Vorið farið að nálgast

Kæru bloggvinir

þá höldum við jafnvel að vorið sé á leiðinni. Það hefur nú verið frekar leiðilegt veður siðustu viku, en allavega ekki snjór. Og ekki brunagaddur á nóttinni. Það eru farnar að kíkja upp páskaliljur í garðinum. Svo þetta hlýtur allt að vera að koma. Nágrannarnir eru líka farnir að rótast í garðinum, svo þetta hlýtur allt að benda til þess að við fáum vor fljótlega.

Við fórum að heimsækja væntanlega dagmömmu í vikunni. Okkur leist nú bara ágætlega á þetta. Hún er búin að vera dagmamma í tæp 25 ár, svo eitthvað hlýtur hún að vita um starfið. Það er stelpa hjá henni sem er mánuði eldri en Auður. Hún var nú frekar afbrýðisöm þegar Auður mætti á svæðið. En þær hljóta nú að finna út úr þessu. Gott að það er einhver á svipuðum aldri, svo hún sé ekki ein með mikið stærri börnum. Dóttirin hefur annars verið frekar slöpp undanfarna daga. Maginn eitthvað að stríða henni. Hún hefur því verið frekar óhress. En þetta er nú eitthvað að lagast. Hún fékk rosalegan bleiubruna. Aldrei fengið svoleiðis. En bóndinn dró gamalt húsráð fram úr erminni og setti kartöflumjöl á bossann og það gerir kraftaverk. Engin ástæða að vera að kaupa rándýr krem þegar maður hefur kartöflumjöl. Hún hefur líka verið voða þurr í kinnunum í kuldanum og hvað virkar best? Auðvitað bara gamla góða júgursmyrslið. Einhverjum þykir við eflaust hallærisleg, en við höldum nú að dóttirin taki ekki skaða af þessu.

Hún er annars farin að vinka í tíma og ótíma. Veit örugglega ekkert hvað það þýðir en finnst það mjög sniðugt. Sérstaklega að gera það fyrir framan spegilinn. Hún er greinilega eitthvað að uppgötva stelpuna í speglinum og finnst það mjög skemmtilegt. Hún æfir sig líka grimmt þessa dagana að skríða á fjórum fótum. En eitthvað vefst þetta nú fyrir henni ennþá. En æfingin skapar meistarann.

Í gær fengum við svo heimsókn af góðum vinum okkar. Þau komu færandi hendi með nánast nýja hrærivél og stól til að hafa á hjóli. Svo nú þarf bara að skaffa hjólahjálm fyrir bóndann og ungfrúnna og vonast eftir að það fari að hlýna meira. Þá getum við farið að hjóla. Vinir okkar þekkja mann sem hefur mikla söfnunaráráttu. En sem betur fer vill hann gjarnan losna við eitthvað af því. Svo þegar okkur vantar einhverja hluti, þá er bara að tala við vinina og sjá hvort þau geta skaffað þetta. Ekki dónaleg þjónusta. Hrærivélin var vígð í dag og það er komið rúgbrauð í ofninn. Það var ólíkt auðveldara að hræra deigið í vél en í höndunum. Svo fylgir henni líka hakkavél, svo næsta sláturgerð ætti að vera auðveldari. Við höfum notast við handsnúna hakkavél til að hakka innmatinn, og það reynir töluvert á hendurnar.

Eftir að snjórinn fór er allt hryllilega blautt og garðurinn frekar óárennilegur. Hann leit mun betur út þegar það var snjór yfir. En það er samt betra að vera laus við snjóinn. Maður reynir bara að loka augunum þegar maður lítur út um eldhúsgluggann.

Bóndinn er að æfa sig að ganga með gleraugu. Hann er fjarsýnn á öðru auganu og nærsýnn á hinu. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem kemur með aldrinum. Honum fannst þetta nú frekar pínlegt að þurfa að fara að ganga með gleraugu. En hann hlýtur nú að venjast þessu.

Annars eru allar framkvæmdir í húsinu á pásu. Karlinn er alltaf að farast í bakinu. Það versnaði svo mikið þegar hann keyrði út af í vetur að hann rétt hefur það af að mæta í vinnuna, en ekkert meira. Hann er að fara til hnykkjara á morgun og við vonum að það hjálpi nú eitthvað. Hann sefur ekki orðið á nóttinni út af þessu.

Jæja látum þetta duga í bili 

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kíki alltaf á bloggið en held ég hafi gleymt að kvitta undanfarið :/

Bestu kveðjur til ykkar allra duglega fólk :D

Kata (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband