16.5.2010 | 11:23
Pestarbæli
Kæru bloggvinir
það er ekkert sem bendir til þess að við fáum vor í bráð hér í Danaveldi. Það hefur verið þurrt ansi lengi, svo bóndinn byrjaði að vökva blettinn hér í gær. Þegar hann var að verða búinn byrjaði að rigna og það rigndi eldi og brennisteini í alla nótt og gerir enn. Þetta er sannkallað haustveður. Algjört skítaveður.
Annars gerðist sá merki atburður á þriðjudaginn að frúin lagðist með einhverja magakveisu. Það er ansi merkilegt þar sem hún hefur aðeins tvisvar á ævinni, síðan hún varð launþegi sem 16 ára, að hún hefur verið veik frá vinnu. En þegar maður kemst ekki frá náðhúsinu með góðu móti, er erfitt að komast í vinnuna, svo hún varð að láta sig hafa það að vera heima á miðvikudaginn. Ungfrúin smitaðist svo á föstudaginn og hefur verið með háan hita og niðurgang. Hún hefur nú borið sig vel greyið, en það er voða erfitt að horfa á hana svona lasna. Maður er allavega minntur á hversu ótrúlega heppinn maður er að eiga heilbrigt barn. Bóndinn hefur ekki enn smitast af ófögnuðinum, svo hann sleppur kannski. Við vonum það, hans vegna. Frídagarnir hafa því farið í að reyna að slappa af. Kannski var þetta planlagt svona, svo við tækjum því rólega. Það er bara ekki auðvelt þegar maður er svona hálf ofvirkur.
Garðurinn hér fyrir framan er aldeilis orðinn breyttur. Það er búið að sá grasfræi og jafna hann allan voða fínt. Þetta verður rosa flott. Það verður bara að passa að hann þorni ekki. Það er nefnilega sjaldan sáð grasfræi hér á vorin, út af hitanum. Við tókum okkur svo til einn daginn og hreinsuðum gangstéttina hér fyrir framan. Það var hrunin svo mikil mold úr beðinu, út á gangstéttina, ásamt ýmsu öðru. Þetta er allt annað líf núna. Við afrekuðum líka að fara í eina heimsókn.
Það verður nú eitthvað rólegra hér í gistiþjónustunni hjá okkur í sumar, en hefur verið. Við fáum góða gesti í byrjun júní, í nokkra daga. Bragi bró og Gunna ætla að kíkja við. Og svo kemur Helga Rut sennilega í sumarfríinu okkar í júlí og kannski kemur Unnar Ernir (stjúpbarnabarnið) með henni. Elli Jón er orðinn svo fullorðinn að hann má ekkert vera að því að kíkja á okkur gamla settið. Það verður skrýtið ekki að hafa allt fullt hérna allt sumarið eins og venjulega. Síðasta sumar var fólk hér stanslaust frá byrjun júní til lok ágúst. Þannig að þetta verður öðruvísi.
Þegar við fluttum hér til Tiset fórum við ófáar ferðir á ruslahaugana og hittum þar mann, sem var mjög áhugasamur hvað við værum að gera hér og vildi endilega hjálpa okkur að aðlagast. Hann keyrði alla múrsteinana úr klósettinu á haugana fyrir okkur. Hann er nefnilega bóndi og á fullt af stórtækum vinnuvélum. Hann er aðalmaðurinn í vatnsveitunni hér í Tiset og var á vappi hér á dögunum. Við buðum honum í kaffibolla svo hann gæti séð hvað við værum búin að gera. Hann er fyrrverandi pólitíkus og mjög áhugasamur um að öllum líði vel í Tiset og við vorum eitthvað að tala um að það væri nú pínu erfitt að kynnast fólki. Og að fólkinu hér fyndist við ábyggilega stórskrýtin að hafa flutt hingað. Hann sagði að fólk talaði mjög vel um okkur og fólki fyndist við mjög hugrökk að ráðast í að laga þetta hús sem við keyptum. Það er nú ágætt ef fólk getur séð eitthvað jákvætt við þetta bardús hjá okkur. Það eru mjög mörg illa farin hús í götunni sem við búum við. Hús sem eru á nauðungaruppboðum og rotna bara niður.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Hvað er að heyra, skítaveður og skítapest! Var að koma frá Svíþjóð í gær og það var líka kallt, svona miðað við það að maður hefur það alltaf í huganum að það sé alltaf sól og hiti í útlöndum. Vonandi verður komið sæmilegt vor þegar við gömlu kíkjum á ykkur. Það er líka gott að fólkið þarna í kringum ykkur er farið að taka ykkur í sátt, það er ekki hægt annað, aðrir eins dugnaðarforkar sem þið eruð. Verðum svo í sambandi þegar nær dregur.
Kveðja úr Garðinum.
Bragi Einarsson, 17.5.2010 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.