21.3.2010 | 16:02
Flatskjár
Kæru bloggvinir
Okkur þykja nú heldur slæmar fréttirnar af gosinu á Fimmvörðuhálsi. En vonum að það verði ekki meira úr þessu svo ekki hljótist mikill skaði af. Þetta er búið að vera hérna í dönsku fréttunum. En þykir nú örugglega ekki fréttnæmt nema af því það hefur þurft að rýma hús. Það eru nú mjög sjaldan fréttir hér frá Íslandi. Það þarf að vera ansi merkilegt til að þeir segi frá því hér. Annars hefur nú verið heldur rólegra hérna hjá okkur. Vorið lætur eitthvað standa á sér. Það er ekki orðið almennilega hlýtt ennþá, en þetta hlýtur nú að koma.
Bóndinn fór til hnykkjara á mánudaginn og henni leist ekkert á hann, svo hún ætlar að senda hann í röntgenmyndatöku aftur og svo fer hann aftur til hnykkjara eftir páska. Við vonum að það komi til með að hjálpa eitthvað. Ekkert vit í að hafa karlinn svona. Hann fékk margra ára draum uppfylltan í gær. Við keyptum nefnilega flatskjá. Þetta er nú búið að vera á óskalistanum í minnst 5 ár. En aldrei verið látið verða af því að kaupa slíkan grip. Við ákváðum svo bara að safna fyrir þessu og láta þetta eftir okkur. Það væri eflaust hægt að nota peningana í margt annað. En okkur fannst við alveg eiga þetta skilið. Gæðin í nýja tækinu eru voða góð og bóndinn auðvitað alveg í skýjunum. Þetta var svo sem ekki í frásögur færandi, nema við fórum niður á landamæri til að kaupa tækið. En svo þegar átti að koma því í bílinn og halda heim, þá komst tækið ekki í bílinn. Allavega ekki ef við Auður áttum að fara með líka. Við dóum nú ekki ráðalaus og hringdum í Steina vin okkar sem býr rétt hjá. Hann ætlaði svo að koma og lána okkur sinn bíl. En þegar til kom, fór bíllinn ekki gang og hann gat því lítið hjálpað. Það varð því að bruna heim, ca. 70 km, henda okkur stelpunum úr bílnum og bruna aftur til baka og ná í tækið. En bóndanum fannst þetta alveg þess virði af því tækið var svo mikið ódýrara í þessari búð en á öðrum stöðum. Svo nú er hann bara alsæll.
Ungfrúin hefur verið frekar óhress þessa vikuna. Eitthvað að angra hana. Við höllumst helst að því að það séu að koma fleiri tennur. En það er nú erfitt að spá um það. Hún er alveg orðin óð í að standa upp. Notar hvert tækifæri til að komast á lappir. Fann það út í vikunni að dótakassinn er alveg fyrirtaks stuðningur fyrir þessa iðju. Hún átti 9 mánaða afmæli á fimmtudaginn. Við höfum verið á svo miklu flakki undanfarið að við höfum ekki haft tíma til að taka myndir. En það verður bætt úr þessu mjög fljótlega. Hún er orðin voðalega dugleg að skríða og er alltaf að reyna að komast áfram á fjórum fótum. En það vantar nú eitthvað upp á tæknina ennþá.
Í dag var okkur svo boðið í hádegismat hjá fyrrverandi vinnufélaga Röggu. Það var voða notalegt.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Í miðri frásögn var ég farin að halda að þið mæðgur hefðuð verið sendar heim með rútu eða taxa, eða a.m.k. þið látnar bíða en ekki flatskjárinn!!!!!! hahhhhhhahahh
Vonandi koma svo góðar fréttir úr röntgenmyndatökunni eftir páska - ekki nokkur leið að hafar karlgarminn svona. Batakveðjur :D
Kata (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 02:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.