18.4.2010 | 12:27
Auður Elín 10 mánaða
Kæru bloggvinir
Héðan er allt fínt að frétta. Við fylgjumst með fréttum af eldgosinu á netinu og líst nú ekkert á þetta. Það er voða lítið fjallað um þetta í dönskum fjölmiðlum. Bara talað við fólk sem getur ekki flogið. Auðvitað er það voða leiðilegt. En sumir hérna láta nú eins og þetta sé okkur Íslendingum að kenna. Það er nú hægt að kenna okkur um margt, en ekki þetta. Það virðist lítið vera spáð í hvað þetta hefur mikil áhrif á gróður og skepnur. En við vonum nú að þetta fari eitthvað að réna. Áður en meiri skaði hlýst af.
Ungfrúin byrjaði hjá dagmömmunni á mánudaginn, var bara stutt fyrst og hefur svo verið allan daginn. Hún er nú ekkert mjög upprifin yfir þessu, en dagmamman segir hún sé voða góð. Neitar hins vegar að borða hjá henni. En það hlýtur nú að koma. Það er stelpa hjá dagmömmunni sem er mánuði eldri en Auður og hefur ekki verið þarna svo lengi. Hún er voða afbrýðisöm og þær hanga á sitt hvorri buxnaskálminni. En á föstudaginn var þessi stelpa ekki og þá virtist Auður sætta sig betur við þetta. En dagmamman er nú sannfærð um að þetta komi allt, svo við vonum það besta. Mömmunni finnst þetta nú alls ekkert skemmtilegt en við því er víst lítið að gera. Við föttuðum í morgun að ungfrúin er 10 mánaða í dag. Vorum eitthvað sein að fatta hvaða mánaðardagur er. Hún fór allt í einu að skríða á fjórum fótum í vikunni. Hefur annars bara dregið sig áfram á maganum. Henni finnst líka voða fyndið að horfa á allt á hvolfi.
Það er nú eitthvað að lifna yfir hlutunum í vinnunni hjá frúnni. Hún er ráðin inn í svona verkefni, þar voru tveir sálfræðingar fyrir. Annar þeirra hættir núna á morgun og hinn hættir 1. maí. Sú verður reyndar áfram í húsinu. En svolítið fyndið samt. Það þarf því að ráða tvo nýja sálfræðinga fljótlega. Það er nú ágætt að annar sálfræðingurinn verður áfram í húsinu, svo hægt sé að spyrja hana ráða. Forstöðumaðurinn er nefnilega líka að hætta, svo það væri nú ekki mjög gott ef allir væru farnir og frúin stæði ein með þetta allt saman.
Í gær fékk bóndinn einn vinnufélaga sinn til að hjálpa til við að fella trén hér bak við hús. Hann sagaði líka helling af trjám nágrannans sem héngu yfir í okkar garð. Nágranninn var búinn að gefa leyfi. Vonandi að hún sé ekki búin að gleyma því og fái alveg áfall þegar hún sér hvað þeir hafa gert. Nú er bara eftir að fá lánaðan vagn og traktor til að keyra þetta í burtu. Félagi bóndans ætlar svo að hjálpa okkur í haust að jafna lóðina og við ætlum svo bara að sá grasfræi. Það er nú líka á áætlun að reyna að gera smá kartöflugarð. Þeir eyðilögðu snúrurnar fyrir frúnni. Henni fannst það nú heldur súrt. Það er rosa munur að geta hent þvottinum út. En staurarnir voru orðnir alveg morknir svo þetta var nú víst bara spurning um tíma hvenær þeir gæfust upp.
Við fórum í ungbarnasund í morgun. Það er venjulega á laugardögum, en í dag voru nýjir stjórnendur. Þetta voru konur sem eru að læra að kenna ungbarnasund, svo það var mjög fínt. Við lærðum fullt af nýjum æfingum og þetta var voða gaman.
Bóndinn er svo að fara aftur á fótbolta á efitir. Þetta er að verða voða spennandi. Veðrið er líka rosa gott svo það ætti ekki að væsa um hann.
Það verða sennilega teknar myndir af ungfrúnni í vikunni. Það hefur bara alveg gleymst.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl og blessuð
Já það er nóg um að vera á Íslandi. Öskufall hefur orðið á fleiri stöðum en samt ekki vestan megin við gosið allt farið suður og austur. Veit ekki hvernig vindaspáin er framundan. Eldgosið hefur líka áhrif á flug víða um Evrópu. Tveir kennarar og tíu nemendur frá okkur hafa verið tepptir í Skjern síðan á föstudag og komast ekki lönd né strönd. Einn af þeim átti að fermast í dag en ekkert verður nú af því. Vonandi verður þetta nú allt afstaðið í júní þegar við kíkjum til ykkur. Var að skoða húsið ykkar og umhverfið á GoogleMap. Þar er storkurinn ennþá fyrir utan húsið ykkar. Gaman verður að sjá allar breytingar hjá ykkur bæði að utan og innan.
Kærar keðjur úr Kjóalandinu.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.