27.6.2010 | 12:34
Sól, loksins sól
Kæru bloggvinir
þá erum við loksins farin að sjá til sólar oftar en 2 daga í viku. Það hefur verið mjög gott veður alla vikuna og líka núna um helgina. Maður kann bara varla á þetta og verður dasaður á þessum hita. Nú vonum við bara að þetta haldi eitthvað áfram. Það er að verða kominn júlí og maður er varla búinn að taka fram sumarfötin.
Frúin hefur verið mjög upptekinn í vinnunni þessa vikuna. Yfirmaðurinn hennar var að fara á ellilaun og það var allt á öðrum endanum í undirbúningi. Á fimmtudaginn komu svo fullt af nánustu samstarfsmönnum og kvöddu manninn. Við í vinnunni sungum frumsamin söng. Það er mjög danskt að gera það. Frúin er nú eins og fram hefur komið ekki mikið fyrir svona uppákomur, en það var ekkert annað að gera en láta sig hafa það. Þetta gekk nú allt mjög vel og allir voru víst ánægðir með þetta. Frúin dröslaðist líka með borð og stóla upp og niður stiga og var alveg búin á því á eftir. Þetta var haldið í húsnæði sem vinnan er að fara að flytja í núna í júlí. Þannig að það var allt í múrryki og ógeði. Þetta er örugglega í 10 skipti að vinnan sem frúin er í, flytur meðan hún er þar. En það verður mjög fínt að flytja, við fáum meira pláss og það verða skrifstofur fyrir alla. Við flytjum líka frá 3 hæðum inn í 2 hæðir.
Í gær fórum við með mömmuhópnum í dýragarð hérna rétt hjá. Þetta var nú ekki neitt sérstakt. Okkur fannst dýrin hálf horuð og það var hryllilega skítugt vatn hjá þeim. Allavega ekki til neinnar fyrirmyndar. Við höfum nú farið í nokkra dýragarði og þetta var einn af þeim verstu. Auður er nú líka full lítil til að fatta þetta allt saman. En naut þess að vera úti. Það var hálf kalt í gær. Hefði verið betra að vera þarna í dag, því það hefur verið rosa gott veður í dag. Þegar við vorum búin í dýragarðinum ákváðum við svo að renna með sófann okkar til Steina og Sigrúnar. Þau voru svo sæt að kaupa hann af okkur, svo við gætum losnað við hann. Þannig að dagurinn í gær var hálfgerður keyrsludagur.
Í dag erum við svo búin að setja saman sandkassa í garðinum og ryksuga bílinn. Auður Elín er ekki búin að prófa sandkassann ennþá. Hún þurfti að fá sér middagslúr. Dagmamman segir hún nenni ekki að vera í sandkassanum hjá henni, svo það verður spennandi að sjá hvað hún segir yfir þessu. Hún er allt í einu komin með 2 framtennur. Þetta kom svona bara yfir nótt höldum við. Svo nú er hún komin með 6 tennur. Hún er orðin duglegri að borða. Borðar meira að segja orðið rúgbrauð hérna heima. Við keyptum disk handa henni sem er með svona sogskálum undir, svo hún geti ekki hent honum í gólfið. Þetta er ægilega mikið sport, allavega ef henni finnst maturinn góður. Hún er voða mikill sjálfstæðispúki og vill bjarga sér. Það er auðvitað bara mjög gott.
Skólarnir hér eru komnir í sumarfrí, svo í næstu viku keyrir bóndinn morguntúr og svo ekki fyrr en kl. 16:00. Það eru nokkrir krakkar sem eru í skólavistun. Þarnæstu viku fer hann svo á námskeið. Og þar á eftir er svo 3ja vikna sumarfrí. Jibbí!
Hann ætlar að henda inn myndum hér á morgun.
Kveðja úr sólinni
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.