12.9.2010 | 15:22
Fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
hér er allt að verða komið í sama horfið aftur. Fastir liðir eins og venjulega. Það er komið týpískt haustveður með rigningarmistri og grámyglu. En það hefur hlýnað aftur, svo þetta er ekki alslæmt. Það hefur ekki enn viðrað til að vígja snúrustaurana. Það er ekki víst að það viðri til þess fyrr en næsta sumar. September er oft ansi votur.
Í gær var okkur boðið í 60 ára afmæli hjá einum vinnufélaga Gumma. Þetta byrjaði um hádegi og svo var setið og borðað allan daginn. Við fórum heim klukkan 15:30 og þá var eftir að borða súpu. Auður er nú venjulega voða ánægð með svona samkomur. Veður í fangið á öllum og gramsar í öllu. Frúin var því orðin vel sveitt að hlaupa eftir henni. Það eru tveir siðir í dönskum veislum, sem okkur finnast pínu kjánalegar. Önnur er að þegar maður kemur gengur maður á alla í veislunni og heilsar með handabandi, hvort sem maður þekkir viðkomandi eða ekki. Síðan er alltaf verið að syngja og hrópa húrra. En sinn er siður í hverju landi, svo maður er nú ekkert að kippa sér of mikið upp við þetta. Við fórum allavega ekki svöng heim í gær. Í morgun renndum við svo til Þýskalands, það var allt orðið goslaust, svo það var ekki um annað að ræða en renna í gosleiðangur. Við komum svo við í kaffi hjá Steina og Sigrúnu í Kollund. Þau eru að flytja heim aftur, svo nú verður ekkert hægt að sníkja sér kaffi þar. Algjört hallæri. Þau eru á fulllu að losa sig við fullt af hlutum og við njótum góðs af því. Erum búin að fá rennibraut fyrir Auði og annað útidót.
Það kom nú smá framhald á garðaævintýrið síðustu helgi. Konan við hliðina var með einhvern mann að hjálpa sér og vildi endilega fara í að klippa hekkið. Bóndinn byrjaði því en lenti aftur í að ergja geitungana og fékk 4 stungur í hendina. Við vorum búin að segja við nágrannann að við yrðum að bíða með að klippa kaflann, þar sem geitungabúið er, en henni fannst það algjör vitleysa. Þar til Gummi var stunginn. Þá lét hún sér loks segjast og þeir klipptu ekki meira þann daginn. Það á að fara aftur í þetta eftir nokkrar vikur, þegar þessi kvikindi eru vonandi dauð. Nágrannakonan var vel kennd og röflaði einhver ósköp. Ekki alveg uppáhaldið okkar. En fínt ef það endar með að það megi klippa hekkið eitthvað almennilega. Þessi maður sem var að hjálpa henni var greinilega eitthvað að þrýsta á hana að klippa. Hún var ekki alveg sátt.
Auður er orðin betri að sofa á nóttinni. Við erum farin að gefa henni meira að borða á kvöldin og hún er hætt að fá þurrmjólk. Hún er svo mikið pelabarn að það er ekki búið að heppnast að venja hana af pelanum svo hún fær ennþá venjulega mjólk í pela áður en hún fer að sofa. Hún hlýtur að gefa sig með þetta einhvern daginn.
Auður Elín er alltaf að hrella köttinn og kötturinn er svo vitlaus að hún er alltaf að klína sér utan í Auði. Auður, sem annars er farin að skilja ýmislegt, þykist ekkert skilja í því að hún megi ekki toga í skottið á kettinum! :) Hlær bara og togar meira, sérstaklega þegar kötturinn byrjar að veina. Hún fór út í búð með pabba sínum um daginn og var í prjónakjól sem hún fékk frá nöfnu sinni á Akranesi. Kerlingarnar í búðinni voru svo hrifnar af kjólnum að þær urðu að minnast á það. Það er ekki mjög algengt hér að fólk geri það. Svo nú verður karlinum ekki hleypt einum út í búð aftur. Auður fór í fyrsta skipti í alvöru klippingu um daginn. Hún var nú ekkert mjög hrifin, en það er allt annað að sjá barnið núna. Það verða kannski teknar myndir af hausnum á barninu við tækifæri og kannski smellt nokkrum af kjólnum sem vakti svona mikla hrifningu. Hún er búin að fá legokubba og er alltaf eitthvað að gaufast með þá. En er ekki búin að fatta ennþá hvernig þetta virkar. En það kemur.
Jæja þá eru fréttabrunnarnir þurrir og komin tími á að fara að elda
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Alltaf gaman að lesa um hvað vinir manns eru að bralla, gott að allt gengur sinn vanagang. Ég verð nú að fara að koma mér í að blogga aftur, er eitthvað ekki komin alveg í gírinn en það hlýtur að fara að smella :D
Knús í hús
Kata (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 02:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.