28.3.2010 | 11:26
Sófaævintýrið
Kæru bloggvinir
Hér er eitthvað aðeins farið að vora. Það er allavega farið að sjást fólk útivið og er það venjulega til marks um að vorið sé að koma. Það er eins og fólk leggist í dvala hér á veturna.
Við höfum staðið í heilmiklu ævintýri þessa vikuna. Þannig var að við eigum tvo risavaxna sófa. Og þeir eru eiginlega allt of stórir inn í þetta hús. Þar fyrir utan þá stóð minni sófinn fyrir framan ofninn í stofunni og teppaði allan hitann. Við vorum því búin að vera að leita okkur að hægindastólum í staðinn. Þeir fundust loks í vikunni. Einhver frúin var að skipta um húsgögn og vildi losna við hægindastólana fyrir lítinn pening. Karlinn hennar var nú ekki hrifinn, en við vorum voða feginn. Þeir eru meira segja næstum í sama lit og sófarnir okkar. Þetta var nú allt saman mjög fínt. En þegar átti að fara að koma sófanum upp á loft, vandaðist málið. Hann komst alls ekki þangað með góðu móti. Við urðum því annaðhvort að skrúfa hann í sundur eða finna geymslu fyrir hann. Það var svo farið í að leita að geymslu og með hjálp formannsins í íþróttafélaginu fannst hún í gær. Hann kom meira að segja og hjálpaði bóndanum að koma sófanum þangað. Ekki dónaleg þjónusta. Hann ætlar líka að hjálpa bóndanum að skipta um púströr á bílnum. Það kom gat á það síðasta vor, og hefur svo verið að smá versna. Við tímum ekkert að nota mikinn pening í þennan bíl, því honum verður örugglega hent fyrir næstu skoðun. Það er allt of dýrt að gera hann kláran fyrir skoðun. Formaðurinn í íþróttafélaginu, sem heitir Lars, er voða nákvæmur maður og finnst við ábyggilega óttalegir slóðar. Hann benti bóndanum á það í gær að maður gæti fengið sekt fyrir að keyra með ónýtt púströr. Við höfðum nú ekki látið okkur detta það í hug. Svo það er eins gott að þekkja fólk sem þekkir reglurnar hér í Danaveldi.
Bóndinn er svo að fara á sinn fyrsta alvöru fótboltaleik á eftir. Hann er að fara með einhverjum körlum úr vinnunni. Hann er auðvitað voða spenntur fyrir því. Hann er að vinna núna næstu 3 daga. En keyrir eitthvað minna af því margir krakkar eru farnir í páskafrí. Ef heilsan leyfir verður sennilega reynt að vinna í barnaherberginu í páskafríinu. Frúin er orðin verulega þreytt á að geta ekki notað það. En það verður víst bara að anda rólega og slaka á!
Auður Elín er alveg á útopnu þessa dagana. Hún vill helst bara standa upprétt, en getur ekki fært sig úr stað. Það pirrar hana ógurlega, hún hefur heldur ekki fattað hvernig hún sest niður, svo þegar hún er þreytt á að standa, þá vælir hún bara. Hún verður örugglega efnileg í byggingarvinnu þegar hún verður eldri. Hún er allavega farin að rífa dyrakarma úr veggjunum og rífa niður veggfóður.
Við ákváðum að ráðast í að framkalla eitthvað að digital myndunum okkar. Það hefur aldrei orðið úr því, okkur hefur fundist það svo dýrt og svo hefur þetta bara gleymst. Við erum svo loksins búin að finna stað sem framkallar ódýrt, og erum núna að fara í gegnum allar myndirnar. Það þarf að velja minnst 1000 myndir, og við erum langt komin. Hér eftir verður þetta svo gert jafnóðum. Allavega ef frúin fær einhverju ráðið. Það er búið að taka myndir af ungfrúnni, þarf bara að henda þeim hér inn á síðuna.
Jæja látum þetta gott heita í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.