Útréttingar og snúningar

Kæru bloggvinir

þá er vikufríið búið. Ótrúlegt hvað þetta er alltaf fljótt að liða. Það hefur verið frekar leiðilegt haustveður undanfarið, rok, rigning og frekar hryssingslegt. Það snjóaði meira segja sums staðar í vikunni. Við fengum nú ekki neitt. En það þarf allavega að fara að huga að því að setja vetrardekkin undir. Við ætluðum nú að setja þau undir sjálf, en það þarf að balancera þau á verkstæði. Það er hryllilega dýrt, en við vorum nú búin að finna lítið verkstæði hérna rétt hjá sem gerir það ódýrara. Svo það á að fara í það á morgun þegar frúin er búin að vinna. Það er víst það sama hér og heima. Um leið og fyrstu snjókornin koma rjúka allir og fá vetrardekkin undir. Og engin leið að fá tíma á verkstæði. En þetta hlýtur nú að reddast. Við vonum allavega að við fáum ekki vetur eins og í fyrra, þá kemst frúin örugglega ekki í vinnuna.

Vikan hefur verið notuð í að útrétta allt mögulegt sem hefur setið á hakanum. Á þriðjudaginn fórum við í IKEA. Það var reyndar ekki eins slæmt og við höfðum búist við. Við vorum komin snemma og komin út aftur um hádegi og þá var allt að fyllast. Við keyptum ýmislegt í herbergi ungfrúarinnar. Hún tók þessu nú öllu með mikilli ró eins og venjulega. Ekkert að pirra sig á þessu. Við fórum svo að heimsækja John vin okkar í Árósum og keyptum líka smá kjöt af Arabavinum okkar. Þeir spurðu hvort við vildum ekki lambakjöt líka. En við gátum afsakað okkur eitthvað, svo þeir urðu ekkert móðgaðir. Á miðvikudaginn fórum við svo að hjálpa Steina og Sigrúnu að fylla gáminn. Frúin reyndar var nú mest í að líta eftir börnum, meðan bóndinn var í að bera húsgögn. Þetta gekk allt voða vel og tók ekki langan tíma. Við sóttum svo lambaskrokk eftir þetta allt saman. Á fimmtudaginn var svo gert slátur. Við gátum ekki fengið blóð, þeir hafa ekki tíma í að hræra í því eftir slátrunina. En við megum koma í sláturhúsið og gera það sjálf ef við viljum. Við sjáum til með það. Gott að vita að það er hægt að fá þetta ef maður vill.

Á föstudaginn fórum við svo til Kolding og settum barnið í pössun. En foreldrarnir fóru á hótel. Það var voða notalegt að vera bara tvö. Þjónustan var nú frekar léleg, en af því við borguðum ekkert fyrir þetta, svo við vorum ekkert að kvarta neitt. Ungfrúnni fannst bara gaman að vera hjá Gunnþóru og var dugleg að leika við Maju dóttir hennar sem er 2 ára. Þær hittast nú ekki oft, en eru voða góðar saman. Það var voða gott að endurheimta barnið aftur. Hún er alveg bullandi kvefuð og pínu rellin út af því. Annars finnst henni voða gaman þessa dagana að fela sig og segja svo bö þegar maður kíkir á hana. Hún getur líka orðið sýnt hvað hún er stór og klappað saman höndunum. Ógurlega gaman. Í gær vinkaði hún svo í hvert skipti sem einhver keyrði framhjá húsinu.

Svo á morgun tekur hversdagsleikinn við aftur. Það var ákveðið í dag að láta verða af því að hengja upp myndir loksins. Við höfum aldrei búið jafn lengi á neinum stað og ekki hengt upp myndir. Enda er þetta allt annað líf. Nú þarf frúin bara að finna tíma til að sauma gardínur og þá verður þetta varla betra. Við erum svo að kíkja á hvort við getum einhvers staðar keypt ódýra sjónvarpsmublu. Það vantar hirslu fyrir geisladiska og svoleiðis. Þetta hirsluleysi fer óstjórnlega í taugarnar á frúnni, svona á köflum, enda er hún kontrólfrík og vill hafa allt á sínum stað! :) Bóndinn ætlar nú að reyna að henda inn myndum af dóttirinni og myndauppsetningunni. Já og sláturgerðinni.

Bestu kveðjur úr kuldalandi

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband