Gróðurhúsaniðurrif

Kæru bloggvinir

þá er sólin loksins farin að láta sjá sig hér í Tiset. Það er rosa gott veður í dag, en pínu kalt. Við erum búin að standa í stórræðum í gær og í dag. Við erum búin að taka niður eitt stykki gróðurhús og ferja heim. Það stóð í garðinum hjá Steina og Sigrúnu, en þar sem þau eru að flytja heim til Íslands og nenna ekki með gróðurhúsið með sér, þá fengum við að hirða það. Við héldum nú við næðum þessu öllu í gær, en eftir að hafa tekið allt glerið úr og skrúfað grindina í sundur, þá vorum við orðin svo þreytt og loppin að við keyrðum heim bara með glerið. Í morgun sóttum við svo restina. Það verður aldeilis spennandi að púsla þessu saman aftur. Við erum nú ekki enn búin að finna út hvar við ætlum að hafa það, en garðurinn ætti nú að vera nógu stór fyrir það. Við erum að spá í að reyna að rækta tómata og eitthvað í þessu. Það kemur allt í ljós. Fyrst er nú að setja það saman aftur og fá nokkrar nýjar rúður. En þetta verður allavega spennandi.

Annars er nú lítið búið að vera í gangi hérna. Auður Elín er alveg búin að jafna sig af þessu kvefi og er í banastuði flesta daga. Hún finnur sér alltaf eitthvað að bauka. Við erum ekki alveg nógu hress með dagmömmuna hennar svo við erum að fara á fund með henni næsta mánudag. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Auður Elín virðist alveg vera sátt við að vera hjá henni, en manneskjan er frekar léleg í mannlegum samskiptum. Það er varla yrt á mann þegar maður kemur með Auði, eða þegar maður sækir hana. Og ef það er eitthvað sagt, þá er það yfirleitt eitthvað um að Auður Elín hafi verið að róta í skápunum hjá henni eða eitthvað svoleiðis. Við vonum að það hjálpi eitthvað að tala við hana. En maður er nú frekar stressaður yfir þessu. Það er heldur ekkert sérstaklega spennandi að þurfa að skipta um dagmömmu þegar Auði virðist líka þessi svona vel.

Það er búið að vera brjálað að gera í vinnunni hjá frúnni og hún kemur seint heim flesta daga. En eftir næstu viku er viku frí, svo maður verður bara að bíta á jaxlinn. Bóndinn sér um barnið og kvöldmatinn. Ekki dónalegt það. Við hjónaleysin eigum 10 ára sambúðarafmæli um þessar mundir, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Við ætlum að bregða okkur á hótel eftir tvær vikur. Verðum bara eina nótt og erum búin að fá pössun fyrir grísinn í sama bæ og við verðum á hóteli. Svo ef allt fer í háaloft, þá getur maður allavega sótt barnið. Hún er svo sem ekkert mjög mikil mannafæla, en hún er ekki vön að sofa annars staðar en heima hjá sér, svo við vitum ekki hvernig hún bregst við því. Frúin hefur nú alltaf gert hálfpartinn grín að mömmum sem eiga erfitt með að láta aðra passa börnin sín, en hún er nú víst ekki mikið betri sjálf! :)

Sagan af brenniofninum heldur áfram. Eftir að bóndinn lenti undir honum um daginn, þá brotnaði eitthvað stykki í mótornum og það þarf að finna eitthvað út úr því. Það er ekki enn búið að heppnast að finna varahluti í mótorinn. En við ætlum nú að reyna að vinna eitthvað í þessu áfram.

P.s. Það væri nú gaman ef einhver myndi kvitta! :)

kveðja úr kotinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð

Já, já ég skal kvitta !! Það er alltaf fastur liður á sunnudögum að skoða bloggið ykkar og skemmtilegast er að skoða myndir frá ykkur. Til hamingju með áratuginn ykkar saman, hvað eruð þið búin að vera lengi í Danabveldi? Vonandi blessast þetta með dagmömmuna og brenniofninn. Öfunda ykkur af vikufríi, njótið þið nú þess að vera barnlaus þó að það sé ekki nema sólarhringur. Við fáum langa helgi þ.e. frí í 4 daga eftir 2 vikur. Ætlum svo sem ekkert að gera nema fara í leikhús að sjá Íslandsklukkuna.

Bestu kveðjur úr Garðinum.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 16:10

2 identicon

kvitterí hér.  Fastir liðir hér á sunnudagskvöldum að lesa bloggið ykkar.  Já til hamingju með afmælið ykkar, voða líður þessi tími alltaf hratt.

kveðja traustur lesandi.

Bryndís (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband