Nýjir tímar

Kæru bloggvinir

Þá er enn einu sinni runninn upp sunnudagur. Hér í Danaveldi er vorið eitthvað að rembast við að koma. Það var rosalega fínt veður í gær og líka í dag. Bara skýjað í dag. Við drifum okkur í að grilla í gær. Við höfum ekkert grillað síðan síðasta haust. Dönunum finnst við örugglega biluð, því þeir grilla bara á sumrin. En þeir vita bara ekkert af hverju þeir eru að missa.

Hér hefur nú ýmislegt nýtt gerst í vikunni. Ungfrúin flutti í herbergið sitt á mánudaginn. Það vantar bara smá myndir á veggina og aðrar gardínur, og þá er þetta orðið fínt. Hún hefur í langan tíma alltaf vaknað minnst einu sinni á nóttinni og verið ægilegt brölt á henni. Hún hefur ekkert verið að væla, bara týnt snuddunni en hefur sofnað um leið og hún hefur fengið snuðið aftur. En síðan hún flutti í nýja herbergið sefur hún alla nóttina og sefur meira að segja lengi á morgnana. Áður vaknaði hún oft kl. 5 nú sefur hún til 6 eða 7. Hún hefur sennilega bara verið orðin þreytt á að hlusta á hrotunar í foreldrum sínum. Enda hefðum við nú verið búin að flytja hana út úr svefnherberginu ef það hefði verið tilbúið. Hún er rosa dugleg að æfa sig að labba og labbar nú meðfram stofuborðinu án vandræða. Við verðum að fara að taka video af þessu. Bóndinn er búinn að koma stóru tölvunni í gang og búinn að setja fullt af nýjum videomyndum inn á youtube.com. Bara slá inn gje1965 í leitargluggann og þá ætti þetta að koma. Það er rosalega fyndið að sjá hvað hún breytist hratt núna. Það verður rosa gaman að eiga þetta þegur hún verður eldri. Við skelltum okkur í smá hjólatúr á mánudaginn. Það var nú ansi kalt, og hjólin þurfa víst að fara í smá aðhlynningu. En við verðum að reyna að vera dugleg að hjóla þegar það fer að hlýna meira. Ungfrúin var svo heima með pabba sínum á fimmtudag og föstudag. Þegar móðirin kom heim á fimmtudaginn þá vildi sú stutta alls ekki sleppa henni. Fannst þetta náttúrlega ekki ná nokkurri átt að kellan léti sig bara hverfa í marga klukkutíma. En þau feðginin höfðu það nú mjög fínt. Bara viðbrigði ekki að sjá mömmu sína svona lengi.

Það gekk bara vel í vinnunni. Það er auðvitað alltaf erfitt að byrja á nýjum stað og oftast hefur enginn tíma til að setja mann inn í hlutina, svo maður finnur bara út úr þessu sjálfur. Þetta verður nú sem betur fer frekar rólegt til að byrja með, enda tekur tíma að koma heilanum í form eftir svona langan tíma heima. Frúin er farin að hafa verulegt samviskubit yfir að senda barnið til dagmömmu. Finnst hún alls ekki standa sig. Það væri náttúrlega frábært að geta unnið eitthvað minna en 37 tíma á viku. En það er ekki í boði. Svo hún verður að læra þetta eins og svo mörg önnur börn. Hún hefur auðvitað líka mjög gott af því að vera með öðrum börnum. Frúnni finnst verst að hugsa til þess að skila henni af sér á morgnana ef hún verður eitthvað ósátt við það. En við vonum bara það besta.

Karlinn er orðin alveg fótboltaóður og er farinn á fótboltaleik. Það eru margir leikir núna af því leiktímabilið er að klárast og þeir halda svo frí á sumrin.

Við erum búin að panta mann til að koma og laga blettinn hérna fyrir framan hús. Þetta lítur svo hræðilega út og ekkert hægt að nota blettinn. Og við eigum engin tæki til að vinna þetta. Við ætlum bara að láta hann sá grasfræi og vona að vorið verði ekki mjög þurrt. Þá ætti að vera hægt að sitja hérna úti í sólinni. Ef við fáum eitthvað svoleiðis í sumar. Okkur finnst við nú alveg eiga það skilið eftir veturinn.

Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband