Rigning

Kæru bloggvinir

þá er enn ein rigningarvikan búin. Það hefur rignt hressilega hjá okkur en sem betur fer ekki eins mikið og sums staðar á landinu þar sem allt hefur farið á kaf. Þeir eru að spá þessu eitthvað áfram svo það þýðir ekkert að væla yfir því.

Bóndinn átti afmæli á mánudaginn og fékk nú eitthvað smá af pökkum. Það fer nú alltaf fækkandi pökkunum eftir því sem maður eldist. En hann var nú víst bara sáttur. Og svo skellti frúin í eina köku. Við fórum og sóttum tengdó þann daginn. Sem betur fer rigndi ekki mikið akkúrat þann daginn. Annars er ekki víst að flugið hefði getað lent. Auður Elín er mjög sátt við að hafa ömmu. Var í pössun hjá henni eitt kvöldið meðan við hjónaleysin fórum að hjálpa til við að undirbúa grillkvöld fyrir íþróttafélagið. Hún er annars búin að vera voða pirruð greyið og hefur lítið viljað borða. Við fundum út af hverju í gær. Það er að koma annar jaxl og hún er mjög bólgin öðru megin í munninum. Ekki skrýtið að hún kvarti eitthvað yfir því.  

Annars hefur nú lítið gerst hér fréttnæmt í vikunni. Mest allt í rólegheitunum. Frúin er alveg að verða brjáluð á að þurfa að nota extra langan tíma til að komast heim úr vinnunni. Nú er það bæði á morgnana og seinnipartinn. Á föstudaginn var svo sameiginlegt grill fyrir Tisetbúa. Þá hitar íþróttafélagið upp grillin og svo kemur fólk með matinn sinn og grillar. Það var mun betur mætt en í fyrra og þetta var bara mjög fínt. Hinn sálfræðingurinn í bænum var komin í hörku samræður við tengdó. Í gær var svo farið með tengdó á göngugötuna í Haderslev. Það þurfti að hleypa henni í búðir. Við lætum hana bara hafa síma og svo var henni hleypt af stað. Hún verslaði nú einhverjar spjarir og er víst ekki alveg búin enn. Þetta var voða þægilegt, þá gátum við gamla settið bara sest á bekk á meðan og slappað af.

Í dag fer bóndinn svo á fótboltaleik. Hann hefur nú ekki farið lengi, svo það er vonandi að liðið sem hann heldur með standi sig vel. Það hefur nú ekki rignt svo mikið í dag og vonandi að hann hangi þurr meðan hann er á leiknum. Það má ekki hafa regnhlífar með af því þær skyggja á þann sem stendur á bak við.

Á þriðjudagskvöldið kemur svo móðuramman í heimsókn. Það er spurning hvort Auði verði ekki spillt algjörlega þegar báðar ömmurnar eru hérna á sama tíma. Dönunum finnst alveg stórmerkilegt að við séum alltaf með svona mikið fólk í heimsókn. Þeir eru nú almennt ekkert mikið fyrir að hafa tengsl við fjölskylduna.

Bóndanum leiðist alveg óskaplega að geta ekki slegið blettinn. Það vex svo hratt hérna fyrir framan, af því það var settur áburður á það. Fólk hér í Tiset hefur nú haft á orði að þetta sé orðið hinn fínasti blettur. Enda töluverð breyting frá því sem var áður. Svo er nú alltaf eftir að setja upp snúrustaura út í garði. Það þornar alveg rosalega illa hérna inni í þessari tíð. Frúin er alveg að fara yfirum á þessu. Hún er ekki enn búin að ná niður þvottafjallinu sem skapaðist þegar krakkarnir voru hérna.

Jæja það er eftir að setja inn myndir af sviðahausunum og ýmsu fleiru. Reyni að fá bóndann í það í vikunni.

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband