31.10.2010 | 14:44
Vetrartími
Kæru bloggvinir
þá erum við búin að skipta yfir á vetrartíma hér í Danaveldi. Það gerðist í nótt. Núna erum við bara einum tíma á undan Íslandi. Ungfrúin tók nú ekki mikið mark á því og vaknaði bara einum tíma fyrr en venjulega. Það er kl. 5 í staðinn fyrir kl. 6. Frúnni þótti þetta nú fullt snemmt, en það var engu tauti við barnið komið, svo við fórum framúr. Veðrið hefur verið voða undarlegt. Ýmist rigning og rok eða hlýtt og logn. En það hefur nú heldur hlýnað aftur, svo það er hið besta mál. Það var svo fint veður í gær að það var drifið í að setja vetrardekkin undir bílinn. Gott að það er búið. Í dag var svo líka fínt veður, svo það var farið í að hreinsa laufin af blettinum hér fyrir framan. Bóndinn fékk sér einhverja forláta laufsugu, sem er ágætt að hafa svo maður þurfi ekki að raka eins mikið og beygja sig eins mikið niður. Það eru nú enn lauf á sumum trjánum, svo þetta er nú ekkert búið. Það er ekki nóg með að við fáum lauf úr okkar garði, heldur fáum við líka úr skóginum hér fyrir framan. Svo þetta virðist endalaust.
Í morgun kom vinur okkar, sem ætlaði að reyna að tengja nýjan mótor við brenniofninn. Það gekk nú ekki alveg, því það þarf eitthvað að mixa stykki við. Bóndinn ætlar að fara á verkstæði hér á morgun og sjá hvort þeir geta ekki soðið eitthvað saman. Það er vonandi að það gangi og þessi mótor passi við. Þetta er mótor sem vinur okkar notaði á sinn brenniofn, svo þetta ætti að ganga. En maður er nú orðin svo vanur að það sé eitthvað vesen svo maður trúir þessu nú ekki fyrr en þetta fer að keyra.
Ungfrúin er mjög iðin þessa dagana við að prófa ýmislegt miður heppilegt. Það er t.d óskaplega skemmtilegt að príla upp á stóla og reyna að komast upp á eldhúsborð. Hún var eitthvað að gaufa fram við stigann einn morguninn. Það er svo sem ekkert nýtt, svo var liðin smá stund og heyrðist eitthvað lítið í henni svo frúin fór að tékka á henni. Hún var þá búin að príla yfir plötuna sem er fyrir stiganum upp á loft og var komin upp í miðjan stiga. Hún skildi nú ekkert í því hvað mamma hennar var að stressa sig á þessu. En hún hefur allavega ekki reynt þetta aftur. Það er voða sport að vinka og segja bæbæ, en það er ekki endilega þegar maður er að kveðja hana. Henni finnst voða gaman að fletta upp um sig peysunni og ganga um þannig. Það er líka alveg ofsalega gaman að fá að stripplast. Hún hleypur fram á gang og pissar á gólfið og hlær svo alveg ógurlega. Hún er farin að vera voða spennt fyrir að fara í sund. Hleypur alveg þegar hún er að fara í búningsklefana. Hún er orðin mikið betri af kvefinu, sem betur fer.
Næstu helgi er svo jólahlaðborð í vinnunni hjá bóndanum. Það er búið að fá stelpu í Tiset til að passa. Hún hefur gert það áður, svo það verður örugglega ekkert vandamál. Auði finnst líka yfirleitt fínt að prófa eitthvað nýtt og hitta nýtt fólk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.