6.6.2010 | 16:30
Bæjarhátíð og bílasala
Kæru bloggvinir
hér hefur verið mikið að gera síðustu vikuna. Bæjarhátíðin byrjaði á fimmtudag og endaði í dag. Það hefur verið heilmikið að snúast í kringum það. Veðrið hefur verið alveg frábært síðustu dagana. En nú spáir rigningu á morgun. Það er svo sem ekki vanþörf á. Allt orðið mjög þurrt.
Bóndinn auglýsti gömlu mözduna okkar til sölu og það varð allt vitlaust. Það hringdu örugglega 30-40 manns sem vildu endilega kaupa gripinn, en vildu nú gefa mismikið fyrir hann. Frúin var alveg gáttuð, hafði alls ekki búist við neinu. Það hringdu allavega 2 frá Sjálandi sem ætluðu bara að taka lestina og kaupa bílinn. Það er víst mjög erfitt að kaupa svona gamla bíla á Sjálandi. Þar keyrir fólk ekki eins langt í vinnu og hér á Jótlandi. Það eru betri almenningssamgöngur og fólk skiptir greinilega oftar um bíla. Það voru mikið arabar sem hringdu og vildu kaupa. Þeir eiga oft einhvern að sem getur dittað að bílum ef eitthvað bilar. En það var nú samt Dani sem keypti bílinn. Við fengum ca. 60.000 meira fyrir hann en ef við hefðum selt hann í brotajárn, svo við erum mjög ánægð með það. Nýji bíllinn hefur reynst mjög vel hingað til. Mjög gott að keyra hann af því maður situr svo hátt og þægilegt í alla staði. Vonandi að það haldi bara áfram.
Af ævintýrum kattarins er það að segja að hún kom heim í síðustu viku og komst upp á loft. Þar fer hún oft undir gólffjalirnar og felur sig. Í þetta skipti kom hún svo ekki niður í 2 daga. Ekki meðan við vorum heima a.m.k. Við vorum því farin að halda að við þyrftum að rífa allt í sundur þarna uppi til að finna hana. Það hefði nú verið huggulegt og gestir að koma á miðvikudaginn. En sem betur fer kom hún niður aftur. Nú er bara passað upp á að loka upp á loft.
Ungfrúin er búin að vera alveg í rosa stuði. Hún er búin að vera á bæjarhátíðinni alla helgina og fengið gríðarlega athygli. Hún er alveg hætt að vera mannafæla, svo það hafa margir haldið á henni og henni hefur bara líkað vel. Það var matur og annáll á föstudaginn og það var auðvitað gert grín að frúnni á brunabílnum. Af því það fór að rjúka úr gamla bílnum um daginn. Það kvöldið fórum við ekki heim fyrr en hálf ellefu og Auður var ennþá alveg í rosa stuði. En hún var voða fljót að sofna þegar heim var komið og vaknaði á sama tíma og venjulega morguninn eftir. Í gær var svo kökukeppni. Það var keppt í þremur tegundum. Frúin bakaði gulrótarköku. Allar kökurnar fengu svo númer og aftan á því var skrifað nafn. Á köku frúarinnar var skrifað nafn bóndans. Kakan var svo valin besta kakan af formkökunum. En af því nafn bóndans stóð á miðanum þá fór hann og tók á móti verðlaununum. Við fengum vínflösku og súkkulaði. Svo nú halda allir í Tiset að hann sé rosa bakarameistari ! :)
Í dag tók frúin svo þátt í brennókeppni. Liðið tapaði auðvitað. En gaman að vera með. Við brunuðum svo í 3 ára afmæli Rebekku í Kollund. Fyndið að á svipuðum tíma í fyrra vorum við í 2 ára afmæli þar og þá var frúin alveg á steypirnum. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Eftir að frúin fór að vinna þá vinnst ekkert undan henni hérna heima og drullan hrúgast upp. En það verður að taka skurk í þessu núna. Það er ekki hægt að bjóða Braga bró og Gunnu í alla þessa drullu.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín partýgella
Athugasemdir
haha, mjog gaman i rigningunni
Bragi Einarsson, 10.6.2010 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.