9.5.2010 | 15:55
Óskum eftir vorveðri
Kæru bloggvinir
eins og fyrirsögnin gefur til kynna erum við orðin ansi langeygð eftir að fá vor hér i Danaveldi. Það hefur verið frekar kalt hér undanfarið og frost á nóttinni. Maður hefur þurft að skafa bílrúður hér á morgnana. Það er nú ekki alveg eðlilegt á þessum árstíma. Kannski eldgosið á Íslandi sé eitthvað að rugla veðrið í ríminu.
Bóndinn er búinn að hreinsa upp öll trén sem hann felldi hér í bakgarðinum og það er þvílíkur munur að sjá blettinn. Sonur hjónanna sem bjuggu hérna kom við hér í gær og fékk næstum áfall. Enda enginn smá munur. Þetta hafa örugglega verið 30 tré sem við felldum og öll mjög stór og gömul. En það var engin prýði af þessu, svo þá er ekkert annað að gera en að fella þetta. Við erum mjög köld í því. Við myndum svo gjarnan vilja klippa niður hekkið á milli okkar og nágrannans, en hún vill ekki heyra á það minnst. Það er svo gisið að það þyrfti að klippa það vel niður til að fá það til að þétta sig. En við verðum að bíða þar til hún hrekkur upp af eða selur. Enda höfum við svo sem nóg að gera innandyra, það er ekki það. Við erum búin að plana að klára þetta smotterí sem hefur setið á hakanum lengi. Það verður að gera bara smá og smá í einu. Karlinn þolir engin stórverkefni. Hann er annars byrjaður í líkamsrækt og hefur allavega ekki versnað við það, svo það er vonandi að það hjálpi eitthvað. Það getur allavega ekki versnað mikið. Það er líka fínt fyrir hann að nota morgunpásurnar í eitthvað svona. Þá þarf hann ekki að hanga og bíða eftir að fara að keyra aftur.
Ungfrúin er eitthvað að sættast við dagmömmuna. Hún er allavega farin að háma í sig rúgbrauð hjá henni og það vill hún nú yfirleitt alls ekki borða hérna heima. Hún hefur nú eitthvað verið að mótmæla hérna heima í vikunni. Verður leið ef við erum ekki í kringum hana og hefur verið hálf mömmusjúk. En það er nú sennilega ekki við öðru að búast. Það sjást ennþá engar tennur, en hún slefar eins og brjálæðingur, svo þetta hlýtur nú að fara að koma. Hún hefur verið mjög erfið að sofna á kvöldin. Vaknar oft 3-4 sinnum fyrir miðnætti, en sefur nú yfirleitt eftir það. Svo er alveg týpískt að á virkum dögum er hún voða þreytt á morgnana en um helgar vaknar hún eldsnemma og er ekkert þreytt! Frúin er búin að setja plötu fyrir stigann svo hún komist ekki upp, en þá er mesta skemmtunin að gaufast í skónum. Hún finnur sér alltaf eitthvað að gera þessi elska.
Næsta vika er svo algjör lúksus. Það eru bara 3 vinnudagar. Uppstigningardagur er á fimmtudaginn og margir taka frí á föstudaginn. Dagmamman er með lokað svo frúin tók sér frí og svo kom í ljós að bóndinn var líka með frí, svo við fáum 4 daga helgi. Ekki amalegt það og svo er hvítasunnan helgina eftir. Hins vegar eru víst engir auka frídagar í júní. En þá er stutt í sumarfrí svo maður hlýtur nú að þola það.
Það eru komnar nýjar myndir, af ungfrúnni og svo smá af garðaframkvæmdum.
Bestu kveðjur
Ragga, Gummi og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl
Farin að hlakka til að hitta ykkur eftir tæpan mánuð og sjá allar breytingarnar "live" ekki bara á myndum. Það er að segja ef flugið verður á réttu róli. Bragi er að fara til Svíþjóðar, á norrænt vinabæjarmót, núna á fimmtudaginn, flýgur reyndar til Köben en fer svo með lest yfir til Nybro ef að flugið verður í lagi.
Kveðja úr Garðinum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.