25.7.2010 | 14:35
Tiltekt og hitabylgja
Kæru bloggvinir
Þá er enn ein vikan í sumarfríinu liðin. Það er búið að vera rosa gott veður og mikill hiti. Algjör bongóblíða.
Við höfum verið í allsherjar tiltekt hér í kompunum á bak við og í bílskýlinu. Það var búið að hrúgast upp alls konar drasl, sem þurfti að koma skipulagi á. Það þýddi auðvitað margar ferðir á haugana. Við erum ennþá að fara með drasl frá fyrri eigendum. Maður skilur ekki hvernig er hægt að safna svona miklu drasli. Svo er búið að fara með allan sandinn og múrsteinana og ruslið sem lá hér á planinu, svo nú er innkeyrslan bara næstum boðleg. Þarf bara að henda möl í hana og hreinsa illgresi. Svo er búið að setja upp auka skáp á ganginum frammi, svona fyrir ryksugu og svoleiðis.
Á föstudagsnóttina komu svo Elli og Kristín. Svo nú er heldur betur fjölmennt í kotinu. Auður Elín fílar þetta alveg í botn. Hún verður ábyggilega alveg ómöguleg þegar þau fara heim. Við fórum á risastóran markað á föstudaginn. Þar var bæði hægt að kaupa hunda, hesta og fataleppa ásamt ýmsu öðru. Það var alveg urmull af fólki. Höfum aldrei lent í öðru eins.
Í gær var svo byrjað á einu stórverkefninu. Að klippa hekkið í kringum húsið. Það hefur ekki verið klippt í mörg ár, svo það er af nógu að taka. Feðgarnir eru nú mest í þessu, en frúin er eitthvað að reyna að aðstoða. Við keyptum lítinn fataskáp inn í herbergið hennar Auðar, og nýjar gardínur, svo nú eru þetta farið að líkjast aðeins meira barnaherbergi. Við þurfum svo að kaupa hillur og setja upp fleiri myndir. Við gátum líka tekið til í svefnherberginu og komið fötunum okkar ofan í kommóðuna sem var inni hjá Auði. Svo þetta lítur nú allt orðið snyrtilegra út.
Auður æfir sig alla daga í að labba. Hún stendur oft úti á miðju gólfi og horfir út í loftið. Hún er óþreytandi að reyna að standa upp. Hún er farin að geta tekið nokkur skref áður en hún dettur á bossann. Annars fara nú dagarnir í að halda uppi lögum og reglu og reyna að gefa liðinu að éta.
Það þarf svo að fara að reyna að koma inn myndum. Það hefur ekki komist í verk.
Kveðja
Gummi, Ragga og allir hinir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.