Sól og blíða

Kæru bloggvinir

þá er vorið loksins komið hérna hjá okkur. Það hefur verið steikjandi sól og hiti hér síðustu daga. Það var kærkomið. Það er farið að grænka pínulítið bletturinn hér fyrir framan. Það verður bara að vökva hann á hverjum degi, því það er svo heitt. Við vonum auðvitað að þetta haldist eitthvað.

Frúin lenti í heilmiklu bílaævintýri í vikunni. Hún var á leiðinni heim úr vinnunni þegar það fór að lykta af brenndu gúmmí eða einhverju slíku. Það var svo sem ekki til frásögu færandi, en svo fór að koma reykur upp á milli mælaborðsins og stýrisins. Hún brá á það ráð á keyra út í kant og kanna málið. Það var ekkert að sjá undir húddinu, allt í lagi með olíu og vatn, svo hún ákvað að keyra aðeins lengra, með opinn glugga vel að merkja. Það gekk nú ágætlega í fyrstu, en svo fór að rjúka aftur. Aftur stoppaði hún og lét þetta kólna og svona komst hún heim. Bóndinn var eitthvað að mixa víra undir stýrinu um daginn, því stefnuljósin hættu að virka. Frúin var því sannfærð um að þetta væri eitthvað tengt því. Þegar heim var komið ætlaði bóndinn að kíkja á þetta, en þá vildi bíllinn ekkert starta aftur. Bóndinn reif þetta allt í sundur og fann út að botninn í svissinum var bráðnaður og við gátum ekkert gert í því. Þá var hringt í Falck, sem er svona hjálparþjónusta við bílaeigendur. Það kom einhver karl, mörgum tímum seinna og kíkti á þetta. Hann gat ekkert gert og keyrði bílinn á verkstæði. Við urðum svo að leigja bíl á meðan, svo frúin kæmist í vinnuna. Við fengum bílinn svo aftur á föstudaginn. Það var rándýrt að fá þennan varahlut, en kostaði ekki mikið að fá hann settan í. Allavega, þá erum við að velta því fyrir okkur að tala við bankann eftir helgi og kanna hvort við getum fengið lán til að kaupa bíl. Svona áður en maður er búinn að borga offjár í að gera við þennan sem við erum á. Þetta slitnar fljótt þegar það er keyrt svona mikið.

Við fórum svo í afmæli hjá nágrönnum okkar í gær. Maðurinn, sem er Ameríkani, átti 42 ára afmæli, og er búinn að vera jafn lengi í Ameríku og í Danmörku. Það var partý úti í garði hjá þeim og við vorum vel bökuð og brennd eftir daginn. Alveg ótrúlegt að maður skuli ekki passa sig. En þar var frúin svo spurð hvort hún væri farin að keyra brunabíl. Það átti að vera voða fyndið af því ég var að keyra með reyk í bílnum. Það berast fljótt fréttirnar hér í sveitinni. Þá hafði dagmamman séð að frúin var á lánabíl og spurt út í það. Dagmamman er svo góð vinkona formannsins í íþróttafélaginu í Tiset. Það verður spennandi að heyra hvort ekki verði gert grín að þessu á bæjarhátíðinni þarnæstu helgi.

Í dag renndum við svo til Árósa. Komum við hjá John vini okkar og keyptum kjöt af Arabavinum okkar. Það er nauðsynlegt þegar maður fer til Árósa.

Ungfrúin hefur verið eitthvað erfið að borða undanfarið. Ekki gott að vita hvað veldur því. Hún er annars hress og kát og alveg á útopnu. Við erum aðeins farin að prófa að lesa fyrir hana. Henni finnst það nú spennandi en það er erfitt að sitja kyrr.

Nú er svo um að gera að nýta sér að það er auka frídagur á morgun. Það eru víst ekki fleiri langar helgar fyrr en við förum í sumarfrí um miðjan júlí.

Bestu kveðjur

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leiðinlegt að heyra þetta með bílinn. En gott að þú hafir þó komist heim Ragga. 

Það verður ekki langt þangað til Auður Elín situr kyrr og hlustar af athygli á ykkur lesa fyrir sig. Tíminn líður svo hratt þegar börn eru annars vegar

Bestu kveðjur í kotið

Sigrún og co Kollund

Sigrún (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband