Gleðilega páska

Kæru bloggvinir

Gleðilega páska. Við vonum að þið hafið átt góða páska og borðað mikið af góðum mat og ekki má gleyma páskaeggjum. Hér hefur verið skítaveður síðustu daga. Rok og rigning og skítakuldi. Við vorum búin að plana að fara út að hjóla, búið að kaupa hjólahjálma á alla fjölskylduna. En það hefur bara ekki verið spennandi útiveður. Það gæti verið að við komumst út á morgun. Við verðum nú að viðra hjálmana og hjólin. Ef þau virka ennþá eftir að hafa staðið úti í bílskýli í vetur. Við keyptum barnastól sem Auður Elín getur setið í, aftan á öðruhvoru hjólinu. Það verður gaman að sjá hvernig henni finnst það.

Annars hefur vikan farið í að kaupa ýmsar nauðsynjavörur fyrir ungfrúnna, áður en hún fer til dagmömmunnar. Hún fékk nýja útiskó. Fyrstu svona alvöru skóna. Henni finnst nú voða skrýtið að vera í þeim. Þeir eru miklu þyngri og stífari en inniskórnir hennar. Hún lyftir löppunum voða hátt þegar hún er í þeim. Hún er eiginlega eins og hestur með hófhlífar. Það var svo líka keyptur regngalli, ekki veitir af. Það er ekki víst að það verði bara sól í sumar. Okkur finnst við nú samt alveg eiga skilið að fá gott sumar eftir þennan óvenju harða vetur.

Ungfrúin er annars dugleg þessa dagana að æfa sig að labba meðfram borðum og stólum. Þetta er nú eitthvað að vefjast fyrir henni ennþá, en hún tekur miklum framförum. Hún er ótrúlega sterk í höndunum og hífir sig upp við sófaborðið. Hún er orðin duglegri við að borða, en vill ennþá ekki sjá að borða brauð. Við verðum bara að vona að hún læri það hjá dagmömmunni. En ef henni er boðinn kjúklingur, þá er hún alveg í skýjunum. Þá veinar hún bara ef þetta gengur ekki nógu hratt. Eins gott að kjúllinn er svona ódýr hér í Danmörku að við borðum hann minnst einu sinni í viku.

Bóndinn fór til hnykkjarans á mánudaginn. Hann hafði nú ekki neitt sérstaklega spennandi fréttir. Hann tók nýjar röntgenmyndir og það kom í ljós að hryggjaliðirnir og brjóskið, frá miðju baki og upp í hnakka, eru alveg slitin upp. Hann hélt að hann væri kannski fæddur með einhvern veikleika í hryggnum sem svo hefði smá versnað, og kannski hefur útafaksturinn í vetur gert útslagið. En það er allavega mjög lítið hægt að gera. Hann ætlar eitthvað að reyna að nudda hann og hnykkja en þetta snýst mest um að hlífa bakinu og styrkja aðra vöðva. Þetta þýðir auðvitað að restin af húsinu verður ekki löguð í bráð. Bóndinn ákvað nú samt að láta ekki deigann síga og er búinn að klára barnaherbergið. Steypti gólfið einn daginn og lagði svo parketið í dag. Frúin er alveg í skýjunum. Alveg æðislegt að klára þetta. Nú er bara eitthvað smotterí eftir og svo að flytja inn.  Við reynum að gera það á morgun. Meiningin er að ungfrúin fari að sofa þarna inni. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer.

Bóndinn fékk svo hjálp frá formanninum í íþróttafélaginu til að skipta um púströrið undir bílnum. Það er ekkert smá fyndið að keyra bílinn núna. Hann er búinn að vera púströrslaus í tæpt ár. Það verður munur fyrir frúnna að keyra í vinnuna án þess að vera með heyrnaskjól. Það er ótrúlegt að maður sé búinn að vera heimavinnandi í næstum heilt ár. Tíminn bara flýgur áfram. Það verður spennandi að byrja að vinna aftur en líka erfitt. Alltaf erfitt að byrja á nýjum stað. Nú hefur maður heldur ekki bara sjálfan sig að hugsa um. Nú þarf maður líka að hafa áhyggjur af því hvernig Auði Elínu gangi að aðlagast dagmömmunni. En við vonum bara það besta. Frúin byrjar að vinna á fimmtudaginn og Auður Elín byrjar í aðlögun á mánudaginn. Dagmamman er í fríi næstu vikuna.

Eins og sjá má er búið að vera nóg að gera. Við ætlum því bara að taka því rólega og njóta síðustu daganna í páskafríinu. Karlinum veitir allavega ekki af að hvíla sig eftir þessi átök.

Páskakveðja

Tisetfjölskyldan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilega páska.

Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar þó maður kvitti ekki alltaf. Reyndar leiðinlegt að heyra af þessum bakmeiðslum. Hér er bara legið í páskaeggjum og góðgæti. Eigum við að koma með páskaegg í sumar(haha) sá einhvers staðar að þið myndu ekki fá nein egg þessa páska. Veðrið bara orðið þokkalegt hérna eftir leiðinda kulda undanfarið og vonandi fer nú að vora á báðum stöðum.

Páskakveðja úr Kjóalandinu !!

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 13:27

2 identicon

Gleðilega páska!! Spennandi tímar framundan hjá ykkur, þetta á örugglega eftir að ganga vel hjá dagmömmunni. Hlakka til að heyra fréttir af aðlögun og nýrri vinnu :) Leiðinlegt að heyra með bakmeiðslin, vonandi fer þér að líða betur Gummi.

Hér er allt við það sama, liggjum í leti og étum páskaegg.Annars er komin smá vorhugur í okkur, búið að klippa aðeins af trjám og hreinsa pallinn. Fórum í pottinn í gær og krakkarnir alveg óðir á trampólíni.

Hafið það gott, Hildur og co.

Hildur (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband