Tómlegt í kotinu

Kæru bloggvinir

Jæja þá erum við bara orðin 3 eftir í kotinu. Það er alltaf ansi tómlegt þegar krakkarnir fara heim. Þetta er nú samt skárra núna þegar við höfum Auði Elínu til að dreifa huganum.
Hér hefur nú bara verið heldur haustlegt veður undanfarið. Manni finnst bara eins og sumarið sé búið. En það koma vonandi eitthvað fleiri sólardagar.

Það er búið að gjörnýta mannskapinn hérna í fríinu. Ansi gott að hafa aðstoð bæði við mokstur og barnapössun. Helga Rut og Unnar voru liðtækar barnapíur og gripu líka í moksturinn og annað smálegt. Það er búið að gera ýmislegt bæði stórt og smátt. Nú er aðallega eftir að setja upp loftlista á ganginum og mála glugga.  Feðgarnir fóru líka tvisvar út að veiða. Í fyrra skiptið veiddu þeir sitthvorn fiskinn. En í seinna skiptið var þetta nú hálfgert hallæri. Fiskarnir voru svo slappir að bóndinn fór bara út í og greip fisk með höndunum og henti í land. Þetta var bara eins og Stella í orlofi. En þeir höfðu nú voða gaman að þessu. Við gáfum Ella veiðidót í afmælisgjöf svo það varð nú að vígja þetta.  

Nú er svo bara allt komið í gamla horfið aftur. Auður Elín byrjuð hjá dagmömmunni. Hún var nú heldur ósátt fyrsta daginn. Fannst þetta hálfgert svindl að þurfa að fara í pössun aftur. En þetta venst nú allt. Það var rólegt hjá bóndanum þessa vikuna. Skólinn byrjar ekki fyrr en í næstu viku. Svo þetta var hálfgert snatt hjá honum. Enda ágætt fyrst að Elli og Kristín voru ekki farin heim. Þá gat hann verið meira með þeim. Næstu viku ætti svo allt að vera komið í samt horf. Frúnni þótti nú ansi erfitt að byrja að vinna aftur. Hefði alveg getað verið fleiri daga í fríi. 

Í gær var svo drifið í að afþýða frystikistuna. Það hefur staðið til lengi. Manni vex þetta alltaf svo í augum, en svo er þetta nú ekki lengi gert þegar maður drullar sér í gang. Þegar það var búið að rífa allt upp úr kistunni ákváðum við að prófa að svíða kindahausana sem við fengum í vor. Við vorum ekkert búin að verka þá, hentum þeim bara beint í kistuna. Við höfum nú ekki gert þetta áður, svo þetta hefur nú sennilega ekki litið mjög fagmannlega út, en þetta hafðist allt saman. Verst að sviðalyktin situr svo í nefinu á manni að ég held við höfum ekki lyst á að éta sviðin fyrr en í vetur. Það voru teknar nokkrar myndir af gjörningnum og þær koma inn við tækifæri. VIð höfum annars verið voða löt við að taka myndir í sumar. En það er búið að setja inn nokkrar hér á síðuna. Verðum að fara taka okkur eitthvað á í þessu og setja inn video líka.  

Við héldum að gestagangurinn væri búinn þetta sumarið, en svo er tengdó búin að ákveða að koma. Svo hún er væntanleg fljótlega. Það verður nú ekki leiðilegt.

Auður Elín er voða mikið að breytast þessa dagana. Hún skilur orðið mikið meira og er farin að skilja þegar maður segir henni að gera ákveðna hluti. Það er svo annað mál hvort henni þóknast að gera það! Hún er voða ákveðin, sumir myndu kalla það frekju. Hún rekur upp harmakvein ef hún fær ekki það sem hún vill. En við reynum nú að stoppa hana eitthvað af. Henni finnst voða gaman að setja einhverjar tuskur á hausinn og labba með það út um allt. Hún er algjör fjörkálfur og bröltir upp á allt. Er farin að geta togað sig upp á stóla og borð. Þetta hefur nú gengið stórslysalaust fyrir sig hingað til. En hún er nú líka mjög fljót að jafna sig ef hún dettur eitthvað eða rekur sig á. Það eru nokkrir jaxlar á leiðinni, svo hún er nú frekar pirruð í munninum. En flesta daga tekur hún þessu nú með stóískri ró.

Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili. Endilega kíkið á nýjustu myndirnar

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband