Hitabylgja

Kæru bloggvinir

Hér hefur allt verið með kyrrum kjörum síðustu vikuna. Engar fyllibyttur að keyra eins og brjálæðingar. Fyllibyttan sem keyrði eins og vitleysingur síðustu helgi, var komin á annan bíl daginn eftir. Hann er örugglega ekki með ökuskirteini, en honum er víst nokkuð sama. Það er náttúrlega bara ekkert sniðugt að svona vitleysingar séu undir stýri.

Það hefur verið rjómablíða hér síðustu vikuna. Í gær var yfir 30 stiga hiti og maður var algjörlega að bráðna. Í dag er skýjað en samt 28 stiga hiti. Það liggur við að það sé best að vera bara inni.

Bóndinn var á námskeiði í síðustu viku. Nú er hann kominn með réttindi til að keyra í öllum löndum innan evrópusambandsins. Þetta var nú víst ekkert rosalega skemmtilegt, en gott að hafa þetta. Þetta er orðið krafa hérna í Danmörku og fyrirtækið borgar fyrir.

Ungfrúin fór til annarar dagmömmu þessa vikuna. Það gekk nú vonum framar. Hún vildi að vísu ekki sofa almennilega hjá henni, en borðaði og hagaði sér víst bara nokkuð vel. Þessi dagmamma er voða almennileg og virtist hafa áhuga á börnunum. Það kom svo í ljós að hún er hér frá Tiset og við kaupum egg af foreldrum hennar. Auður er voða mikið að prófa sig áfram með að labba. Hún er nú pínu smeyk við að sleppa sér ennþá. Er voða hissa þegar henni tekst að labba án þess að detta. Hún hefur verið voða pirruð seinnipartinn, sennilega af því hún er ekki í því umhverfi sem hún er vön. Hún á líka voða erfitt með að sofa á nóttinni. Sennilega út af hitanum. Hún fór í 1 árs skoðun á föstudaginn. Lækninum leist mjög vel á hana. Hún er orðin 11 kg og 81 cm. Læknirinn skildi ekkert í því af hverju barnið er svona langt og spurði hver í fjölskyldunni væri svona hávaxin. Kannski báðir foreldrarnir! Við vorum þarna bæði. Hún fékk svo 2 sprautur. Við fyrri sprautuna vældi hún pínu en hló bara að þeirri seinni. Henni virðist ekkert hafa orðið meint af þessu. Í gær létum við renna í sundlaugina hennar hérna úti. Hún fór í hana með pabba sínum og fannst þetta stórmerkilegt. Allavega notalegt að kæla sig niður í hitanum. Hún er voðalegur prakkari og ef henni er bannað eitthvað, þá horfir hún ögrandi á mann og heldur áfram. Hún tekur ástfóstri við einhvern mat í smá tíma og er alveg vitlaus í það. Núna er uppáhaldið jarðaber og belgbaunir. Það hefur verið voða barátta að fá hana til að drekka. En það er nú eitthvað að koma. Við erum að reyna að venja hana af pela. Nú fær hún bara á kvöldin áður en hún fer að sofa. Svo er meiningin að venja hana alveg af þessu. Við vonumst eftir að geta gert það núna í sumarfríinu. Svona ef hún fer að vera eitthvað erfið að sofa þegar hún hættir að fá pela.  

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

Kveðja frá heitu löndunum

Auður Elín, Gummi og Ragga


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband