Gestirnir komnir og farnir

Kæru bloggvinir

hér hefur aldeilis verið líflegt síðustu dagana. Bragi bró og Gunna komu á miðvikudaginn og fóru í morgun. Þau komu nú ekki með góða veðrið með sér. Hér hefur verið rok og skítaveður eiginlega alla síðustu viku. En vonandi hafa þau tekið þetta með sér til Kaupmannahafnar aftur. Það spáir allavega einhverju meira sumarlegu í næstu viku.

Það er annars búið að vera rosa gaman að fá heimsókn. Auður Elín hefur verið alveg á útopnu. Henni hefur nú samt fundist við veita gestunum full mikla athygli á köflum og hefur hækkað róminn til að reyna að komast að. Ekki alveg að vilja deila okkur með öðrum. En henni hefur nú þótt rosa gaman að hafa gestina og notið þess að hafa einhverja fleiri að tala við. Hún hefur auðvitað heillað þau upp úr skónum. Við keyrðum með þau hér út um allt að sýna þeim. Frúin var í fríi á föstudaginn og við keyrðum til vinnufélaga hennar og keyptum heilan lambaskrokk. Fengum 4 hausa, innyfli og eistu með. Við erum búin að grilla einu sinni af því og þetta er bara besta lambakjöt sem við höfum smakkað hér í Danaveldi. Svo við erum bara himinlifandi. Nú þurfum við bara að kaupa okkur græjur til að svíða hausana. Það hefur aldrei tekist áður að kaupa kjöt beint af bóndanum hér í DK. En þetta fólk er heilmikið að selja, svo þetta er ekkert mál. Arabavinir okkar í Árósum verða auðvitað örugglega mjög svekktir að missa viðskiptin, en ekkert við því að gera.

Bragi og Gunna komu með föt með sér sem Hófí föðursystir hafði gefið okkur um jólin. Þar á meðal voru sokkapar. Auður Elín hefur tekið miklu ástfóstri við þessa sokka og þvælist með þá út um allt. Hún er annars ansi kvefuð núna. Það rennur endalaust úr nefinu á henni og hún er með hósta. Vonandi að hún verði búin að hrista þetta úr sér fyrir næstu helgi, þá ætlum við að halda upp á afmælið hennar. Við vorum búin að ætla að fara út og versla föt á hana. Hana var farið að vanta buxur og einhver sumarföt. En við þekkjum svo gott fólk sem gefur okkur föt, að það eru búnir að koma 3 pokar fullir af fötum hérna síðustu dagana. Alveg meiriháttar. Gæti ekki passað betur.

Í gær var svo ráðist í að gera lambakæfu úr slögunum. Uppskriftabókin er víst ennþá í einhverjum kassa, svo það var farið á netið að leita að uppskrift. Það var nú ekki beint auðvelt, en hafðist að lokum. Þá vandaðist nú málið því okkur vantaði allarahanda krydd. En við slepptum því bara og þetta kom bara mjög vel út. Nú er frúin svo að baka rúgbrauð. Það jafnast ekkert á við rúgbrauð með nýrri kæfu. Svo komu Bragi og Gunna með íslenskt nammi með sér svo það er bara veisla þessa dagana.

Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna brauðbakstrinum

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erum komin heim í heiðardalinn eða Garðinn ef rétt er farið með. Það var æðislegt að vera hjá ykkur í Tiset þrátt fyrir íslenskt veðurfar, vonum að Auður Elín verði hress á afmælinu sínu og verði ánægð að hafa alla ykkar athygli.

Kær kveðja

Gunna og Bragi

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 14.6.2010 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband