Rigning og rok

Kæru bloggvinir

hér hefur verið þvílíkt skítaveður síðustu viku, að við munum varla annað eins á þessum árstíma. Það hefur verið alveg hífandi rok og slengjandi slagveður. Í verstu hviðunum hefur vatnið skafið yfir vegina. Í Esbjerg, þar sem frúin er að vinna er alltaf rok, af því bærinn liggur út að sjó. En í þessari tíð er það ennþá verra. Það væri ekki spennandi að búa þar.

Bóndinn fékk fyrrverandi nágranna sinn (son hjónanna sem bjuggu í okkar húsi) til að hjálpa við að finna stykkið sem vantaði í brenniofninn. Hann vinnur á vélaverkstæðinu hérna á horninu. Hann fann það og hjálpaði til við að setja það í. Síðan á föstudaginn hefur þetta svo keyrt og við vonum bara að þetta sé komið í lag. Það væri voða mikill munur. Við trúum ekki alveg á það ennþá af því það hefur verið svo mikið vesen með þetta.

Maður er nú alltaf að komast að því hvað heimurinn er lítill. Pabbi einnar stelpunnar sem Gummi keyrir í skóla, fór að segja honum að hann hefði átt húsið hérna á bak við okkur. Hann fór að segja að karlinn sem bjó hérna í húsinu okkar, hefði alltaf verið að slátra skepnum hérna í bakgarðinum og henti svo bara innyflum og beinum og öllu draslinu hérna í bakgarðinn. Þetta olli þvílíkri flugnaplágu og ógeðslegri lykt, sérstaklega á sumrin. Það hefur verið gaman að búa við það.  Hann var ekkert að grafa þetta niður, herfaði bara yfir þetta öðru hvoru. Þannig að það verður gaman að fara að setja niður kartöflur í þetta. Hlýtur allavega að vera orðinn góður jarðvegur þarna! Bara að maður komi ekki niður á allt of margar beinagrindur.

Í kvöld á svo að prófa sviðin sem við sviðum um daginn. Það er búið að sjóða þau og þetta virtist bara hafa heppnast nokkuð vel. Það verður spennandi að prófa það í kvöld með kartöflum og rófustöppu. Svo er meiningin að fara í sláturgerð núna næst þegar við kaupum lambaskrokk. Erum búin að panta blóð, það verður fróðlegt að sjá hvort maður geti fengið það. Alltaf gaman að vera í svona tilraunastarfsemi.

Félagsmálatröllið á heimilinu er kannsi að missa stöðuna sem varaformaður í íþróttafélaginu. Það á að halda fund í næstu viku, þar sem á að ræða framtíð félagsins. Það er bara eitt félag sem spilar fótbolta undir merkjum félagsins. Nú er sveitafélagið að spara svo mikið að það á að hætta að slá fótboltavöllinn hérna, sem þýðir að fótboltafélagið verður að flytja eitthvað annað. Því er verið að spá í hvort eigi að sameina íþróttafélagið hér einhverju öðru eða hvað eigi að gera. Hann er að vonum mjög áhyggjufullur yfir þessu!

Ungfrúin hefur verið voða slöpp síðan á föstudaginn. Hún fékk hita á föstudagskvöldið en var hitalaus í gær og í dag. Hún er voða lítil í sér og grætur upp úr þurru. Svo slefar hún alveg eins og hún fái borgað fyrir það. Það er erfitt að fá að sjá upp í munninn á henni, en þetta lýsir sér allavega eins og tanntaka. Hún er voða erfið að borða líka. Hún borðar ekki morgunmat nema fletta IKEA bæklingi samtímis. Svo druslast hún út um allt með hann. Hann er orðinn ansi slitinn.  Hún sefur voða órólega og sparkar í allt sem fyrir verður. Pabba hennar  er ýtt alveg út í horn í stóra rúminu okkar. Hún lætur frúnna eiginlega alltaf vera. Hún er farin að leika sér meira með dúkkur og druslast með þær fram og til baka. Við þurfum að reyna að finna svona litla dúkkukerru svo hún geti keyrt um með börnin sín.

Það verða vonandi teknar myndir af ungfrúnni í dag, hún varð 15 mánaða í gær.

Kær kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð.

Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar á sunnudögum þó maður kvitti nú ekki alltaf. Gott að brennarinn virðist vera kominn í lag það munar um það. Jarðvegurinn hlýtur að vera næringarríkur og góður fyrir kartöflurnar þær verða kannski með kjötbragði ! Vonandi bragðast sviðin vel og gangi ykkur vel í sláturgerðinni, við höfum ekki tekið slátur í nokkur ár og ég hálfpartinn sakna þess. Auður Elín virðist taka ástfóstri við hina ýmsu hluti, þegar við vorum hjá ykkur voru það Hello Kitty sokkar !! Héðan er bara allt það sama að frétta, lífið gengur bara sinn vanagang og allir við góða heilsu.

Kær kveðja frá öllum úr Garðinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband