17.10.2010 | 11:48
Flatkökubakstur
Kæru bloggvinir
þá er fjölskyldan komin í vikufrí. Það á nú að reyna að nýta tímann í eitthvað nytsamlegt. Við erum nú ekkert sérstaklega góð í að slaka á, svo það verður spennandi að sjá hvort það takist. Við stefnum á að fara til Árósa á þriðjudaginn og kíkja í IKEA. Það þarf að versla bókahillur fyrir ungfrúnna og ýmislegt smálegt. Það þarf nú líka að kaupa eitthvað kjöt. Við megum ekki alveg svíkja arabavini okkar. Við erum hætt að kaupa lambakjöt af þeim, sem við höfum keypt í mörg ár.
Þegar við fórum á fætur hér í morgun var hrím á jörðinni og 3 gráðu frost. En mjög fallegt veður. Það er aldrei að vita nema maður drífi sig í göngutúr seinna í dag.
Frúin lenti nú í smá vandræðum á föstudaginn. Þegar hún skilaði barninu hjá dagmömmunni kom það í ljós að hún vissi ekkert um fundinn sem við höfðum ætlað að halda á morgun. Þá hafði konan sem ég talaði við, ekkert sagt henni af því. Ég varð því að stynja út úr mér, hvað okkur fyndist vandamálið. Hún virtist nú vera mjög leið yfir þessu og opin fyrir að reyna að bæta þetta eitthvað, svo við erum búin að aflýsa fundinum á morgun og ætlum að sjá til hvernig þetta gengur. Það er annars verið að skipta út börnum hjá dagmömmunni. Það hefur verið ein stelpa á Auðar aldri og svo strákur rúmlega árs gamall og lítil 6 mánaða stelpa. Nú hættir strákurinn og það kemur 2 ára stelpa í staðinn, svo þetta verður mikill kvennafans. Þegar við sóttum Auði hjá dagmömmunni á föstudaginn, þá hló hún eins og vitleysingur og hún hafði víst verið að kreista upp úr sér einhvern tröllahlátur allan daginn og reyna að fá hina krakkana með sér í það. Hún hefur síðan verið að reka upp þennan ægilega hrossahlátur síðan. Svo þetta er greinilega eitthvað mjög sniðugt. Uppáhaldsleikurinn er ennþá að taka dúkkuföt og setja í kassa og færa þetta fram og tilbaka. Þetta er mikið nákvæmnisverk og fötin mega ekki liggja út fyrir. Það er heldur ekki sama í hvaða röð þau fara ofan í kassann. Hún hefur sennilega erft smámunasemina frá mömmu sinni, vesalings barnið.
Í dag var svo ákveðið að skella sér í flatkökubakstur. Þetta hefur nú ekki heppnast sérlega vel hingað til, en nú höldum við að við séum búin að finna út hvernig best er að gera þetta. Þessar sem við gerðum í dag eru allavega næstum eins og hjá mömmu. Þannig að nú verðum við að gera þetta oftar. En þegar maður er komin upp á lagið er þetta svo sem ekkert stórmál. Við erum allavega voðalega stolt af þessu. Við fórum á flóamarkað hér í morgun. Það var óttalega mikið drasl og ekkert sem var spennandi að kaupa.
Við erum búin að flytja tölvuna inn í stofu, hún var áður inni hjá Auði, en nú ætlum við að reyna að gera herbergið hennar klárt, svo hún geti notað það meira. Við erum búin að setja lítið borð og stól þarna inn líka. Henni finnst auðvitað mest spennandi að standa upp á þessu. Hlær bara þegar hún er skömmuð. Það hefur nú alveg örugglega erft frá pabba sínum. Móðir hennar var alveg einstaklega stillt og prúð sem barn.
Bestu kveðjur frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Athugasemdir
Sæl og blessuð
Maður þorir ekki annað en að kvitta fyrir lesturinn. Vonandi hefur ungfrúin erft bestu eiginleikana frá hvoru foreldri annars er voðinn vís !!
Gangi ykkur vel að slaka á, það er stundum nauðsynlegt.
Kveðja úr rigningunni í Garðinum, október hefur sjaldan verið heitari hjá okkur.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 12:27
Hæhæ, alltaf jafn gaman að lesa bloggið ykkar, fylgist vel með þótt ég sé afspyrnulöt að kvitta. Er líka búin að vera að skoða myndirnar af Auði Elínu, hún er algjört krútt:)
Kveðja
Hildur og co
Hildur (IP-tala skráð) 18.10.2010 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.