4.7.2010 | 11:02
Allt að gerast í Tiset
Kæru bloggvinir
hér hefur veðrið heldur betur sýnt á sér sparihliðina undanfarið. Það hefur verið steikjandi hiti um helgina. Í gær var svo heitt að maður svitnaði bara við að hugsa. Það var alveg rosalega mikill raki í loftinu. En í gærkvöldi og nótt var þrumuveður og mikil rigning, svo í dag er bara þolanlegur hiti og minni raki.
Bóndinn hefur haft langa pásu um miðjan daginn alla síðustu viku, svo hann hefur verið rosa duglegur að bardúsa í húsinu. Hann er búinn að mála á klósettinu og gera klárt til að mála hurðakarma og gluggakistur. Svo þetta skríður nú allt áfram. Hann fékk hjálp til að setja saman rólustatífið og í gær keyptum við svo rólur og grófum statífið niður. Ungfrúin er búin að prófa græjurnar og er alveg hæstánægð með þetta. Var líka heillengi í sandkassanum um daginn. Finnst þetta bara alveg rosa gaman. Svo er bara eftir að pumpa í barnalaugina sem við keyptum og þá er þetta orðinn eins og besti skemmtigarður hérna á bak við. Frúin óskar sér svo að fá snúrur líka, og þá getur þetta ekki orðið mikið betra.
Föstudagskvöldið var heldur betur atburðaríkt, frúin fór snemma að sofa eins og alltaf, en bóndinn var að horfa á kassann. Allt í einu heyrði hann rosa læti í einhverjum bíl og svo kom rosa skellur. Hann kíkti út, það var auðvitað komið svartamyrkur. Þá sá hann bíl renna fram hjá, afturdekkin voru farin undan og framdekkin voru öll beygluð, svo það stóðu eldglæringar allt í kringum hann. Hann stoppaði svo hérna fyrir framan húsið. Bóndinn dreif sig í föt og út á gangstétt, þá var sá sem keyrði bílinn komin út úr bílnum. Það safnaðist svo saman hellingur af fólki. Einn fór heim og hellti á könnuna og kom svo með pappaglös og gaf öllum kaffi. Það varð úr þessu heilmikil samkoma. Ökumaðurinn var vel ölvaður og eflaust á einhverju meiru. Hann var keyrður á sjúkrahús. Löggan kom svo loksins og þá gátu allir farið í rúmið. Einhver konan sagði það væri nú merkilegt að það þyrfti að gerast eitthvað svona, svo fólkið í Tiset talaði saman.
Í gær átti frúin svo afmæli. Hún fékk voða fínar gjafir og rúnstykki í morgunmat. Svo keyrðum við til Haderslev og keyptum skápa hérna fram á gang. Frúin var að verða geðveik á að hafa enga skápa. Við gengum svo niður göngugötuna. Síðan keyrðum við heim og moldvörpuðumst í garðinum. Í gærkvöldi fórum við svo út að borða. Alveg frábær matur. Það er nú ekki mikið úrval af veitingastöðum hér í sveitinni svo við fórum á kínastað sem er með alveg mjög fínan mat. Í alla staði alveg einstaklega vel heppnaður afmælisdagur.
Í morgun fórum við svo í sund. VIð höfum ekkert farið síðan ungbarnasundið hætti. Auður Elín er orðin alveg brjálæðislega hrædd við að fara í sturtu, en þegar við komum í sundlaugina gekk þetta nú betur. Hún var smá tíma að venjast lauginni aftur, en svo kom þetta allt saman. Við verðum að reyna að vera dugleg að fara með hana þangað til ungbarnasundið byrjar aftur. Dagmamman hennar er komin í sumarfrí, svo næstu viku á hún að vera hjá annarri dagmömmu. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Hún er vön að neita að borða og drekka þegar það er verið að breyta einhverju svona. Hún tók fyrstu skrefin, án þess að halda sér í, í gær, á afmælisdag móður sinnar. Ekki amalegt það. Hún er farin að vera duglegri að ganga með, en er eitthvað smeyk við að sleppa sér alveg ennþá. En þetta kemur allt saman.
Í morgun kom kötturinn inn með fugl í kjaftinum. Hún er nú alveg einstaklega klaufaleg við að veiða, svo frúin sem var ein frammi með Auði, hélt nú að kvikindið væri dautt. En nei, ekki alveg, svo kötturinn lék sér aðeins með fuglinn og svo tók frúin hann og rotaði hann og henti í ruslið. Bóndinn svaf á sínu græna meðan á þessu stóð. Það er ekki það skemmtilegasta sem maður veit, þegar kettirnir eru að draga inn svona kvikfénað. Sérstaklega ekki þegar þetta er lifandi.
Jæja ætli sé ekki komin tími á að koma sér út í garð.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Til hamingju með afmælið Ragga mín. Já, það má nú segja að það sé allt að gerast í Tiset, fullir kallar og beiglaðir bílar. Kannski þarf eitthvað svona til að fólk safnist saman til að spjalla saman? En kom það fram hvernig hann fór að því að kippa undan honum afturdekkjunum báðum? Hér er allt við það sama, sæmilega gott veður alla daga, 8-15 stig flesta daga, en skýjað með smá rigningu en góðri sól á milli. Við hjúin vorum á Laugarvatni um helgina hjá vinafólki okkar og höfðum það bara næs í bullandi mýi og lékum golf, grilluðum og spiluðum á spil. Svo er stefnan tekin á Vopnafjörð á fimmtudaginn og ætlum að fara hringleiðina. Komum aftur þann 15. Strákarnir verða bara heima að gæta hússins. Knúsaðu litla knúsið frá okkur, Gunna biður að heilsa (strákarnir væntanlega líka, en þeir eru báðir að vinna). Moin moin.
Bragi Einarsson, 5.7.2010 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.