Nýr bíll

Kæru bloggvinir

þá er sumarið komið og farið. Það var síðustu helgi og svo hefur verið rigning og leiðindaveður mest alla vikuna. Stundum smá sól fyrripartinn. En í gær og í dag hefur bara verið skítkalt. Ekkert spennandi við það. Við vonum að það verði betra veður næstu helgi því þá er bæjarhátíðin í Tiset og það er ekkert spennandi við að halda svoleiðis þegar veðrið er leiðilegt. Við fórum að hjálpa til við að setja upp tjöld og svoleiðis áðan. Bóndinn er þar ennþá. Hann hlýtur nú að fara að skila sér. Það er náttúrlega ekkert verið að vinna í neinu akkorði við þetta.

Það hefur nú annars allt gengið sinn vanagang hér í vikunni. Bóndinn hefur verið á fullu að leita að öðrum bíl. Í gær keyrðum við svo til Ebeltoft. Bær sem er hérna tæpa 200 km frá. Við versluðum svo bílinn og keyrðum heim. Frúin er óskaplega lítið hrifin af því að keyra á hraðbrautinni, en neyddist til þess í gær. Eftir 1 og hálfan tíma urðum við nú að stoppa því frúin var komin með sjóriðu af öllum þessum akstri. Bóndinn neyddist til að keyra skikkanlega, svo við misstum ekki af hvort öðru. Bíllinn sem við keyptum er Renault Scenic. Voða fjölskylduvænn bíll. Hann er 12 ára en það telst nú ekki mikið hér. Við höfum aldrei átt svo nýlegan bíl eftir við fluttum hérna út. Hann er voða vel með farinn og hefur verið passaður vel, svo við vonum að hann endist eitthvað. Við ætlum að reyna að selja þann gamla fyrir lítinn pening. Það er vonandi einhver sem vill kaupa hann. Hann ætti alveg að endast í minnsta kosti ár í viðbót. Sérstaklega ef maður getur gert við hann sjálfur og þarf ekki að eyða of miklum pening í hann. Hér fara bílarnir í skoðun á 2 ára fresti, svo maður getur keypt druslu og keyrt hana í tvö ár og svo hent henni. Það er alveg óhuggulega dýrt að kaupa nýja bíla, svo það lætur maður sig ekki einu sinni dreyma um.

Ungfrúin tók þessu bílastússi með stóískri ró. Hún svaf í bílnum nánast alla leiðina til Ebeltoft og til baka líka. Það er ekki beint erfitt að hafa hana með í svona stússi. Alveg ótrúlegt hvað hún er róleg í bíl, miðað við hversu erfitt hún á með að sitja kyrr hérna heima. Hún var nú samt voða fegin að komast úr bílnum í gær og fá að skríða um.

Kötturinn á heimilinu hefur verið í einhverjum ævintýrum. Hún kom heim í síðustu viku, öll eitthvað í lamasessi. Við höldum að annað hvort hafi hún lent í slagsmálum eða það hafi verið keyrt á hana. Hún fór svo út í fyrradag og sást ekkert í gær. Við vorum því eiginlega búin að afskrifa hana. En svo kom hún heim áðan. Hún virðist vera alveg einstaklega óheppin alltaf greyið. En gott hún skilaði sér.

Jæja það er víst ekkert meira spennandi að frétta héðan

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með nýja bílinn, alltaf gaman að fá nýja bila :)

Hildur (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 21:17

2 identicon

Sæl og blessuð !

Nú fer að styttast í innrás frá okkur. Bara rúm vika í að við birtumst. Er eitthvað sérstakt íslenskt sem ykkur langar í og við getum tekið með okkur, látið okkur þá vita.

Hlakka til að hitta ykkur :)

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband