Aftur ein í kotinu

Kæru bloggvinir

þá erum við aftur orðin ein í kotinu. Tengdó flaug heim á fimmtudaginn. Það er því ansi tómlegt hérna hjá okkur. Auði Elínu leiðist óskaplega að hafa bara foreldra sína til að ráðskast með. Tengdó hefur greinilega tekið rigninguna með sér heim því það hefur verið ágætis veður síðan hún fór heim. Um helgina hefur verið sól og blíða.

Annars er nú svo sem ekki mikið að frétta hér frá Tiset. Bara fastir liðir eins og venjulega. Vegavinnan er loksins búin, svo nú kemst frúin nánast klakklaust í vinnuna. Vonandi að þeir fari ekki að rótast meira í þessu í bili. Það munar alveg ótrúlega miklu ef það bætist eitthvað við aksturinn hjá manni. Auður er búin að vera hjá annarri dagmömmu en venjulega, þessa vikuna. Henni hefur nú líkað það mjög vel. Bara hlaupið í fangið á henni á hverjum degi. Það er rosa munur að þurfa ekki að skilja hana eftir hágrátandi. En hún fer svo til gömlu dagmömmunnar á morgun. Auður er annars alltaf á fullu eitthvað að brasa. Hún er alltaf að klifra upp í hægindastólana og gera ýmsar kúnstir. Hún reynir að standa upp og í gærmorgun flaug hún á hausinn þegar hún var með einhverjar æfingar í öðrum stólnum. Hún er farin að teygja sig fram, ef hún vill að maður kyssi hana. Það finnst henni rosa sniðugt. Hún sefur voða illa á nóttinni. Er algjörlega friðlaus og snýr sér og byltir á alla kanta. Hún hefur verið að fá jaxla, svo sennilega er það út af því. Hún hefur líka verið voða lítil í sér seinnipartinn. En vonandi fer maður nú að fá pásu á þessari tanntöku. Í dag var svo farið og verslaðir kuldaskór og stígvél fyrir veturinn. Svo hún ætti að vera fær í flestan sjó.

Við hentum inn myndum af henni og ömmunum í vikunni. Gleymdist bara að skrifa um það. Svo endilega kíkið.

Konan hérna við hliðina hefur verið voða viðkvæm fyrir að láta klippa trén á milli okkar. Svo í gær var allt í einu kominn maður inn í garðinn okkar að klippa trén. Það er svo sem ágætt af því það þurfti að klippa þau meira. Bara svolítið skrýtið að tala ekki við okkur fyrst. En hún er nú voða sérstök.Hún mætti líka alveg planta trjám þar sem vantar. En það er nú ekki sennilegt að hún geri það.

Í gær var svo farið í að setja niður snúrustaura í garðinn. Þetta var mikil kúnst. VIð fengum lánaðan bor til að grafa holurnar með og svo þurfti að steypa staurana niður. Frúin hefur aldrei haft svona fína þurrkaðstöðu. Hún var algjörlega að verða brjáluð á að geta ekki þurrkað úti. En svo fattaði hún nú að hún gæti hengt upp á svölunum uppi. Það lagaði nú eitthvað skapið. Það hefur verið svo rakt í ágúst að það hefur ekkert gengið að þurrka. Nú er svo búið að koma hita á húsið, það var ótrúlegur munur að fá smá yl. Við erum svo búin að fá rafvirkja til að kíkja á pilluofninn og við vonum að það þurfi bara að skipta um eitthvað lítið stykki. En það á eftir að koma betur í ljós. Við vonum það besta. Svo er búið að festa ofnana betur á veggina í svefnherberginu og stofunni. Þeir voru að detta niður. Það er svo lítið hald í veggjunum. Við vonum allavega að við komum pilluofninum í gang fyrir veturinn. Það er svo dýrt að kynda með gasi.

En þá er best að fara að hjálpa karlinum að slá garðinn. Það er búið að vera svo mikil spretta undanfarið að það verður að slá einu sinni í viku og það er varla að það dugi.

Bestu kveðjur frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband