3.10.2010 | 14:18
Pestarbæli
Kæru bloggvinir
þá er enn og aftur kominn sunnudagur, ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Hér er voða mikið haustveður, rok og rigning flesta daga. En það er nú það sem má búast við hér á þessum árstíma.
Ungfrúin kom heim veik frá dagmömmunni á mánudaginn. Hún andaði voðalega grunnt og hóstaði mikið. Okkur leist ekkert á hana, svo við fórum með hana til vaktlæknis um kvöldið. Hann hlustaði hana og fannst ekkert athugavert við það svo við fórum aftur heim. En hún var heima þriðjudag og miðvikudag. Fór svo til dagmömmunnar á fimmtudaginn. Þetta er nú í fyrsta skipti sem hún er svona veik af einhverri alvöru. Svo maður kann nú ekki neitt á þetta. Svo vorum við mæðgurnar í fríi á föstudaginn af því hún átti að fara í bólusetningu, þá síðustu þar til hún verður 4 ára. Læknirinn okkar fann út að hún væri komin með bronkítis. Svo við fórum heim með púst sem hún á að fá á kvöldin. Það hefur hjálpað eitthvað, því hún er mikið hressari og sefur betur á nóttinni. Hún grét smá þegar læknirinn hlustaði hana, en eiginlega ekkert þegar hún var sprautuð. Hennar stærsta áhugamál þessa dagana er að brölta upp á allt, og standa og hrynja niður. Maður sér fyrir sér að hún eigi eftir að fara einhverjar ferðir á slysavarðstofuna með þessu áframhaldi. En hún hefur nú sloppið hingað til. Hún er alveg heilluð af öllum dýrum og bendir á allar skepnur og segir einhver hljóð. Hvort sem það er úti á túni, eða í einhverri bók. Frúin var að segja við bóndann að það væri núna sem maður ætti að reyna að koma inn hjá henni einhverju áhugamáli.
Við hjónaleysin höfum ennþá sloppið við pestina, sem betur fer. Það er voða mikið að gera í vinnunni hjá frúnni, allavega næstu tvær vikurnar. Svo er haustfrí eftir það í eina viku. Það er nú bara stefnt á rólegheit hérna heima. Við reynum kannski að klára eitthvað hérna heima. Það eru nokkur smáverkefni eftir. Alltaf eitthvað að gera.Við þurfum líka að fara til Árósa og í IKEA, uppáhaldið okkar. Það á að kaupa hillur og eitthvað smotterí fyrir barnaherbergið. Við erum að pæla í að flytja tölvuborðið hér inn í stofu og þá þarf að innrétta herbergi dótturinnar.
Bóndinn hefur ekki enn komið því í verk að setja inn myndirnar, hann ætlar að reyna að gera það á morgun. Frúin var svo heppin að geta hengt út sængurnar í gær og eitthvað fleira. Frábært að geta þurrkað svoleiðis úti. Í dag fengum við svo gest í mat. Það var Lone fyrrverandi vinnufélagi frúarinnar og maðurinn hennar. Auður Elín heillaði þau auðvitað upp úr skónum, enda er hún góð í því. Henni finnst voða gaman að hitta nýtt fólk.
Jæja það er víst ekki mikið annað til tíðinda hér á bænum
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.