Snjór, meiri snjór

Kæru bloggvinir

þá er aftur kominn snjór. Það snjóaði á föstudaginn, ekkert mikið en samt 15-20 cm. Það hefur annars verið mjög fallegt veður undanfarið og við hjónaleysin höfum verið nokkuð dugleg að fara út að labba. Það eru nú ekki margar gönguleiðir í bænum, svo þetta er nú frekar tilbreytingarlaust. En gott að komast út og fá ferskt loft. Í einum af þessum túrum í vikunni gengum við framhjá húsi sálfræðingsins. Hann kom út og bauð okkur innfyrir að skoða sálfræðistofuna sína. Hann var ægilega stoltur af þessu og talaði um þetta eins og þetta væri eitthvað ægilega mikið notað. En við getum nú ekki ímyndað okkur að hann hafi marga viðskiptavini. Þeir sem hafa komið einu sinni koma allavega örugglega ekki aftur. Nema þeir séu alveg kexruglaðir. En maðurinn er alltaf mjög almennilegur, svo það er ekkert upp á hann að klaga. Í sömu gönguferð fórum við og keyptum egg hérna mitt í Tiset. Við höfum ekki prófað það áður, en þetta voru bara fínustu egg. Það er mjög algengt að fólk sé að selja egg, en meira samt á sveitabæjum. Konan sem seldi okkur þessi egg var svo gömul og rýr að hún var alveg að falla saman.

Annars hefur nú ekki gerst margt spennandi hér í Tiset síðustu vikuna. Fastir liðir eins og venjulega. Ungfrúin á bænum heldur áfram uppteknum hætti og ferðast um allt hús og rífur og tætir. Hún er búin að klemma sig nokkrum sinni á skúffum og hurðum. Já og skoða kattamatinn og kattaklósettið. En það er nú víst eitthvað sem erfitt er að koma í veg fyrir. Hún hefur verið voða dugleg að borða graut. En þessa vikuna hefur hún harðneitað að borða slíkt, nema kannski smá hafragraut á morgnana. Hún bítur vörunum saman og þykist ekkert vilja. En hún hefur drukkið vel af pelanum, svo þetta er nú sennilega bara einhver sjálfstæðisbarátta. Henni finnst rosalega spennandi að smakka allt sem við erum að borða. Hún er aðeins byrjuð að borða brauð. Því miður ekki rúgbrauð. Hún ælir bara ef hún fær það. En við vonum bara að þetta komi allt með kalda vatninu. Við foreldrarnir þurfum sennilega bara að vera pínu þolinmóð. Það er nú einmitt okkar sterkasta hlið. :)

Frúin fór í mæðrahóp í vikunni. Það var mjög fínt. Annar strákurinn í hópnum er byrjaður hjá dagmömmu. Hann er um 7 mánaða. Það gengur víst voða vel. Það er algengt viðhorf hér í sveitinni að það sé mikið auðveldara að venja börnin á dagmömmu þegar þau eru svona lítil, og þess vegna sé þetta mjög hollt fyrir þau. Frúnni er nú farið að kvíða fyrir að þurfa að skilja prinsessuna eftir á hverjum degi hjá einhverri ókunnugri kerlingu og hefði alls ekki getað hugsað sér að gera það fyrr en núna. Finnst það meira segja of snemmt. En það er ekki svo mikið um að velja ef maður vill fá einhverja vinnu. Störfin vaxa ekki á trjánum eins og er. Auður Elín byrjar sennilega hjá dagmömmunni fljótlega eftir páska. En við förum að heimsækja hana núna á þriðjudaginn, og þá kemur þetta allt í ljós. Ef við þekkjum ungfrúnna rétt þá tekur hún þessu nú sennilega með stóískri ró. Það verður sennilega frekar mamman sem æsir sig eitthvað yfir þessu.

Jæja þá eru fréttabrunnarnir víst alveg orðnir uppþornaðir

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er líka snjór, finnst nú að það mætti bara fara að koma vor, en þetta fylgir víst þegar maður býr á Íslandi (og Danmörku ;)). Já það er sko erfitt að fara með greyin til dagmömmu,það er nú samt pottþétt rétt hjá þér að það er mikið erfiðara fyrir mömmuna en barnið.

Kveðja

Hildur

Hildur (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband