Hósti og hor

Kæru bloggvinir

hér eru allir með hor og hósta. Ekki beint skemmtilegt. En sennilega hefur Auður Elín smitað okkur með einhverjum bakteríum frá dagmömmunni. Hún varð allavega kvefuð fyrst. Við verðum annars mjög sjaldan kvefuð, því við tökum alltaf lýsi. En kvenfólkið er nú eitthvað að skríða saman meðan húsbóndinn er eitthvað slappari.  Hér var rosa gott veður í gær, sól og hiti. Í dag er líka mjög hlýtt, en eitthvað mistur, kannski öskuryk frá Íslandi. Það er nú gott að heyra að þetta sé eitthvað orðið minna. Hér er ekkert talað um þetta lengur, enda eru þeir farnir að fljúga aftur, svo þá eru þeir nú bara sáttir.

Við tókum helling af greinum úr bakgarðinum í gær og keyrðum á haugana. Það er nú samt hellingur eftir. Það þarf að saga þetta allt í sundur til að koma þessu á kerruna. Greinarnar eru svo kræklóttar að þær taka alveg ótrúlega mikið pláss. En þetta verður allavega mjög fínt þegar við erum búin að koma þessu í burtu. Ekki verður þetta verra þegar við verðum búin að slétta garðinn og losna við allar þessar rætur. Það væri nú gaman að geta hent niður kartöflum í vor. En við sjáum til hvað verður. Fyrst er að klára þetta verkefni. Karlinn djöflast í þessu þótt hann ætti náttúrlega alls ekki að gera það. En það er ekkert hægt að stjórna honum, svo hann verður að læra að finna út hvað hann getur mikið. Garðafyrirtækið sem er að laga garðinn hérna fyrir framan er búið að fræsa þetta allt upp og jafna til. Þetta lítur strax betur út, þó það eigi eftir að fínpússa þetta. Ætli þeir komi ekki á morgun. Það verður æðislegt að geta setið þarna úti í sumar. Við ætlum svo að fjárfesta í rólu og sandkassa, svo það sé eitthvað skemmtilegt að gera fyrir Auði. Hún var annars með okkur út í garði í gær. Bara að skríða í grasinu. Henni fannst þetta nú eitthvað skrýtið og erfitt að athafna sig í öllum þessum fötum. Hundurinn hérna á bak við okkur var skíthræddur.
Henni gengur nú eitthvað betur hjá dagmömmunni. Er farin að borða eitthvað og getur haft ofan af fyrir sér í smástund. En hún er voða lítil í sér og drífur sig á eftir dagmömmunni ef hún fer að skipta á hinum börnunum. En hún er allavega orðin rólegri hérna heima. Er orðin miklu betri að sitja og leika sér. Hún hefur ekki haft neina eirð í sér til þess hingað til. Það er náttúrlega bara gott. Hún er nú samt ennþá mjög spennt fyrir tröppunum upp á loft og er fljót að koma sér fram á gang ef hún sér sér færi á því. Hún er líka farin að blaðra mikið meira eftir hún kom til dagmömmunnar. Er sennilega að segja rosa miklar sögur, við skiljum bara ekkert hvað hún er að tala um. Við höfum alveg gleymt að taka myndir, en sjáum til hvort það verður úr því núna seinnipartinn.

Næsta föstudag er svo frídagur hér í Danaveldi. Svokallaður bænadagur. Ekki er nú líklegt að margir noti daginn til bæna, en við erum voða sátt við að fá extra frídag. Manni finnst hver mínúta sem maður hefur með fjölskyldunni vera orðin mjög dýrmæt, eftir maður fór að vinna aftur.

Jæja látum þetta nægja að sinni

Bestu kveðjur

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband