26.9.2010 | 12:12
Heyskapur
Kæru bloggvinir
Hér hefur verið voða gott veður síðustu viku. Það var svo gott að bóndinn komst loksins í að slá bakgarðinn. Það var orðið svo hátt grasið að það var ekkert hægt að hirða það, svo við hjónaleysin urðum að raka þetta saman í gær. Manni leið bara eins og maður væri kominn heim í sveitina. Það var rosa blíða hér í gær, svo frúin dreif sig í að hengja út á snúrur. Það heppnaðist svona ljómandi vel, svo nú getur maður allavega sagt að þær hafi verið notaðar einu sinni á þessu sumri. Vonandi að maður nái að nota þær eitthvað meira á næsta ári. Það rignir allavega í dag, svo það er ólíklegt að það verði þurrkað utandyra á næstunni. Þetta er nú orðið frekar þreytandi.
Við fórum í ungbarnasund í gær. Það eru tveir mismunandi hópar. Við höfum alltaf verið í yngri hópnum og erum þá í stórri laug, þar sem Auður nær ekki í botninn. Svo er eldri hópur, sem er í annarri laug, þar sem börnin geta náð í botninn. Við prófuðum eldri hópinn í gær og Auður Elín var alveg á útopnu. Hún skreið upp á bakkann og henti sér út í laug. Svo æfði hún sig í að labba í lauginni. Það tók smá tíma að venjast því, en þetta var nú allt að koma. Hún er allavega ekkert vatnhrædd. Eina vandamálið er að hún vill alls ekki í sturtu og brjálast alltaf við það. En það hlýtur að ganga yfir.
Hún er eitthvað að hressast, er allavega farinn að borða meira. Hún vill nú samt helst ekki borða morgunmat nema skoða IKEA bæklinginn samtímis. Hann er nú orðinn ansi slitinn, svo hún er með varabækling. Það er bæklingur frá svona vélaverkstæði. Þar eru myndir af dýrum og ýmsu tengdu landbúnaði. Það finnst henni ekkert minna spennandi. Hún er orðin voða dýrastelpa. Ef hún sér hund, þá bendir hún og æsist öll upp. Það þýðir þó ekki að hún sé eitthvað mjúkhentari við köttinn okkar. Hún veit ekkert skemmtilegra en að toga í skottið á henni og sleppir ekki þó kötturinn veini.
Við urðum svo að bregða okkur í bæjarferð í dag. Það hefur verið leitað mikið að úlpu fyrir dótturina, og það er ekki auðhlaupið að því að skaffa svoleiðis. Maður hefði nú haldið að það væri auðvelt á þessum árstíma, en sennilega höfum við bara farið að leita of seint og þetta verið allt uppselt. En við fengum allavega úlpu á barnið. Spennandi að vita hvort maður geti keypt kuldagalla í janúar. Vil ekki kaupa hann núna, ef þessi sem hún á endist kannski allan veturinn. Það er erfitt að meta það akkúrat núna. Hún vex ekki eins hratt og þegar hún var lítil.
Bóndinn lenti heldur betur í vandræðum í vikunni. Hann var að fylla á trépillubrenniofninn og þá valt sílóið með öllum pillunum yfir hann. Hann náði sem betur fer að koma sér undan því, en allar rafmagnsleiðslurnar rifnuðu úr sambandi, svo það þarf að fá rafvirkjann aftur til að tengja þetta. Sem betur fer slasaðist hann nú ekkert alvarlega, er bara allur lurkum laminn.
Sviðin voru borðuð með bestu lyst á sunnudaginn. Þetta er mikill herramannsmatur. Auður Elín var nú ekkert yfir sig hrifin, en lét sig hafa það að borða eitthvað smá. Henni þótti betra að naga kjálkann.
Í dag er svo bara afslöppun. Það er langt síðan við höfum legið á sófanum, svo okkur fannst tími kominn á það!
Bóndinn hendir kannski inn myndum á næstunni.
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Jedúdda mía þið eruð svo mikið búfólk, búin að gera svið og alles! Ég gæti nú alveg tekið nokkra af þessum rigningadögum í skiptum og sent ykkur sól og hita sem eru að gera útaf við mig :( Ég meina, 30-40 stiga hiti alla daga getur nú líka verið too much! Þannig að ég er nú að mestu bara inni í loftkælingunni og gæti því alveg þolað svolitla rigningu og smá haust takk :D
Mig langar svoooooo að komast til að kíkja á ykkur þarna í DK, ætla svo sannarlega að athuga hvort heimferðin í vor geti orðið með viðkomu þarna. P.s. komið þið eitthvað heim til Íslands um jólin?
Kv. Kata og Co.
Kata (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 14:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.