að auka við hana matinn, og minnka pelann. Hún er ennþá voða léleg að borða rúgbrauð, en smakkar allt annað sem er stungið upp í hana. Svo við vonum að hún verði ekki mjög matvönd! :) Við fórum með hana til læknis í vikunni og hún er með helling af eyrnamerg innst í eyranu og með sýkingu í augunum. Hún fékk því bæði nefdropa og augndropa með heim. Hún hefur lagast í augunum en ekki af kvefinu, svo það verður að tala aftur við lækninn. Hún hefur verið voða dugleg að taka lyfin. Nýjasta sportið er annars að skríða upp á hilluna undir sófaborðinu og vesenast eitthvað þar.
Annars hefur vikan nú verið heldur viðburðalítil. Frúin er ekki ennþá búin að kaupa gardínuefni og bóndinn ekki búinn að hengja upp stangirnar, svo það eru ekki komnar neinar gardínur upp ennþá. Dagurinn í dag hefur verið notaður til að baka bæði rúgbrauð og pylsuhorn. Við erum orðin svo miklar húsmæður. Við gæddum okkur líka á heimasöltuðu lambakjöti og baunasúpu í vikunni og það var ekkert smá gott. Það er orðið ansi langt síðan við höfum saltað kjöt.
Jæja látum þetta gott heita í bili
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.